2162 - Strætó og ýmislegt fleira

Að hafa lítinn áhuga á boltaleikjum er mikil guðsblessun. Það er engin hætta á að áhugavert efni slæðist í sjónvarpið ef boltaleikir eru þar allt kvöldið. Mér virðist mestur áhugi hjá þeim sem þar ráða ríkjum (eða ríða rækjum) vera á bandarískum hasarmyndaflokkum en á þeim hef ég líka lítinn áhuga. Annars hef ég heldur lítinn áhuga á sjónvarpi yfirleitt, nema þá helst fréttum.

Las einhversstaðar að fargjaldið með strætó sé núna 350 krónur. Gott að vita það. Það er langt síðan ég hef ferðast með strætó. Enn eru vagnstjórarnir ekki búnir að læra að gefa til baka. Annars held ég að hægt sé að ferðast með strætó á Höfn í Hornafirði og á Egilsstaði. Þó ekki fyrir  350 krónur. Aðalmunurinn hjá Landleiðum og SVR í gamla daga var að vagnstjórarnir hjá Landleiðum gátu gefið til baka en ekki hjá SVR.

Það verður engin þjóðaratkvæðagreiðsla á þessu kjörtímabili ef ríkisstjórnin fær nokkru ráðið um það. Man annars nokkur eftir nýju stjórnarskránni? Það er alveg hætt að tala um hana. Þingmannsvæflurnar eru uppteknar við annað. Fer öll orkan í að skipuleggja málþóf og þessháttar nauðsynjamál?

Ætla mætti að a.m.k. sumir fésbókarnotendur séu mjög ginnkeyptir fyrir allskonar happdrættum og þess háttar. Allskyns tilboðum rignir yfir mig, en ég nenni yfirleitt lítið að sinna slíku, enda eru sumir vinninganna þannig að ég mundi allsekki kæra mig um þá. Ég álít þetta oftast nær lítt dulbúnar auglýsingar og umber þetta með mikilli þolinmæði því fésbókin hefur þrátt fyrir allt fjölmarga kosti.

Steini Briem hefur gaman af að yrkja og fer fram í því. Er líka góður gúglari. Nennir samt ekki að hafa sitt eigið blogg. Man alltaf eftir að Gísli Ásgeirsson fældi hann frá mér, með því að gagnrýna kveðskap hans. Að flestu eða öllu leyti var kostur að hafa hann því athugasemdir hans voru eldskarpar oftast nær. Kannski fullmargar en nú eru þær næstum engar (þökk sé fésbókarræflinum) og Steini farinn að gera sér dælt við Ómar Ragnarsson. Engin furða því hann er ólíkt vinsælli en ég og vísurnar fá enn meiri dreifingu með því. Þetta var palladómur.

Nú þegar lesefni allt er orðið næstum ótakmarkað og ókeypis fer lestrarkunnáttu mjög aftur, eftir því sem fréttir herma. Undarlegur andskoti. Ég, sem hef lesið og lesið alla mína hunds og kattartíð, hef líklega ekki grætt nokkurn skapaðan hlut á því. Skrifin færa mér heldur ekki grænan túskilding. Að hugsa hægt og móta hugsunina jafnóðum í orð er nokkuð sem ég hef vanið mig á í ellinni.

Fékk í dag hið margumtalaða afmælisblað frá Landssambandi eldri borgara. Fyrtist ekki vitund við það, en ekki býst ég við að lesa það samstundis. Sumar greinarnar kunna samt að vera áhugaverðar. Blaðsíðurnar eru a.m.k. nokkuð margar og auglýsingar fáar sýnist mér.

Ásgautsstaðir.

IMG 0359Í rigningu.

IMG 0372Þjónustuhús.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alltaf jafn skemmtilegur Sæmundur. Kveðja.

Haukur Kristinsson 2.5.2014 kl. 23:35

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk, Haukur.

Sæmundur Bjarnason, 2.5.2014 kl. 23:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband