2256 - Riddarar hringborðsins

Eitthvað er ég að léttast. Ét svolítið minna. Stunda göngur og drekk ógeðsdrykki. Sömuleiðis kaffi ómælt og ósætt. Annars er lífið fyrir okkur ellilífeyrisþegana bara alveg sæmilegt. Allar ríkisstjórnir ráðast þó gjarnan á okkur. Kjör okkar hafa samt batnað hlutfallslega. Einkum ef farið er nógu langt aftur í tímann. Best er að fara alla leið aftur á söguöld. Sagan segir að þá hafi tíðkast (a.m.k. í hallærum) að reka gamalmenni fyrir björg.

Auðvitað er það vitleysa, en ólýginn sagði mér, að til stæði að fá Margréti Pálu til að innleiða Hjallastefnuna á elliheimilum landsins. Einhverjir gætu samt trúað þessu og þessvegna slæ ég því fram.

Læknaverkfallið er mál málanna núna. Launakröfur þeirra (sem fáir vita þó um) virðast njóta mikils stuðnings. Baráttuaðferðir þeirra eru samt alls ekki öllum að skapi. Sjálfur er ég svo íhaldssamur að ég álít að opinberir starfsmenn hefðu aldrei átt að fá verkfallsrétt. Mjólkurfræðingar, flugmenn og ýmsir aðrir mega misnota sinn verkfallsrétt að vild, en opinberir starfsmenn setja þjóðfélagið á vissan hátt á hliðina. Vitanlega eru ekki allir læknar opinberir starfsmenn. Samt er það svo að fjölgun slíkra starfsmann er næstum stjórnlaus og aðalástæða fátæktar okkar Íslendinga. Því fátækir erum við þó við viljum gjarnan sýnast miklir, jafnvel mestir.

Mér er sagt að ég sé nokkuð góður bloggari og nálgist hlutina stundum úr óvæntri átt. Ekki skal ég mómæla því. Platitudes og selvfölgeligheder eru þó mitt helsta vandamál. (Kann ekki að sletta frönsku eins og fínast þykir) Svo er ég stundum ansi seinn með fréttatengdar athugasemdir þó þær séu í sjálfu sér ekkert vitlausar. Meðan einhverjir lesa mig held ég áfram að blogga. Það á vel við mig. Nútíminn er trunta og ég skil hann ekki.

Horfði í gær á nýja umræðuþáttinn á RUV. Ekki imponeraði hann mig. Hræddur er ég um að hann verði ekki langlífur. Niðurstaða umræðnanna fannst mér vera sú að ríkisstjórn sem gengur aftur og aftur á bak orða sinna geti ekki vænst þess að vinna traust hjá „aðilum vinnumarkaðarins“, sem sem er ofnotaðasta glósan á Íslandi um þessar mundir. Ekkert bendir samt til að traustið á ríkisstjórninni sé að bila á alþingi. Þar liggur valdið og ef vantraust verður ekki samþykkt þar lafir stjórnin áfram. Óvinsældir ríkisstjórna eru að verða nokkurskonar náttúrulögmál.

WP 20141103 10 45 24 ProRúlluterta?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Sæll Sæmundur, þú ert alltaf að batna sem bloggari. Ég held því fram að beztu bloggin séu þau sem eru bæði stutt og skorinorð. Þetta blogg er bæði. Og það er rétt að óvinsældir eiga að vera náttúrulögmál. Í því felst aðhald. Hins vegar er flokkshollustan vandamálið. Eftir að menn hafa verið kosnir eiga menn að taka málefnalega afstöðu en ekki flokkspólitíska.

kv

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 9.12.2014 kl. 18:45

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Jóhannes. Alveg sammála þér.

Sæmundur Bjarnason, 10.12.2014 kl. 09:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband