1.12.2014 | 11:30
2253 - Foreldragúllas
Þrennt er það sem ég hef lært í bréfskákunum mínum.
Eina leiðin til að vinna í skák er að skynja og skilja stöðuna betur en andstæðingurinn.
Í hvert skipti sem þú vinnur þá kennirðu andstæðingnum eitthvað mikilvægt.
Ég er samt orðinn svo gamall að ég get ekki lært neitt. (Þ.e.a.s. annað en þetta.)
Sumir sem tjáð hafa sig á fésbókinni og víðar um lekamálið fræga virðast halda að því sekari sem Tony Omos sé, þá sé Hanna Birna og ráðuneyti hennar því saklausara af lygum og ómerkilegheitum. Þarna er samt ekkert samband á milli og hefur aldrei verið.
Annars hefur svo mikið verið skrifað um þetta lekamál að það er að bera í bakkafullan lækinn að halda því áfram, svo best er að hætta.
Það merkilegasta sem sagt hefur verið við mig undanfarna daga er þetta. Og það er símaröddin sem hefur orðið: Time one hour and zero minutes. Distance five point zero six kilometers. Þetta var í fyrsta skipti sem ég heyrði símann segja mér frá því að meðalhraði minn á göngu væri meira en 5 kílómetrar á klst. Reyndar hafði ég þegar þetta var einu sinni verið með meðalhraðann 11,36 min pr. km, en þá heyrði ég ekkert í símanum. Það er auðvelt hugarreikningsdæmi að 12 mínútur pr. kílómeter samsvarar 5 kílómetra hraða.
Skil ekki hvernig er hægt að skrifa langloku um jafn ómerkilegt mál og hæstaréttardóminn sem sýknaði þann sem kallaði Gillzenegger nauðgara. Á vissan hátt er þetta samt hið merkilegasta mál. Minnir að ég hafi bloggað eitthvað um það um daginn. Minnir líka að það hafi verið fréttamaður á Stöð 2 sem skrifaði óralanga grein um þetta á fésbókina eða eitthvað. Fjölmiðlamenn mega skammast sín fyrir að hafa ekki sýnt lekamálinu í innanríkisráðuneytinu meiri áhuga. Mér skilst að það hafi einkum verið tveir blaðamenn á DV (Bernstein og Woodward) sem héldu því vakandi. Þar vógu sannarlega salt hagsumunir blaðamanna og eigenda miðlanna.
Foreldragúllas, járnbrautarslys, unglingahakk og verkamannasteik er oft á borðum hér. Auðvitað eru þetta tilbúin orðskrípi yfir mat, en skemmtileg samt. Íslenskan er auðug og auðvelt að stunda allskyns leiki með henni. Sumir þeirra hafa verið gerðir ódauðlegir með lausavísum. Ekkert er undarlegt við það, að íslenskuþáttur nái vinsældum í sjónvarpi og jafnvel ekki þó aðstandendur þáttarins vilji næla sér í aukapening með bókaútgáfu. Annars held ég að ekki sé mikið upp úr bókum á íslensku að hafa. Rafbækur eru framtíðin og óvíst hvort íslenskan nær sér á strik þar.
Ein er sú sjálfsævisaga sem ber af öðrum sem á íslensku skrifaðar hafa verið. Sú heitir Í verum og er eftir Theodor Friðriksson. Theodor þessi var erfiðismaður en lét þó ekkert tækifæri ónotað til skáldskapariðkunnar. Sjálfsævisaga hans er snilldarleg aldarfarslýsing á fyrri hluta tuttugustu aldar og hans langmerkasta verk. Ekki er mér kunnugt um að hún hafi verið nýlega gefin út. Full ástæða væri samt til þess. Upphaflega var hún gefin út í tveimur bindum. Theodor lést um miðja síðustu öld.
Nú skrifa ég nokkrar málsgreinar, en er ekkert að flýta mér við að senda það upp. Er alveg sama hvort lesendur verða fáir eða margir. T.d. eru nokkrir dagar síðan ég skrifað sumar málsgreinarnar sem nú fara upp.
Nú er mánudagsmorgunn. Fór í gönguferð áðan. Talsvert hefur gengið á í rokinu í gær. Á einum stað þar sem ég fór um hefur tré rifnað upp með rótum og lagst yfir gangstíginn. Fáein tré hafa brotnað og greinar brotnað af. Snjóföl yfir öllu og svolítið seinfarnara þessvegna.
Athugasemdir
Blessaður Sæmundur.
Hlakka alltaf til að lesa þína góðu pistla. Mikið var gaman og gott að þú skyldir minnast á sjálfsævisögu Theodórs Friðrikssonar, hún er í miklu uppáhaldi hjá mér.
Ég var orðinn fullorðinn þegar ég las "Í verum", man hinsvegar ekki hvernig ég eignaðist þá bók. Ég var búinn að lesa nokkra kafla, þegar ég fékk eins og stuð. Var þessi maður giftur Sigurlaugu Jónasardóttur, eða Laugu í Gröfum, eins og hún var kölluð norður á Húsavík? Ég hefði borið meiri viðingu fyrir Laugu hefði ég vitað meira um hennar erfiða líf.
Ég vara bara strákur, en man vel eftir henni, bláfátæk kona með andlit mótað af þjáningum lífsins. Okkar skíðasvæði var Laugutúnið, í brekku Skálamelsins, en þar var tún Laugu en hún átti alltaf nokkrar kindur.
"Í verum" er sú bók sem á erindi á náttborðið. Og eins og þú segir, full ástæða til að gefa bókina út, sem kilju, og láta nemendur í barna og framhaldsskólum lesa.
Meiri "Íslendingasaga" en margar þær sem ganga undir því nafni.
Kveðja frá Sviss.
Haukur Kristinsson 1.12.2014 kl. 18:15
Takk Haukur. Það eru þónokkrir áratugir síðan ég las "Í verum". Fékk hana á bókasafni, að mig minnir. Þessi bók hafði mikil áhrif á mig. Helst get ég likt henni að því leyti við "Veröld sem var", eftir Stefan Zweig. Ólíku er þar samt saman að jafna.
Sæmundur Bjarnason, 5.12.2014 kl. 23:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.