2246 - Styrmir Gunnarsson

Stundum þegar ég fletti fésbókinni og skoða myndir þar finnst mér merkileg hve mikill introvert og durtur ég hef oftast verið í mínu lífi. Það segir þó afar lítið um hvernig mér hefur liðið oftast nær. Besservisseraheilknnið hefur samt verið nokkuð ríkt í mér því mér blandast ekki hugur um að ég hef viljað stjórna öllu og þóst hafa vit á öllum sköpuðum hlutum. Þetta olli mér þó ekki miklum vandræðum, en kannski hefur verið erfitt að starfa með mér. Það er þó ekki fyrr nú á efri árum sem ég er almennilega farinn að gera mér grein fyrir þessu.

Stjórnmál hér á ísa köldu landi þykja mér oftast nær heldur grunnfærin og ég er ekki frá því að t.d. sumum Alþingismönnum þyki það einnig. Ástæðan fyrir uppgangi sjálfstæðiflokksins hér á landi er aðdáun þeirra og sleikjuháttur gagnvart öllu sem amerískt er, en þó einkum bandarískt og frjálslynt getur talist. Þeir trúa því jafnvel að republikanar séu frjálslyndari en demókratar.

Ég tek undir með Styrmi Gunnarssyni að ekki þýðir fyrir þá fóstbræður Bjarna og Sigmund að láta eins og þeir einir viti alla skapaða hluti, en allir aðrir séu bara vitleysingar. Þannig ganga hlutirnir ekki fyrir sig. Ef næstum óþekktur fyrrverandi blaðamaður getur í gegnum fésbókina og hugsanlega aðra samfélagsmiðla fengið 4500 manns (eða fleiri) til að safnast saman á Austurvelli til að mótmæla ríkisstjórninni, þá er eitthvað stórkostlegt að. Ekki gætu fóstbræðurnir (Bjarni og Simmi) það. Og svo flytja framsóknarmenn bara tillögu um að taka skipulagsmálin af Reykvíkingum af því þeir fóru svo illa útúr samstarfinu við flugvallarvini. Held að þessum vesalingum sé ekki sjálfrátt.

Mér sýnist það vera einn maður sem heimtar áskriftargjald á Herðubreið. Karl Th. Birgisson. Kannski er það eðlilegt. Hugsanlegt er að hann geri ekkert annað en að skrifa í Herðubreið. Þá veitir honum varla af salti í grautinn. Nema hann sé kominn á eftirlaun eins og ég.

Héraðsfréttablöðin eru mun skemmtilegri aflestrar en dagblöðin. Þau eru satt að segja hrútleiðinleg. Altsvo dagblöðin. Sama er að segja um netblöðin, fésbókina og jafnvel bloggið, sem ég hef þó talsvert álit á. Dag- og netblöðin gera lítið annað en fjargviðrast um pólitísk mál, sem allir eru að sjálfsögðu hundleiðir á og svona til uppfyllingar eru þýddar hryllingsfréttir úr útlendum blöðum og reynt að láta þær líta sem mest út fyrir að vera íslenskar, þó kannski sé ekki logið beinlínis.

Mikið varð ég hissa eitt sinn þegar ég var lítill. Einn félagi minn, sem ég man ekki lengur hver var, hafði komið heim til mín með mér og af einhverjum ástæðum fórum við inn í gegnum þvottahúsið. Hugsanlega hefur þetta samt verið þegar við áttum heima vesturfrá eins og við kölluðum það alltaf. Ekki man ég eftir neinu þvottahúsi þar að vísu, en það er ekkert aðalatriði í þessari frásögn. Mamma var búin að verða sér úti um þónokkurn slatta af rabbarbara og hefur vafalaust ætlað að gera úr honum sultu eins og hún var vön. Mig langaði í rabbarbara og þessi félagi minn vildi það gjarnan líka. Við spurðum því mömmu að því hvort hann mætti ekki fá líka. Hún sagði það alveg sjálfsagt.

„Mikið er mamma þín góð“, sagði þessi félagi minn þá og við það varð ég alveg standandi hlessa. Var það virkilega hugsanlegt að aðrar mömmur hefðu ekki gert það sama? Mér fannst það ótrúlegt, en við þetta stækkaði heimurinn mjög í mínum huga og ég er ekki viss um að ég hafi litið þennan félaga minn réttu auga lengi á eftir.

IMG 1882Málverkasýning á Edensreitnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ókey, elsku kallinn, en þetta er málið: Bjarni og Sigmundur Davíð vita ekki alla skapaða hluti. Og hvorki þú né ég. Kannski að við ættum að rifja upp og endurlesa söguna um "Nýju fötin keisarans"? Þú manst kannski hvernig hún endaði?

Hún endaði á því að lítill polli sagði að keisarin væri ekki í neinum fötum. Það má líkja þessu við þegar félagi þinn sagði á sinum tíma: "Mikið er mamma þín góð." Þú fattaðir ekki sjálfur að mamma þín væri góð, en lítill polli dúkkaði upp og benti þér á það.

Og nú hefur lítill polli dúkkað upp, og hvað skrfaðir þú, fyrrverandi blaðamaður?, sem vill benda ákveðnum aðilum á, að þjóðin sé engir "vitleysingjar."

Ingibjörg Magnúsdóttir 10.11.2014 kl. 21:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband