2205 - Svarthöfði

Þeir sem skrifa á blogg og fésbók og þeir sem lesa ósköpin, er það ekki að mestu leyti sama fólkið? Mér finnst margt benda til þess. Ég tala nú ekki um öll lækin, séringarnar og þ.h. Margfeldisáhrifin eru geysileg. Ekki er víst að sá hópur sem lætur sig stjórnmál varða og skrifar um þau (ég tel mig reyndar í honum) sé ýkja stór. Auðvitað eru lesendur miklu fleiri en skrifendur, en þó skrifendurnir skipti kannski ekki nema nokkrum hundruðum virðast margir óttast áhrif þess hóps mjög. Kannski eru áhrif hans að aukast í réttu hlutfalli við minnkandi trú fólks á stjórnmálum og fjölmiðlum almennt.

Þó mér finnist ég láta mig stjórnmál varða skrifa ég ekki mikið um þau. Núna ber langhæst í bloggi og á fésbók Hönnu Birnu og Gaza-málið. Hvorugt skrifa ég um og forðast það efni eiginlega dálítið, því mér finnst fólk yfirleitt verða svo æst (fyllast jafnvel trúarhita) þegar rætt er um þessi mál. Sumir vilja draga fólk í dilka eftir skoðunum sínum í þessum málum, en satt að segja er margt annað hægt að ræða um.

Hvort skyldi vera réttara að tala um appa eða öpp. Hef séð hvorttveggja. Beygingar tökuorða eru oft heilmikð vandamál. Merkingin er kannski ljós en sumar beygingar er reynt að forðast vegna óvissu. Í gama daga leystum við þetta oftast með hljóðlíkingu en hún er ekki alltaf ótvíræð.

Þeir sem sækja sér allskyns fróðleik á netið eru eflaust margir. Kennsla í netnotkun og gúgli er að verða almenn. Þeir unglingar sem ekki geta tileinkað sér það helsta í því efni, eru illa settir. Lestur og hugarreikningur er e.t.v. á undanhaldi og við gamla fólkið þreytumst ekki á að brýna fyrir þeim sem yngri eru hve nauðsynlegt þetta sé. En er það svo? Tal, hlustun og áhorf er að miklu leyti að taka við af lestrinum og þó bækur séu til margra hluta nytsamlegar eru þær ekki eins ómissandi og þær voru.

Svarthöfði er líklega alterego margra. Þar geta þeir viðrað viðhorf sín sem þora ekki að standa við þau og kallað alla sem hafa önnur viðhorf fanga pólitísks rétttrúnaðar eða hvað annað sem þeim dettur í hug. Var að lesa hugleiðingar Svarthöfða útaf múlattatali Morgunblaðsins og fleiri nýlega. Satt er það að sumir fulltrúar og réttlætendur pólitísks rétttrúnaðar, sem Svarthöfða og fleiri öfgahægrimönnum er sérlega uppsigað við, gera oft óþarflega mikið úr réttri og breyttri orðanotkum. Enginn vafi er samt á því að Svarthöfði (sem bloggar á DV – að ég held) og þeir sem skrifa fyrir hann eru engu minni öfgahægrimenn en t.d. Jón Valur Jensson og Vilhjálmur í Köben.

Stundum eru föstudagsbloggin einna mest lesin hér á Moggablogginu. Kannski ég sendi þetta bara út í eterinn þó það sé í styttra lagi.

IMG 1288Trönur.

IMG 1298Bátur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Sæmundur.

Vonandi er myndin ekki af þjóðarskútunni!

Hvað viðkemur orðunum 'appa' og 'app' þá er
ókostur þessara tökuorða augljóslega sá að þau
eiga sér engar forsendur í íslensku máli, leiðir
af sjálfu sér.

Þetta eru smáforrit og er það hafið yfir allan vafa.

Þau ættu að kallast sem slík eða 'agnir' og/eða 'ögn'
vilji menn halda sig sem næst orðunum á ensku
og merkingu þeirra sem og að laða þau að
eðlilegu íslensku máli og beygingarkerfi þess.

Húsari. 8.8.2014 kl. 14:31

2 identicon

Lekamálið hefur verið og er enn á dagskrá. Og verður, þar til Hanna Birna og hennar aðstoðarmenn hafa komið sér í burt úr ráðuneytinu.

Upphaflega snérist málið um hælisleitendur, um fórnarlömb siðlausra embættismann í ráðuneytinu og þá ekki síst um Tony Omos. Hann er hinsvegar gleymdur og grafinn, horfinn og fáir virðast hugsa til hans. Enda í augum ráðherranns og aðstoðarmanna ekki manneskja úr holdi og blóði, heldur digital objekt í tölvu,  samansett úr 1 og 0, ótalmörgum. Því var það lítið mál fyrir Gísla Frey að breyta objektinu eða jafnvel þurrka út, sitjandi við tölvuna í mjúkum stól ráðuneytisins. Mér þykir ólíklegt að Gísli Freyr hafi hitt Tony, tekið í hendina á honum, boðið honum sæti og grennslast eftir líðan hans.

Og nú hefur Útvarp Saga hengt upp „WANTED, DEAD OR ALIVE“ plakat.

Miklir menn erum við Íslendingar!


 

 

Haukur Kristinsson 8.8.2014 kl. 14:58

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Húsari. Þessi bátur er á Akranesi og er afar vinsælt myndefni.

Hvað appið snertir þykir mér hvorugkynið eðlilegra en karlkynið. Ekki þýðir að berjast alfarið á móti tökuorðum. App er eiginlega orðið viðurkennt í íslensku. Á ensku er það stytting á orðinu application, að ég held.

Sæmundur Bjarnason, 8.8.2014 kl. 20:30

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Haukur.

Ég er eiginlega orðinn leiður á þessu máli og embættismenn í ráðuneytunum eru ekkert siðlausari nú en vant er. Ég get samt alveg fallist á að stjórnarfarið hér á Íslandi er lélegt.

Á Útvarp Sögu er ég hættur að hlusta. Samt er Pétur vel að sér um marga hluti. 

Sæmundur Bjarnason, 8.8.2014 kl. 20:37

5 identicon

þú veist að svarthöfði er grín? og engin alvara á bakvið þau skrif

ívar 9.8.2014 kl. 01:18

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Nei Ívar minn, það vissi ég ekki og veit ekki enn. Kannski Jón Valur Jensson sé það líka!!! Sé núna að ég hef skrifað Jónsson í bloggið og skal leiðrétta það strax.

Sæmundur Bjarnason, 9.8.2014 kl. 13:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband