15.12.2013 | 22:48
2090 - Ásgautsstaðir, Al Thani-málið o.fl.
Þó blogg mitt um Ásgautsstaðamálið s.l. þriðjudag (11. des.) hafi vakið nokkra athygli, a.m.k. í vissum hópum, er ekki hægt að segja að viðbrögðin hafi verið mikil. Einhver hafa þau samt verið. Ég hélt að með því að opinbera ýmsa þætti þessa máls væri kannski unnt að hraða því eitthvað, en ekki er víst að svo sé. Þöggun elítunnar er mikil og sterk. Ef sýslumenn, lögfræðingar, sveitarstjórnir og allir embættismenn eru sammála um að þagga mál niður er ósköp lítið sem ótíndur almenningur getur gert annað en segja sannleikann.
Ef dómurinn yfir Kaupþingsmönnunum verður staðfestur í hæstarétti er þar vissulega um þunga dóma að ræða. Dómari getur að mínum skilningi undir engum kringumstæðum dæmt í þyngri refsingu en saksóknari fer fram á. Vissulega er hægt að benda á að fleiri hafi blekkt og svikið í aðdraganda Hrunsins en þeir Kaupþingsmenn og ekki verið dæmdir. Svo er um alla dóma. Einnig er hægt að benda á að sumsstaðar er þyngri refsing möguleg við brotum af þessu tagi. Með þessum dómi er þó sýnt framá að það að stýra stóru fyrirtæki verndar engan fyrir lögunum. Þau eru líklega helstu skilaboðin sem dómurinn flytur og ef fjölmiðlar útskýra málið fyrir almenningi getur verið að hann hafi áhrif.
Fyrrverandi ríkisstjórn heyktist á því að beita hörku til að koma í veg fyrir augljós skemmdarverk á alþingi. Ekki er víst að núverandi ríkisstjórn geri það. Málþóf er skemmdarverk. Ávalt er þó hægt að réttlæta slíkt fyrir sjálfum sér og pólitískum samherjum en samt er það svo að ef löglega kjörinn meirihluti á alþingi fær ekki að koma fram vilja sínum er verið að trufla eðlilegan gang mála.
Illugi Jökulsson skrifar grein um stéttskipt stafrófskver og birtir myndir af forsíðum tveggja íslenskra stafrófskvera handa minni manna börnum og heldri manna börnum. Annað þessara kvera er sjáanlega gefið út árið 1853. Greinin hjá Illuga er a.m.k. öðrum þræði gagnrýni á SDG forsætisráðherra. Hann sagði víst um daginn að stéttaskipting væri engin hér á Íslandi.
Ég man að stéttaskiptingin var afar lítil þegar ég var að alast upp. Klíkuskapur og allskyns spilling hefur eflaust verið útbreidd þá líkt og nú og stéttaskipting hefur kannski verið það líka, en hún hefur þá verið vel falin. Minn skilningur er að stéttaskipting hafi verið talsverð hér á landi áður fyrr og einkum farið eftir eignum. Jarðeignum sérstaklega. Stórbændur kúguðu þá minni máttar á ýmsan hátt. Með því að koma í veg fyrir þéttbýlismyndun tókst eignafólki að halda almenningi niðri og hindra framfarir. Með stríðinu rétt fyrir miðja síðustu öld riðlaðist sveitaskipulagið sem hér hafi verið um aldaraðir og fólk flutti unnvörpum á mölina. Þar með rofnaði skarð í þann múr stéttaskiptingar sem verið hafði.
Mér er í fersku minni að Steingrímur Hermannsson sagði, þegar hann var forsætisráðherra, að hann fyndi vel að launamunur í þjóðfélaginu færi vaxandi. Ekkert fannst mér hann þó gera til að hindra það. Kannski var það hans helsti galli. Í ævisögu hans er sagt að ein krísan taki við af annarri hjá æðsta embættismanni þjóðarinnar. Þess vegna er eðlilegt að þróun öll lendi í undandrætti þegar svo stendur á. Nútíma stéttaskipting (og launamunur) byrjaði að grassera um þetta leyti. Hún fór svo sívaxandi upp frá því. Kannski og vonandi náði sá munur hámarki sínu skömmu fyrir Hrunið (sem skrifa má með stórum staf til áramóta og nefna svokallað hrun eftir það). Nýtt skipulag er að ryðja sér til rúms fyrir sakir tölvubyltingarinnar. Hrun fjármálakerfisins, bæði hér á Íslandi og annarsstaðar, mun flýta fyrir þeirri þróun og það sér alls ekki fyrir endann á henni ennþá. Vægi umhverfismála mun þó vaxa mikið.
Allt reynir DV til að fá fólk til að lesa sig. Fyrirsögn í blaðinu var á þessa leið: Vísindamaður rannsakaði sköp íslenskra kvenna. Þó ég sé ekki (lengur) sérstakur áhugamaður um slíkt man ég vel eftir því að í ævisögu landkönnuðarins Peters Freuchen, sem sennilega kom út 1955 eða svo, var talsvert gert úr því að hann eða einhver sem hann þekkti þyrfti endilega að komast til Kína til að rannsaka hvort píkan á kvenfólki þar væri þversum, eins og honum hefði verið sagt, en ekki langsum eins og hann væri vanastur.
Meira að segja hundurinn þarf að fylgjast með útsýninu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.