2220 - Fjölmiðlafár

Bjarni Benediktsson, hélt embætti sínu sem formaður Sjálfstæðisflokksins með því að grenja svolítið. Hanna Birna sótti vissulega að honum eftir áeggjan Davíðs Oddssonar og hélt að sagan mundi endurtaka sig með því að hún kæmi eins og riddari á hvítum hesti (Lady Godiva) og bjargaði flokknum. Þetta hafði hún ekki reiknað rétt og tilraunin mistókst. Kannski hafði líka grenjið í Bjarna tilreiknuð áhrif. Nú er flokkurinn í ca. 25% fylgi og kannski fer hann ennþá neðar ef Hanna Birna heldur áfram að hanga eins og hundur á roði á þessu ráðherraembætti sem henni var trúað fyrir. Svo er Simmi farinn að ókyrrast. Hann ætlaðist til þess að framsókn fengi jafnmarga ráðherra og Sjálfstæðisflokkurinn. Og telur sig hafa beðið nógu lengi. Með því jaðarflokksfylgi sem Harðsnúna Hanna er nú búin að koma Sjálfstæðisflokknum í, getur hann e.t.v. ekki staðið með sannfærandi hætti gegn kröfu Sigmundar um jafnmarga ráðherra.

DV-málið sem núna er hvað háværast í fjölmiðlaheiminum gæti verið merkilegast slíkra mála síðan Helgarpósturinn fór á hausinn. Það er satt að segja hryllileg tilhugsun að enginn fjölmiðill sé andvígur núverandi stjórnvöldum. Jú, RUV-ið burðast svosem við að halda uppi einhverri stjórnarandstöðu og Kastljósið er alls ekki vonlaust. En hvenær sem er gætu stjórnvöld stungið upp í þessa miðla. Frjálsir eru þeir alls ekki.

En Fréttablaðið og allir netmiðlarnir, kynni einhver að spyrja. Mín skoðun er sú að 365-veldið sé að herða tökin á Fréttablaðinu og netmiðlarnir eru allir svo smáir og takmarkaðir að þeir valda varla hlutverkinu. Ef þaggað verður niður í DV og það hættir að koma út má búast við hverju sem er. Auðvitað er það ekki Reynir Traustason sem skiptir höfuðmáli hér eða einhverjir útgerðarmenn sem hugsanlega hafa lánað einhverjum fáeinar milljónir, heldur rannsóknarblaðamennska á Íslandi eins og hún leggur sig. Vitanlega er mörgum illa við DV, skárra væri það nú. Mörgum hafa þeir velgt undir uggum og svo eru þeir svo sjálfmiðaðir að með fádæmum er.

Nú ætla ég að reyna að hætta þessu pólitíska japli og snúa mér að einhverju merkilegra. En hvað er merkilegra? Ekki veit ég það. Og kannski enginn. Vel er hægt að halda því fram að öll mál geti verið pólitísk. Svo er líka hægt að gera margt án þess að láta pólitíkina flækjast fyrir sér. Sem betur fer höfum við Íslendingar kynnst mörgu og þó margt virðist í hættu hér um þessar mundir er heimsfriðurinn það kannski ekki. Og þó. Ástandið í Úkraínu er engu líkt, nema þá helst valdatöku Hitlers á síðustu öld. Pútín er trúandi til alls. Vel má búast við að atburðir gerist hratt á þessari „gervihnattaöld“ .

Jæja, það er víst kominn tími til að skella þessu inn á bloggið mitt áður en það úreldist of mikið. Nú er þriðjudagsmorgunn og rigning eins og venjulega. Samt er ég búinn að fara út og labba smávegis um. Engar fréttir hef ég haft að gosinu. Vona bara að því líði vel og það haldi áfram að vera þarna.

IMG 1593Tröppur.

IMG 1597Keilir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband