2197 - Myndir

Nú get ég hindrunarlaust sett inn myndir, þó ég hafi ekki getað það í gær. Eini gallinn er sá að ég á erfiðara með að velja hvaða mynd fer á fésbókina. Kannski Moggabloggsguðirnir lesi bloggið mitt. Segi bara svona. Ekki veit ég hvernig á þessu stendur.

Í dag er föstudagur og á flestan hátt ætti það að vera einn besti dagur vikunnar. Samt er blautt um úti og ekkert sérlega gott veður og alls ekki sólríkt. Sennilega hefur sólin verið í felum meira og minna allan þennan mánuð. Svo dreymdi mig heldur leiðinlega í nótt, en tölum ekki meira um það. Þessi helgi sem nú er að byrja er víst sú síðasta í mánuðinum og auðvitað ætti veðrið að vera gott. Til þess höfum við nú júlí.

Get ekkert skrifað um Palestínu. Ástandið þar er þyngra en tárum taki ef marka má fjölmiðla. Frétt um það að farþegaþota með á annað hundrað manns innanborðs hafi farist í Afríku komst varla að í fréttunum. Neikvæðu fréttirnar í miðlunum (fjöl- og net-) eru orðnar svo áberandi þessa dagana að allir eru að verða vitlausir. Kannski væri fjölmiðlafrí og netfrí betra en hefðbundið sumarfrí. Veðrið ætti a.m.k. að skipta minna máli.

Einhverjir pappírssölumenn (sem seldu pappír til lögreglustjóranna í landinu) plötuðu líklega Árna Johnsen til að flytja frumvarp um einkanúmer. Held að það sé eina afreksverk Árna á þingi fyrir utan það að syngja í ræðustól. Auðvitað var þetta með einkanúmerin efni í sjónvarpsfrétt og Árni sjálfur fékk fyrsta númerið. Hvað haldið þið að það hafi verið? „Ísland“. Að sjálfsögðu Já, það var Árna líkt. Sá nýlega jeppa sem var með einkanúmer, sem hefði getað verið frá Árna komið. Þar stóð: „ÉG“

Mínum skrifum kem ég á framfæri á ýmsan hátt. Kannski ég geri svolitla grein fyrir því hér. Bloggið mitt er sá vettvangur sem ég nota langmest. Oft fer líka þangað það sem einnig fer eitthvert annað, án þess að ég biðjist afsökunar á því. Ekki er því samt að treysta. Stundum verður mér það á að gera vísur. Þær set ég gjarnan á „Boðnarmjöð“ á fésbókinni. Sá hópur er greinilega talsvert notaður og þar virðist fátt tekið hátíðlega. Stundum ofbýður mér vitleysan í fjölmiðlunum og þá geri ég (eða gerði) athugasemd á „Orðhenglinum“ á fésbókinni. Aðra hópa þar nota ég lítið, nema þá helst til lestrar. Önnur og persónulegri skrif stunda ég lítt, kannski alltof lítið, því skriftir er eiginlega það eina sem ég kann (fyrir utan allt hitt).

Af því að nú fer í hönd helgi, þá er ég að hugsa um að losa mig við það sem ég er búinn að skrifa og senda það út í eterinn. Lítið er það að vísu og kannski einhverjir lesi bara eitthvað annað til uppfyllingar. Ekki reiðist ég við það.Nafnleysinginn frá í gær lætur ekkert á sér kræla.

IMG 0949Harpa.

IMG 0961Fífill og lúpína.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband