12.7.2014 | 00:15
2190 - Steinvaknaður
Afi, ertu steinvaknaður? og um leið er potað ofur varlega í handlegginn á mér. Er hægt að vakna á betri hátt? Mér er bara spurn. Að vísu er veðrið ekkert til að hlaupa húrra yfir, en það er ekki hægt að fara fram á allt. Í dag á að fara upp að Hagamel til pabba og mömmu og þó hann hætti ekki í vinnunni fyrr en klukkan fjögur, er vissara að undirbúa sig vel fyrir slíka langferð og gæta þess að afi og amma gleymi ekki að fara.
Í gær fórum við í heimsókn til Benna og Angelu. Helena og Díana voru nú skemmtilegastar. Svo var voða gaman í rólunum. Verst að það rigndi svo mikið að ekki var hægt að prófa trampólínið. Geri það bara seinna. Í fyrradag fórum við í heimsókn til langafa og langömmu. Þau eiga heima í kirkjugarðinum, í holu í jörðinni, því þau er dáin. Og Hardís kom og greiddi á mér allt hárið, sem er víst voða mikið. Svo fórum við á Hárgreiðslustofu og þar var hárið fléttað og gert svakalega fínt. Samt langar mig mest heim til pabba og mömmu á Hagamel.
Þetta er svona í orðastað Tinnu að mestu leyti. Þó veit ég ekkert hvernig hún hugsar. Mesti leyndardómurinn í heimi er hvað annað fólk gerir eða segir og af hverju.
Mér er enn minnisstætt þegar hún spurði pabba sinn formálalaust þegar hann hringdi í hana. Pabbi, ertu í fangelsi? Ætli hún hafi ekki verið svona nýorðin þriggja ára þá. Ekki er nokkur leið að finna út hvers vegna hún spurði að þessu. En fyndið var það.
Af hverju ég er svona gangntekinn af Tinnu og orðtöku hennar? Engin leið er að vita það. Veit það alls ekki sjálfur. Hún er fyrsta barnabarn mitt og með öllu ómótstæðileg. Öll hennar fjögur og hálft ár hafa verið mér stanslaus gleði og myndirnar af henni eru sannarlega legíó.
Nú fer þessari heimsmeistarakeppni að ljúka. Enn er ég þeirrar skoðunar að Argentínumenn vinni sigur. Kannski verður sigurvissan Þjóðverjum að falli. Suður-Amerískur fótboti er einfaldlega opnari, hraðari og skemmtilegri finnst mér, en sá þunglamalegi og varnarsinnaði Evrópski. Þess vegna held ég með Argentínumönnum í úrslitaleiknum á sunnudaginn.
En nóg um það. Margt er merkilegra en blessaður fótboltinn. Af öllu því þýðingarlausa sem borið er á borð fyrir pöpulinn er hann þó sennilega það skásta. A.m.k. á fjögurra ára fresti.
Bráðum verður hægt að kaupa áfengi í Bónus og þá þýðir ekkert lengur að segja uppá dönsku: Jeg bruger ikke paafengi under disse rundtomstæder. Þegar frá líður verður þetta að líkindum mesta afreksverk núverandi ríkisstjórnar og sennilega verður hún við þetta kennd.
Púðurtunnan fyrir botni Miðjarðarhafs (afleitt orðalag) virðist einu sinni enn að því komin að springa. Ef ekki væri vegna allra þeirra mannlegu harmleikja sem þetta ástand skapar, væri það ekki einu sinni fyndið. Ísraelsmenn virðast á margan hátt þræða samviskusamlega fótspor fyrrverandi andskota sinna og ekki orð um það meir. Allt er þetta þyngra en tárum taki og kannski er afstöðuleysið skásta ráðið.
Gróðurhúsaáhrifin eru samt mál málanna og munu halda áfram að vera það. Smástríð hér og þar skipta afar litlu máli í heildarsamhengi hlutanna. Verst er að allskyns hagsmunir eru orðnir svo samfléttaðir öllu sem sagt er um þessi áhrif að illmögulegt er að greina rétt frá röngu.
Þá er búið að kalla á Buckheit, eða hvað hann heitir, og það á víst að semja. Ríkisstjórnin er semsagt búin að komast að því á rúmu ári að það þurfi að semja um skuldirnar. Hvort farið verður eftir því sem lagt verður til, er svo alltannað mál. Hald mitt er að búið sé að leggja grunninn að samningum og við verðum fram til um 2020 að borga þetta, Þetta er sá skilningur sem ég legg í það sem Simmi segir. Þá verðum við kannski komin á þann stað að þjóðin verður búin að borga það sem útrásarbesefarnir stálu frá henni.
Ódælt vatn. (Altsvo, það á eftir að dæla því í burtu.)
Eldur í mikilli fjarlægð. (Sólin)
Athugasemdir
Þessi færsla gæti varla verið betri!
Haukur Kristinsson 12.7.2014 kl. 05:00
Takk Haukur. Ég kann vel að meta skoðanir þínar.
Sæmundur Bjarnason, 12.7.2014 kl. 09:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.