28.1.2014 | 01:04
2113 - Kína og ESB
Ásgautsstaðaávarpið. Ég veit svosem ekkert hvernig mál þar standa núna. Hugsanlega eru Sýslumaður Árnesinga og Bæjarstjórn Árborgar eitthvað að vitkast. Sjáið blogg mitt frá 10. desember s.l. og þau sem bæst hafa við síðan, ef áhugi er á að kynna sér þetta mál nánar. Margir fleiri þekkja það og ástæðulaust er að svæfa það alveg. Viðbrögðin við skrifum mínum um þetta mál hafa verið með ýmsu móti. Bæði eru þau hér á Moggablogginu og á fésbókinni. Einnig hefur verið hringt í mig út af þessu.
Ég er sammála SDG um það að Frosti Sigurjónsson er dálítið óvenjulegur þingmaður. Hann lýgur ekki nógu sannfærandi. Sennilega stafar það af reynsluleysi. Flestir aðrir þingmenn og þó sérstaklega ráðherrar ljúga miklu betur. Mest sannfærandi er núverandi forsætisráðherra. Hægrisinnaðir þingmenn og ráðherrar ljúga ekkert meira en þeir vinstrisinnuðu. Helsta ástæðan fyrir því að lítið bar á Jóhönnu Sigurðardóttur er hugsanlega sú að henni hafi leiðst að ljúga. SJS hafði aftur á móti gaman af því.
Einar Steingrímsson skrifar langloku á Eyjuna og átelur hana fyrir tilraun til þöggunar. Að birta það blogg á eyjunni afsakar hana að sumu leyti. Einar er oft alltof hvatvís að mínu áliti. Hefur þó alveg rétt fyrir sér að þessu leyti og þar að auki er langt frá því að mitt álit sé einhver hæstaréttardómur.
Sú grundvallarafstaða mín í pólitík að Íslendingar eigi heima í ESB litar afstöðu mína til margra annarra pólitískra mála. Auðvitað er það samt svo að í daglegu tali eru hugtökin hægri og vinstri ákaflega gildishlaðin í pólitískum skilningi. Þau eru samt að mestu leyti farin að missa vægi sitt og flokkaskipting orðin afskaplega lítið háð þeim.
ESB-málið er þannig vaxið að erfitt er að leiða það til lykta án þess að einhverjir verði mjög sárir. Röksemdir með og móti eru svo fyrirferðarmiklar að engin leið er að taka ákvörðun án einhverskonar trúar. Trú á að ríkjasambönd séu það sem koma skal. Trú á að hagstæðara sé fyrir smáríki að eiga stóra og volduga vini. Trú á að sama sé hvað við gerum, þar lendum við fyrr eða síðar. O.s.frv.
Aftur á móti er fríverslunarsamningur við Kína ein vitleysa frá upphafi til enda. Veit reyndar ekki vel hvernig hann er en held samt að hann verði í besta falli þýðingarlaus. Engir aðrir held ég að vilji semja við þá og þessi samningur getur orðið okkur fjötur um fót í framtíðinni.
Pólitíkusar eru á móti Jónasi Kristjánssyni fyrrum ritstjóra. Óttast hann bæði og fyrirlíta. En hann hefur þekkinguna og orðkyngina til að setja þá hné sér og rassskella þá. Auk þess skrifar hann fjandi vel. En það þýðir ekkert. Þeir halda bara áfram. Þó þeir séu hirtir af Jónasi eru þeir flestir óforbetranlegir.
Nú, ég mætti náttúrulega í fjölteflið í Borgarnesi á sunnudaginn. Helgi Ólafsson, stórmeistari tefldi þar klukkufjöltefli við 11 manns. Bjarni Sæmundsson náði jafntefli við hann en allir aðrir töpuðu fyrir honum. Þar á meðal ég, sem hann notaðist við kóngsbragð á móti. Það kom mér á óvart og eflaust hafa ekki nema svona 2 til 3 fyrstu leikirnir verið hefðbundnir. Annars er ég óttalega lélegur í byrjunum, en það gutlar aðeins meira á mér í öðrum hlutum skákarinnar. Samt átti Helgi nú ekki í neinum vandræðum með að vinna mig.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.