17.2.2014 | 22:39
2123 - GMB og SDG
Simmi forsætis- stóð sig áberandi illa í viðtalinu við Gísla Martein. Held samt ekki að hann segi af sér eða neitt þessháttar. Bjarni Ben. er alls ekki tilbúinn til að taka við. Það er hinsvegar alveg öruggt að ekki verður af því í bráð að Framsóknarmenn fái jafnmarga ráðherra og Sjálfstæðismenn í ríkisstjórninni. Annað var þó látið í veðri vaka þegar ríkisstjórnin var mynduð. Jafnvel gæti hugsast að Már verði endurráðinn við Seðlabankann. Líka gæti slitnað uppúr ríkisstjórnarsamstarfinu og Sjallarnir farið í ESB-gírinn. Ekki er það þó líklegt.
Viðtalið fræga. Já, allir hafa skoðanir á því. Það er svosem vel hægt að fallast á að ekki hafi verið um hefðbundið viðtal að ræða þar sem spyrill reyndi að sauma að stjórnmálamanni. Miklu fremur voru þetta tveir pólitíkusar að munnhöggvast. Báðir kunnu nokkuð fyrir sér í MORFÍS-útúrsnúningum og fjölmiðlun. Ekki fór samt neitt á milli mála hvor vann. Gísli Marteinn gerði það fremur léttilega. Er þetta þá öll þungavigtin hjá Sigmundi Davíð? Hann getur svosem reynt að afsaka sig með því að hann hafi ekki verið í stuði, en það sem eftir stendur er að hann skíttapaði.
Gunnar Nelson var eins og illa gerður hlutur eftir þessi ósköp. Þó stóð hann sig ágætlega. Ein spurning stendur samt eftir hjá mér og hún er sú hvort þetta sé að taka við af kickboxinu og sett á stofn til höfuðs hnefaleikunum gömlu góðu. Ómar ætti auðvelt með að svara þessu.
Er Glanni glæpur alvöru glæpon? Hugsanlega eru einhverjir svo illa að sér í Latabæjarfræðum að vita ekki að Stefán Karl Stefánsson leikur hann á þeim vettvangi. Harpa Lúthersdóttir vill meina að hann sé glæpon í alvöru og leggi fólk eins og hana í einelti. Hún talar heldur ekki vel um Valgeir Skagfjörð og hefur verið í málaferlum vil Regnbogabörn , en nýbúið er að leggja þau samtök niður eftir því sem mér skilst. Þessi niðurlagning var talsvert í fréttum fyrir nokkru og ég man að þegar Stefán Karl sagði frá því að ástæðan væri m.a. sú að þau fengju ekki nógu mikla styrki varð mér hugsað til Netútgáfunnar sem ég stóð fyrir árum saman. Við sóttum oft um styrki hvar sem við gátum en fengum enga. Kannski var það lán í óláni. Önnur Harpa ætlaði eitt sinn að skrifa háskólaritgerð um Netútgáfuna og fólkið þar, sem ekki var í klíkunni, en hætti við það og fann eitthvað bitastæðara. Segi ekki meira.
Man eftir að hafa eitt sinn komið að Skógum í Þorskafirði eftir að sá bær fór í eyði. Það hefur sennilega verið á seinni hluta áttunda áratugarins. Mundi nefnilega eftir því að þar fæddist Matthías Jochumsson. Man líka að einskonar klettamynd af honum blasti við í Reykjafellinu þegar gamla leiðin hjá Kolviðarhóli var farin milli Reykjavíkur og Hveragerðis. Ég fór heim að bænum að Skógum en þar fann ég ekkert merkilegt utan eina tréspýtu með hugsanlegum rúnaristum á, sem ég ímyndaði mér að Matthías Johumsson hefði gert þegar hann átti engan pappír. Þessari spýtu er ég búinn að týna núna. Og þó ég sé fremur Guðlaus eins og sumir vita þá man ég að hann orti ekki bara sálma heldur einnig þetta: (Sem kannski er reyndar sálmur)
Hvað boðar nýárs blessuð sól?
Hún boðar náttúrunnar jól.
Ég hef alltaf verið fylgjandi að fagna því heldur en hitt þegar sólin kemur aftur til okkar hér í norðrinu. Norðrið er ekki svo afleitt þegar allt kemur til alls. En auðvitað eigum við eftir að þreyja bæði þorrann og góuna, en heyskapartíðin skiptir okkur varla eins miklu máli og áður var.
Auk þess legg ég til að Ásgautsstaðamálið fái forgang framyfir þau Sigmundarfræði sem margir leggja stund á um þessar mundir. (Linkur fylgdi síðasta bloggi.)
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.