4.7.2014 | 08:55
2187 - Bjarna-Dísa
Frásögnin um Bjarna-Dísu er ein ógurlegasta draugasaga allra tíma. Einhver áhrifamesta og átakanlegasta draugasaga sem ég hef lesið er frásögnin af Bjarna-Dísu og örlögum hennar. Í rauninni er þetta sennilega engin draugasaga heldur aðeins frásögn af ógnvekjandi og hrikalegum atburðum sem urðu á Austurlandi undir lok átjándu aldar. Frásögnin af þessu máli er þó oft flokkuð með draugasögum og sem slík í Þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar. Á vef Netútgáfunnar http://www.snerpa.is/net/thjod/bjarnadi.htm má lesa þessa frásögn orðrétta. Bjarna-Dísa hét Þórdís og var Þorsteinsdóttir. (Á vefsíðu draugaseturins á Stokkseyri er hún sögð Þorgeirsdóttir). Hún varð úti á Fjarðarheiði þegar hún var um tvítugt. Bjarni bróðir hennar dó einhverntíma laust eftir 1840.
Eins og fyrr segir er hægt að lesa þessa frásögn alla á vef Netútgáfunnar. Þar er ekki annað að sjá en þetta sé talin draugasaga og ekkert annað. Þó er í miðri frásögninni eftirfarandi klausa með breyttu letri og er hún örugglega frá öðrum komin en upprunalegum skrásetjara frásagnarinnar. Málsgreinin er þannig:
Aðrar sögur segja, að Þorvaldur hafi brotið Dísu á bak aftur, til þess að hún væri kyrr, og hætti hún þá að orga. Margar eru fleiri ljótar sagnir um viðureign þeirra. Þorvaldur var maður vandaður, en með hjátrú eins og margir á 18. öld, og mun það réttast, sem hann sagði frá sjálfur. Sögur segja, að þau Bjarni hafi haft brennivínskút. Mun Dísa hafa verið drukkin og lifað, en Þorvaldur gert út af við hana í hjátrúaræði.
Þau systkin Bjarni og Þórdís voru á ferð frá Eskifirði, þar sem Þórdís var í vist, yfir til Seyðisfjarðar en þar átti Bjarni heima. Þórdís var fremur illa klædd og veður fór versnandi með snjó og fjúki. Loks villtust þau og Bjarni reyndi að grafa þau í fönn en skyndilega sá hann lítið eitt út úr kafaldinu og vildi athuga hvort hann kannaðist við sig. Urðu þau systkin viðskila við þetta og Bjarni fann hana ekki aftur en komst við illan leik til byggða.
Ýmissa orsaka vegna var það síðan ekki fyrr en að fimm dægrum liðnum sem hægt var að fara og vitja um Þórdísi. Allir töldu að hún hlyti að vera dáin en líklega hefur hún ekki verið það, því þegar til átti að taka sýndi hún merki um líf. Það var reyndar talið tákn þess að hún mundi í fyllingu tímans ganga aftur og er í þjóðsögunni greint frá því í alllöngu máli hvernig tókst á endanum að ráða niðurlögum hennar. Það hrikalega við þessa sögu er að Þórdís hefur næstum áreiðanlega verið lifandi þegar komið var til að ná í líkið af henni en sú draugatrú sem tröllreið öllu á þessum tíma varð þess valdandi að í stað þess að reynt væri að bjarga henni var hún drepin.
Auðvitað er mér frásögnin af Bjarna-Dísu hugleikin. Þó er ég ekki Austfirðingur. Ég hef áður skrifað um þetta mál og er sú frásögn sem hér birtist að mestu endursögn af því og ég biðst alls engrar afsökunar á því að endurtaka þessa sögu eða auglýsa Netúgáfuna blygðunarlaust.
Þetta með eitraða kjötið hennar Sigrúnar Magg finnst mér ekki sannfærandi. Ef það er virkilega satt að engir nema framsóknar og sjálfstæðisbændur geti framleitt óeitrað kjöt þá finnst mér það saga til næsta bæjar. Hefði jafnvel haldið að stórfyrirtæki hefðu menn á sínum snærum sem kynnu að verka kjöt. Ef atbeina Costco þarf til að afnema íslenska landbúnaðareinokun þá verður svo að vera finnst mér. Hvað sem bændaleppar segja.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.