5.1.2014 | 00:52
2099 - Bíum, bíum, bamba
Jú, jú. Kannski verður þetta staut mitt varðandi Ásgautsstaðamálið til þess að það vakni af doða þeim sem hvílt hefur yfir því lengi undanfarið. Ég ætla a.m.k. að hugga mig við það. Mér vitanlega hafði enginn fyrr minnst á það opinberlega þegar ég byrjaði að skrifa um það snemma í desember. Erfingjarnir eru orðnir svo margir að erfitt er að samræma aðgerðir. Sennilega væri best að einhver einn aðili, eða a.m.k. fáir sæu um þetta að öllu leyti. Það er alltof þunglamalegt að fá samþykki allra erfingja fyrir hverri smávendingu í málinu. Sennilega liði sýslumanninum í Árnessýslu og bæjarstjórn Árborgar best ef þetta mál hyrfi bara með öllu.
Fékk í jólagjöf bókina sem inniheldur ævisögu Guðmundar Kamban. Hugsanlega eru Kamban og Kristmann Guðmundsson misskildustu rithöfundar tuttugustu aldarinnar. Sjálfum finnst mér líka sem Jón Trausti (Guðmundur Magnússon, prentari) hafi legið mjög óbættur hjá garði. Þar að auki dó hann ungur. Ef hann hefði lifað aðeins lengur þá hafði hann alla burði til að verða a.m.k. jafnfrægur og HKL. Jafnvel Guðmundur Hagalín fannst mér nokkuð góður. Skyldi pólitík hafa haft hér áhrif?
Framsókn er heilsuspillandi. Sigmundur Davíð, Halldór Ásgrímsson, Bjarni Harðarson og furðu margir fleiri sem þar hafa innanborðs verið eru að vísu frægir fyrir að bera kápuna á báðum öxlum. Þ.e.a.s. maður veit aldrei með vissu hvar maður hefur þá. Guðni og Valgerður voru að mörgu leyti skárri. Þau stóðu þó fyrir eitthvað. Þó það væri mestan part bölvuð vitleysa, svipuð fábjánaskapnum hjá utanríkisráðherranum núna. En það var þó hægt að reikna þau út. Heilsuspillandi er flokkurinn samt einmitt vegna þess að aldrei er hægt að treysta neinu sem fylgjendur hans segja. Sigmundur dró veimiltítulega, litla og rytjulega kanínu uppúr hattinum um daginn og sumum sýndist hún vera feit og pattaraleg. Segi ekki meira.
Hvað er svona merkilegt við myndir sem aðrir hafa tekið? Svo á maður að vera að hrósa þessum fjára. Ég tek alveg jafnmerkilegar myndir sjálfur og aðrir gera. Aldrei hrósar neinn (eða N1) mér fyrir það. Undarlegt þetta skjallbandalag á fésbókinni. Skyldi vera hægt að komast í það? Eða eitthvert þeirra? Þau eru áreiðanlega mörg
Mér finnst Ólafur Ragnar vera að fara í útrásarfötin þessa dagana. Sigmundur vill líka vera með og vel gæti þetta allt saman endað í fullum fjandskap milli þeirra fóstbræðra. Ekki er þó hægt að treysta á það því ef þeir fá að ganga eins langt í sjálfsblekkingunni og þeir vilja sjálfir þá er aldrei að vita hvernig fer. Útrásin gæti hafist klukkan þrjú á morgun.
Share this video if you want to look at it, sagði fésbókin glaðhlakkalega við mig.
Nei, mér dettur ekki grænan hug að gera það, sagði ég hinn versti.
Sama er mér, þá færðu heldur ekki að sjá þetta úrvalsvideó, ansaði fésbókin af bragði. Ég flýtti mér semsagt að fara útúr fésbókarræflinum og loggaði mig inn aftur og forðaðist þetta umtalaða myndband einsog heitan eldinn. Það gekk ágætlega og ég fékk að gera það sem ég vildi á bókarskræðunni að þessu sinni. Í sífellt vaxandi mæli er fésbókin að reyna að taka af manni völdin. Klikkaðu hér, klikkaðu þar og þú munt hólpinn verða. Þannig eru hin nýju trúarbrögð og ef þú vilt ekki þýðast þau þá verður þér smám saman gert ómögulegt að lifa. Þannig er boðskapurinn og ekki er nauðsynlegt að standa upp á ákveðnum stöðum lengur.
Engin ástæða er til að ætla að ríkisstjórnin samþykki þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna við Evrópusambandið. Svo gæti farið að tillaga um slíkt yrði samþykkt og það er ekki stefna ríkisstjórnarinnar. Þess vegna mun ríkisstjórnin vinna ötullega að því að koma í veg fyrir slíka atkvæðagreiðslu. Þetta hélt ég að öllum væri ljóst, en um síðastliðin áramót komst ég að því að þeir eru til sem trúa því að ríkisstjórnin sé meðmælt þjóðaratkvæðagreiðslum. Það getur vel verið að ríkisstjórnin sé meðmælt þjóðaratkvæðagreiðslu um eitthvert mál sem litlu máli skiptir en atkvæðagreiðsla um að halda áfram viðræðum við Evrópusambandið verður ekki haldin meðan þessi ríkisstjórn er við völd.
Vísa sem í mínu ungdæmi var næstum eins vinsæl og bí, bí og blaka, og venjulega farið með hana í framhaldi af þeirri vísu, var svona:
Bíum bíum bamba,
börnin litlu ramba
fram á fjallakamba
að leita sér lamba.
En til hvers skyldu þau hafa verið að leita sér lamba? Mér fannst það alltaf blasa við að þau væru svöng og væru að leita sér að lömbum til að éta. Við eftiráskoðun virðist mér sem sá skilningur sé alls ekki einhlýtur. Kannski voru þau að leita sér lamba í allt öðrum tilgangi. Jafnvel til að leika sér að þeim. Heimaalningssögurnar voru afar vinsælar á þessum tíma. Og auðvitað voru þeir ekki étnir.
Að hafa verið fæddur í konungsríkinu Íslandi verður kannski einhverntíma merkilegt. Ennþá er það ekki orðið svo, því lýðveldið Ísland verður einmitt 70 ára á þessu ári. Ég er fæddur í konungsríkinu Íslandi og minn konungur var Kristján tíundi. Konunghollur hef ég þó aldrei verið. Hef ímugust á öllum yfirvöldum. Oftast eru þau spillt. Mest er það vegna þess að tækifærin eru svo mörg. Ég held að yfirvaldafólk sé ekkert verra en annað. Einhverjir mundu kannski kalla þau óhjákvæmileg. Ekki vil ég ganga svo langt. Langbest væri ef hægt væri að komast með öllu af án þeirra.
Athugasemdir
Heill og sæll æfinlega Sæmundur - og þakka þér fyrir samskiptin hér á vef á liðnum árum !
Þér og elju þinni - má mikið þakka möguleg upptaka Ásgautsstaða hneykslis málanna og munt þú hafa sæmd eina af þinni málafylgu þar Sæmundur.
Stend með þér - allt til loka í þeim efnum.
Með beztu kveðjum sem jafnan - af Suðurlandi /
Óskar Helgi Helgason 5.1.2014 kl. 14:00
Marg sæll og marg blessaður Sæmundur - hafðu þökk fyrir allar þær skemmtilegu ljósmyndir sem æfinlega fylgt hafa blogg pistlum þínum og glatt hafa undirritaðan ekki síður en hin mögnuðu skrif þín um landsins málefni eða annað tilfallandi sem efst er í þínumhuga hverju sinni.
Með allrabeztu kveðjum sem aldrei fyrr úr Vesturbæ Reykjavíkur.
p.s. ég næ kannski ekki alveg stílnum hans Óskars af Suðurlandi en það mátti reyna.
Emil Hannes Valgeirsson, 5.1.2014 kl. 22:19
Takk báðir.
Það er alveg rétt hjá þér Emil að það er ekki allra að ná stílnum hans Óskars.
Mér þykir vænt um að myndirnar mína draga kannski einhverja að blogginu mínu.
Sæmundur Bjarnason, 6.1.2014 kl. 20:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.