2209 - SDG

Eitt blogg á dag kemur heilsunni í lag. Eftir þessu lifði ég einu sinni. Bloggaði daglega svo margir urðu þreyttir á að lesa kjaftavaðalinn úr mér. Síðan ég hætti þeim óskunda líður mér miklu betur. Bloggið er alveg hætt að vera mér nokkur kvöð. Ég má aðallega passa mig á að halda svolítið aftur af mér. Verst hvað ég er vitlaus. Þeir sem blogga svona mikið um allan fjandann eru ekki sérfræðingar í neinu. Hrunsérfræðingar eru a.m.k. fimmtán í tylftinni. Pólitíkin er líka alveg að gera mig gráhærðan. Ó, afsakið ég er víst gráhærður fyrir og gráskeggjaður að auki.

Hver er aðalmunurinn við að vera fáeinum kílóum léttari en áður? Jú, ég get sagt ykkur það. Ég er ekki lengur í vandræðum með að koma buxunum að mér og svo er ég örlítið léttari á mér. Og hvernig léttist ég svo um nokkur kíló? Jú, aðallega með því að hætta (að mestu) að éta brauð og kökur. Sömuleiðis að hætta með öllu að nota sykur í kaffið. Líka er nauðsynlegt að viðurkenna fyrir sjálfum sér að agnarlítil hungurtilfinning skaðar ekki neitt.

Skil ekki þetta hjal hjá Emil Hannesi um „Hjómið eitt“ þó hann hafi reynt að útskýra það fyrir mér í athugasemdum við bloggið. Held helst að hann eigi við að „Hjómið eitt“  sé ekki af holdi og blóði og sé „staðsett“  hér á Moggablogginu. En ég er svo skilningslaus að ég á stundum í vandræðum með að skilja einföldustu hluti. Kannski er þetta ellin. Hræddur er ég samt  um að fésbókin blessuð sé að ganga sér til húðar. Hana skil ég alls ekki. Reyni þó að vera með. Ekki veit ég hvað kemur í staðinn fyrir hana hér á Ísa köldu landi, en eitthvað hlýtur það að verða.

Mér finnst árásir vinstrisinna á Sigmund Davíð Gunnlaugsson oft dálítið skrítnar þó ekki sé rétt að kalla þær loftárásir. Víst er hann dálítið feitur og góður með sig. Fótarmein hrjáði hann á tímabili og allt þykist hann vita. Stundum er hann jafnvel svolítið Vigdísarlegur. Veltir sér uppúr orðum og hugtökum sem hann skilur ekki.

Mamma las lítið. Mátti sjaldan vera að því. Féll varla verk úr hendi einsog oft er sagt. Minnir þó að hún hafi verið áskrifandi að tímariti nokkru sem hét „Nýtt Kvennablað“. Gott ef þar var ekki framhaldssaga eftir Guðrúnu frá Lundi. Gæti hafa heitið „Ölduföll“ (nenni ekki að Gúgla.) Sjálfur fékk ég einhvern smekk fyrir langdregnum skáldsögum fyrir mörgum árum og las þá langa skáldsögu (líklega Dalalíf) eftir nefnda Guðrúnu og hún var síst verri en margt annað sem ég hef lesið. Bókmenntapáfar hafa talað heldur niður til hennar undanfarna áratugi. Mér finnst það að ósekju. Vinsæl hefur hún lengi verið hjá almenningi.

Viðurkenni alveg að norski fáninn er mun fallegri en sá íslenski. Kannski er það ekkert að marka því uppáhaldsliturinn minn er rauður. Samt finnst mér það ekki nægja til að styðja fylkisflokkinn. Eiginlega hef ég meira á móti Norðmönnum en Dönum. Gott ef Svíar eru ekki skástir Norðurlandaþjóðanna, þrátt fyrir allt sitt dramb og stærilæti.

IMG 1390Blóm.

IMG 1431Þekktir menn á fundi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Svo ég haldi áfram þessu hjali þá er gert ráð fyrir að átján forsíðubloggarar eða "stórhausar" sjáist hverju sinni á forsíðu blog.is (http://blog.is/forsida/). Þú ert gjarnan einn þeirra enda afkastamikill og stundum sést ég sjálfur þá sjaldan sem ég skrifa. Þeir bloggarar sem eru í þessum eðalflokki birtast þarna í sólarhring eftir að þeir setja bloggfærslu í loftið. Aðrir verða að láta sér nægja að vera neðar á síðunni í styttri tíma undir "Nýjustu færslur". Kannski ferðu ekki oft inn á þessa bloggforsíðu og sérð ekki það sem ég er tala um.

Í þeim tilfellum þegar færri en átján í hópi forsíðubloggara hafa skrifað síðustu 24 tímana þá myndast eyða í kerfinu og þá detta inn til uppfyllingar bláar fígúrur og setningin "Hjómið eitt" Ekkert er á bakvið þessar bloggfærslur enda búnar til af kerfinu. Þessum uppfyllingarbloggum hefur fjölgað undanfarið sem segir mér að það eru færri sem blogga en gert er ráð fyrir - og færri en áður því þetta sást aldrei á blómaskeiði bloggsins. Kannski eru menn eitthvað að taka við sér nú því þegar þetta er skrifað er engin svona uppfylling en þetta var áberandi í sumar og stundum mátti sjá allt að 5 svona bláa karla á sama tíma.

Annars er þetta ekki aðalmálið í dag, hélt bara að þú kannaðist við þetta. En haltu endilega áfram þínum kjaftavaðli. Þar leynast gjarnan ýmis gullkorn og lúmskt skemmtilegar myndir.

Emil Hannes Valgeirsson, 16.8.2014 kl. 00:11

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég er einsog hver annar asni þegar uppfyllingarblogg ber á góma. Hef aldrei rekist á þessa bláu karla. Kíki þó stundum (oft) á stórhausana sem einhver kallaði svo. Kannski væri rétta ráðið að fjölga þeim. Var sjálfur gerður að slíkum einhverntíma í fyrndinni. Held að það hafi veri um leið og Lára Hanna. Svo hættu margir hér þegar DO varð ritstjóri. Þetta með 24 tímana hef ég aldrei vitað.

Sæmundur Bjarnason, 16.8.2014 kl. 13:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband