2174 - Kosningar

Já, mér datt það í hug. Ekki var ég fyrr búinn að setja síðasta bloggið mitt upp á Moggabloggið sjálft en ég sá frétt um það að Menntaskólinn Hraðbraut væri kominn af stað aftur og það undir stjórn sama manns. Hafi menn efast um að núverandi ríkisstjórn væri önnum kafin við að efna í næsta Hrun, þá þarf þess ekki lengur. Með Menntaskólanum Hraðbraut var á ýmsan hátt toppnum náð í einkavinavæðingunni og undirbúningi síðasta Hruns. Um þetta er óþarfi fyrir mig að fjölyrða. Nóg er að lesa mbl.is greinina. Að vísu segir í henni að menntamálaráðherra hafi ekki viljað styrkja framtakið alveg strax, en sé hlynntur því samt. Peningarnir koma eflaust fljótlega og þá frá ríkinu. Óþarfi að efast um slíkt.

Sennilega er helsti gallinn við þessa bloggsótt mína hvað ég blogga óreglulega. Ég var að líta á bloggið mitt áðan og sá að ég hef, eftir dagatalinu að dæma, bloggað flesta daga í maí, en þó ekki alla og aldrei á laugardögum. Kannski ég prófi það.

Er fólk fífl? Það finnst mér vera pólitískasta spurning sem ég veit um. Hroki er það sem setur allt á annan endann. Það að vera sannfærður um að sín eigin skoðun hljóti að vera sú eina rétta er það sem fer verst með friðinn, jafnvel heimsfriðinn. Að vera alltaf tilbúinn til að semja um allt mögulegt er líka stórhættulegt. Þó held ég að það fyrra sé verra. En  það er bara mín skoðun. Hroka má nefna mörgum nöfnum. Allir eru uppfullir af einhverskonar hroka. Ég þykist til dæmis vera snjallari en margir aðrir við að koma hugsunum mínum í orð í rituðu máli. Auðvitað er það hroki. Undanlátssemi getur líka verið hættuleg. Ef maður álítur ekki sjálfur að maður sé betri en aðrir, af hverju ættu aðrir þá að gera það? Í þessu hætti ég mér ekki lengra að sinni.

Nú þykir mér vera óhætt að gera ráð fyrir að skoðanakannanir sýni nokkuð vel líkleg úrslit í sveitarstjórnarkosningunum eftir viku. Greinilegt er að ríkisstjórnarflokkarnir gjalda talsvert afhroð. Hvort það er einsog við mátti búast verður eflaust rifist um. Samfylkingin minnkar í heildina talsvert einnig. Einu flokkarnir sem virðast ætla að græða verulega eru Píratar og Björt Framtíð. Í heildina finnst mér að vinstri sjónarmið vinni talsvert á. Það sem er mest spennandi varðandi kosningarnar í heild finnst mér vera hvort kjörsókn aukist eða minnki. Undanfarið hefur hún farið minnkandi en mér finnst stjórnmálaáhugi almennings samt fara vaxandi.

Sjálfur geri ég ráð fyrir að kjósa Pírata einsog í alþingiskosningunum í fyrra. Þar hefur langloka Margrétar Tryggvadóttur um Píratana hér í Kópavogi ekki úrslitaáhrif. Nýir flokkar lenda ævinlega í einhverjum hremmingum. Ekki er að sjá að Dögun sé neinsstaðar að gera það gott.

IMG 0556Appú.

IMG 0571Heimkynni kattarins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband