2141 - Atakor, mundu það

Þeir sem hafa köllun til að skrifa og baráttumál í sínum fórum, gæta þess jafnan að hafa skrif sín ókeypis. Þessu hef ég reynt að lifa eftir. Ekki þannig meint að ég telji mig hafa einhverja skrifelsisköllun eða baráttumál til að berjast fyrir. Nei, heldur lifi ég eftir þeirri sannfæringu, þegar ég þarf að fá mér eitthvað að lesa, að allt eigi að vera ókeypis sem eitthvað er varið í.

Auðvitað þurfa menn sem hafa atvinnu af því að skrifa að fá eitthvað fyrir snúð sinn. Samanber þrillerana hans Arnaldar. En ég veit ekki betur en Egill Helgason bloggi þindarlaust og ókeypis alla daga. Vitanlega borgar einhver honum kaup, en ekki ég.

Samt er það svo að ef menn hafa alvöru og alvarlega köllun þá skrifa þeir fyrir ekki neitt. Það er ég sannfærður um. Allt það prent- og tal- og mynd-efni sem hægt er að fá nútildags fyrir sáralítið eða ekki neitt á netinu, bókasöfnum og víðar er svo mikið að vöxtum að engin leið er að komast yfir að lesa nema lítið brot af því.

Það þýðir að það þarf að velja. Og þá kemur valkvíðinn til sögunnar. Er alveg víst að maður sé að velja það rétta? Er ekki líklegt að hægt sé að fá miklu betri grein um þetta málefni fyrir ekkert annars staðar? Kannski væri réttast að hætta að lesa þessa grein eða hlaupa bara yfir restina á hundavaði. Erfitt er að komast hjá því að hugsa eitthvað á þessa leið, þegar maður hættir að skilja höfundinn fullkomlega eða er kannski ósammála honum.

Sú tíð að allt sé rétt sem á prent er sett (svart á hvítu) er löngu liðin og sennilega trúir enginn því lengur. Samt er það svo að auðvelt er að skrifa þannig að grunlausir geta vel álitið að maður sé að segja satt, þó maður sé að ljúga blygðunarlaust. Þessu eru stjórnmálamenn leiknir í. Aðrir fara oft í leikfimi af þessu tagi líka.

Alltaf er verið að reyna að rugla mann í sambandi við þessar árans pillur sem heimilislæknirinn vill að maður éti í dúsínvís á hinum ýmsustu tímum dagsins. Ef þú veist ekki að Atakor er alveg komið í staðinn fyrir Simvastatin eða að Metoprolol og Seloken er það sama, þá ertu bara rugludallur sem ekkert mark er takandi á. Þar að auki þarf maður helst að vita hve mörg milligrömm af virku efni eru í hvaða pillutegund sem er og hvernig þær eru á litinn og í laginu.

Simmi er búinn að henda þingsályktunarfrumvarpinu um viðræðuslitin í fangið á Birgi Ármannssyni. Hann er núna með Svarta-Pétur og ekki gott að sjá hvernig hann losar sig við hann. Kannski finnur hann samt uppá einhverju. Simma kemur þetta ekki nokkurn skapaðan hlut við. Kannski verður bara reynt að svæfa þessa heitu kartöflu. Annaðhvort kemur ríkisstjórnin með frumvarpið aftur fyrir alþingi og gerir allt vitlaust, eða hún fær að reka Óðinn fréttastjóra í friði. Það er löngu búið að ákveða að láta Má fjúka. Nauðsynlegt er að hafa mörg járn í eldinum á sama tíma. Einhver komast í gegn.

Sennilega hefur Óðinn fréttastjóri á RUV komið nýja útvarpsstjóranum í stórkostlegan vanda. Samkvæmt nýjustu fréttum hefur hann nefnilega ákveðið að sækja um sitt gamla starf aftur. Líklega verður útvarpsstjórinn nú að endurráða hann annars verður allt jafnvel snarvitlausara í pólitíkinni en það þegar er. Það er jafnvel að verða að smámáli sem engu skiptir hvort Hann Birna verður dæmd lek eða ekki.

Já, það er þetta með Ásgautsstaði. Sjaldan er góð vísa of oft kveðin.

IMG 0123Kringlumýrarbraut.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Burtséð frá allri flokkapólitík, þá verður það aldrei liðið af þeim íslendingum sem enn nenna að hugsa, að fréttastjóri RÚV verði látinn víkja fyrir pólitískum þrýstingi. Þótt þeim fari ört fækkandi sem hlusta enn á dagskrárstöðvar, þá er nú fréttastofa RÚV enn með það mikla hlustun og nýtur það mikils trausts og virðingar, að það er ótækt að þeirri stöðu verði fórnað á altari ofstækisfólks í framsókn. Mann grunar að íhaldið hafi ekkert á móti því reyndar að sjálfstæði og traust fréttastofunnar verði eyðilagt í þeim tilgangi að gera auðveldara um vik að fá stemmningu fyrir sölu fyrirtækisins.

Ellismellur 25.3.2014 kl. 09:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband