2212 - Bárðarbunga, Hanna Birna og ýmislegt fleira

Ég er alveg sammála Sigrúnu Magnúsdóttur, formanni þingflokks framsóknarflokksins, um að þetta „lekamál“ er búið að taka alltof langan tíma og alltof mikla orku. Þetta hefur líka verið stríð á milli frjálsrar fjölmiðlunar og stjórnkerfisins í landinu. DV og RUV hafa lagt sig í líma við að upplýsa málið, en mætt eins mikilli andstöðu kerfisins og það hefur þorað. Stuðningur annarra fjölmiðla hefur, einkum framanaf, verið í mýflugumynd. Nú vilja allir þessa Lilju kveðið hafa. Ekki er þetta mín einkaskoðun heldur virðast margir vera á henni, jafnvel fólk sem styður ríkisstjórnina að öðru leyti.

Hægri og vinstri eru hugtök sem notuð eru í stjórnmálum. Í hugum flestra hafa þau ákveðna merkingu. Í mínum huga táknar vinstrið fyrst og fremst jöfnuð. Jöfnuð í launum og á sem flestum sviðum öðrum. Ég þykist hafa tekið eftir því að í þjóðfélögum þar sem ójöfnuður ríkir sé ekki gott að eiga heima. Kannski er það samt ágætt fyrir þá sem njóta góðs af ójöfnuðinum. Hætt er við að þeir séu bara svo fáir. Hinir sem fyrir barðinu á ójöfnuðinum verða eru miklu fleiri. Fullkomnum jöfnuði er alls ekki hægt að ná. Því þóttust kommúnistarnir í Sovétríkjunum sálugu þó stefna að. Úr því varð mikill ójöfnuður. Svo mikil að með því komst óorð á jafnaðarstefnuna.

Mér sýnist að þetta blogg geti erðið einslags afsökunarblogg fyrir tæknihungraða lesendur. Engin ástæða  er fyrir Íslendinga til að láta stríðsáróður útlendinga hafa áhrif á sig. Þrjú mál ber hæst hér innanlands um þessar mundir: „Lekamáið“, „Bárðarbungumálið“ og „DV-málið“. Ég hef reyndar þá skoðun á stríðsmálunum að þar sé „Gaza-málið“ notað sem „smoke-screen“ fyrir hitt sem sé miklu alvarlegra, en það er önnur saga og verður ekki reifuð nánar hér.

Lekamálið er á því stigi að Hanna Birna er ekki nema hálfur ráðherra. Helsta vörn stuðningsmanna hennar þessa dagana er að Jóhanna Sigurðardóttir hafi brotið lög og komist upp með það. Ýmislegt er athugvert  við þau rök. Hún braut lög með því að ráða karlmann í starf sem auglýst var. Úrskurðarnefnd jafnréttismála taldi hana hana hafa brotið lög með því að ráða ekki konuna. Úrskurðir þeirrar nefndar hafa lagagildi og því bar henni að víkja. Þetta eru veikburða rök. Afbrot eins núlla ekki út afbrot annarra, þó ráðherrar séu. Það er gömul saga og ný. Auk þess eru málin á margan hátt eðlisólík.

Sennilega er ekki mikið að marka mínar skoðanir í Bárðarbungumálinu. Held samt að ekkert verði úr neinu gosi. Meðal ástæðna fyrir því að Sýslumenn og aðrir stjórar hafa nú bannað umferð um stóran hluta hálendisins, er þörf þeirra til að sýna vald sitt. Þessu banni verður ekki auðveldlega aflýst. Þó ekkert verði úr gosi er vel hægt að viðhalda hættuástandinu lengi.

Reynir Traustason kann að vera á útleið úr ritstjórastól DV. Held þó að það tengist lítið lekamálinu og þá ekki nema óbeint en sé vegna hatrammrar valdabaráttu um þetta eina dagblað sem heldur upp harðri gagnrýni á stjórnvöld. Þó það geri stundum (oft) of mikið úr hlutunum og ljái þeim rúm eftir eigin hentugleikum er því ekki að neita að neikvæðnin og gagnrýnin á stjórnvöld, svo sjálfsögð sem hún er, á sér einkum stað á þessu blaði. Önnur koma svo á eftir ef öruggt er að engin áhætta fylgir því.

IMG 1540Ræktunarstöð Reykjavíkurborgar.

IMG 1541Malbikunarskrímsli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband