2167 - Rétturinn til að gleymast

Hvað einkennir mitt blogg öðru fremur. Jú, Moggaguðirnir slysuðust til að gera mig að stórhaus á sínum tíma. Ekki veit ég af hverju, en það hefur hjálpað mér á langri leið að vera í einskonar úrvalsflokki meðal Moggabloggara. Eftir hvaða reglum mín blogg birtast á forsíðu þessarar frægu (sem einu sinni var) bloggsíðu veit ég ekki, en það hjálpaði mér a.m.k. í byrjun.

Ætli ég fái ekki oftast svona 1-2 hundruð heimsóknir þegar mér þóknast að skrifa. Einu sinni skrifaði ég á hverjum einasta degi, en er alveg hættur því núna. Blogga samt mjög oft (að því er mér sjálfum finnst) en gæti þess að hafa bloggin ekki mjög löng í hvert sinn. Þetta er bara einhver grundvallarskilningur hjá mér því ég á sjálfur oftast erfitt með að einbeita mér lengi. Löng blogg eða langar spekúlasjónir um sama efni á ég oft í erfiðleikum með að klára.

Eitt eða tvö einkenni eru líka á bloggi mínu, fyrir utan hvernig ég vel bloggefni. Annað eru númerin. Ég er núna að skrifa blogg númer 2167 og held að ég hafi lítið sem ekkert ruglast í þeirri númeringu. Svo veð ég líka úr einu í annað með efnisval og sumum finnst ég hafa húmor þó mér finnist ég alltaf vera neikvæður og svartsýnn í bloggskrifum mínum.

Blessuð pólitíkin og spádómar í þá veru finnst mér afar skemmtilegt umræðuefni og get yfirleitt ekki látið hjá líða að úttala mig um hana. Margt í sambandi við stjórnmálin er samt hundleiðinlegt. Úrslitin þar geta þó oft verið mjög athyglisverð og auðvitað skipta þau máli. Hef samt aldrei getað skilið þá sem skrifa eða hugsa eingöngu um pólitík og fréttir.

Fésbókin er svo eitt umræðuefnið enn. Þangað fer ég venjulega oft á dag og læt stundum ljós mitt skína. Sumar athugsemdir er ómögulegt að bíða með og sjálfsagt að setja þar. Endurtaka má þær svo í blogginu og ég held að það fæli ekki frá. Ef manni verður það t.d. á að setja saman vísu þá er ágætt að setja hana þar. Sá kveðskapur á yfirleitt ekki mikið erindi í blogg. Goggunarröðin á greinum er þannig hjá mér. 1. Forystugreinar 2. Blaðagreinar aðrar. 3. Blogg 4. Fésbókarfærslur. Auðvitað eru forystugreinar sjaldnast lesnar. Fjalla samt yfirleitt um áhugaverð efni. Afleggjari af þeim eru svo Reykjavíkurbréfin í Mogganum, en þau les ég aldrei. Staksteina og þessháttar önugheit ekki heldur. Ég er ekki áskrifandi að neinum blöðum en ef áhugaverðar greinar birtast þar lenda þær fyrr eða síðar á netinu og þar get ég að sjálfsögðu séð þær. Blogg eru afar misjöfn. Mörg les ég nánast daglega. T.d. eru Egill Helgason, Jónas Kristjánsson , Jens Guð og Ómar Ragnarsson oft athyglisverðir. Sömuleiðis sum vefrit. T.d. lít ég oft á Eyjuna og Kjarnann. Fésbókin er svo í mínum huga hratið. Stundum er samt að finna þar áhugavert efni, en það er fremur sjaldgæft.

Frá því var sagt í fréttum áðan að einhver Spánverji hafi unnið mál gegn Google þar sem hann fór fram á að ekki yrðu birtar upplýsingar um sig, sem hann var á móti að birtust þar. Þessi dómur gæti hugsanlega snert fyrirtæki sem eru á móti því að neikvæðar upplýsingar birtist um þau. Annars veit ég fremur lítið um þetta mál og geri ráð fyrir að fjallað verði talsvert um það á næstunni.

Einnig var sagt frá því í RUV-fréttum áðan að sennilega væri fundið á hafsbotni það skip sem Kristófer Kólumbus sigldi forðum á til Ameríku. Amerikanar eru svo skrítnir að þeir halda því margir ennþá fram að hann hafi „fundið“ Ameríku. Um það má margt segja en verður ekki gert hér. Samt er þetta mál nokkuð merkilegt.

Læt ég svo lokið þessu bloggi og minnist ekkert á Ásgautsstaðamálið, enda skilst mér að fundað verði um það í dag og hugsanlega verði nýjar aðferðir reyndar við það á næstunni.

IMG 0466Í Kópavogi.

IMG 0508Trjágreinar í úrvali.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband