2084 - Það er þetta með verðtrygginguna

Það er ekki ónýtt að hafa alteregó einsog Jens Guð hefur. Þeim er hægt að kenna um allskyns hugsanlegan misskilning, (sem jafnvel gæti verið rangur). Sögur hans af Lullu frænku gætu samt allar verið sannar. Hvað veit ég? Átti sjálfur svona frænku. Og auðvitað eru allar sögur sem ég gæti átt eftir að segja af henni heilagur sannleikur. Hún var reyndar kölluð Lauga eða Rúna, ég man það ekki með vissu.

Einu sinni sem oftar kom hún í heimsókn til okkar í Hveragerði. Svo þurfti hún að skreppa uppað Reykjum. Hún þekkti víst einhvern þar. Eftir því sem mamma sagði þá neyddist hún til að snúa við á miðri leið. Það var vegna þess að hún sá nokkur sauðnaut á beit. Þau eru eins og allir vita stórhættuleg. Hún kom þessvegna til baka án þess að hafa hitt nokkurn uppi á Reykjum. Reynt var að telja henni trú um að sauðnaut væri allsekki að finna á Íslandi, en það var alveg tilgangslaust. Hún hafði séð þau sjálf og þó henni væri sagt að þetta hefðu eflaust verið einhver önnur og meinlausari kvikindi, lét hún ekki telja sér trú um neitt slíkt.

Þetta var eftir að brann. Þegar brann var ég níu ára gamall. Eftir það eru allar tímaviðmiðanir frá æsku minni og uppvexti bundnar við brunann og húsum sem við bjuggum í eftir hann. Pabbi byggði strax sumarið eftir nýtt hús á rústunum af því sem áður hafði brunnið. Eiginlega man ég eftir mjög fáu frá því fyrir brunann. Kannski hafa þær minningar bara brunnið líka. Eftir á var mamma vön að miða alla atburði við brunann. Ef á nákvæmari tímasetningu þurfti að halda miðaði hún gjarnan við fæðingu okkar systkinanna.

„Það var þegar ég gekk með Sigrúnu, Ingbjörgu, Sæmund, Vigni, Björgvin eða Bjössa sem þetta gerðist.“ Sagði hún gjarnan. Reyndar var það bara Bjössi sem hún gekk með eftir brunann. Allt hafði gerst áður en brann eða eftir það.

Uppsagnirnar á RUV og pólitískur hávaði sem nóg er af um þessar mundir hefur furðulítil áhrif á mig. Tröllasögur af tölvumálum virðast heldur ekki vera áhrifamiklar. Hrunið sjálft hefur sömuleiðis sífellt minni og minni áhrif, hvernig sem á því stendur. Fjármál ríkisins eru alltaf að verða sjálfvirkari og sjálfvirkari. Síðustu ráðstafanir í þeim málum virðast einkum eiga að festa í sessi það happdrættishugarfar sem einkenndi árin fyrir Hrun og að rugla venjulegt fólk sem mest í ríminu. Vonandi verður þó mun varlegar farið nú en áður.

Ekki er fyrir það að synja að ráðstafanir þær sem kynntar voru síðasta laugardag, hafa heldur styrkt núverandi ríkisstjórn en veikt hana. Aftur á móti er margt sem veikir hana verulega og þar er hægt að nefna náttúruvernd og hnatthlýnun sérstaklega. Lögregluofbeldi virðist líka fara vaxandi og e.t.v. er það nauðsynlegt. Ísland er á margan hátt ekki nærri eins einangrað og áður var.

Stjórnmál dagsins eru háð Vodafónmálinu og breiðsíðunni frá Sigmundi Davíð. Ég held satt að segja að stefni í meiri háttar  stéttar og stjórnmálaátök í vetur. Allt er þetta tengt baráttunni við hlýnun jarðar og þær leifar efnis til orkuöflunar sem mannkynið þarfnast. Hugsanlega er enginn skilningur réttur á því máli.

Líklegast er að heimurinn muni koma til með að skiftast í eina þrjá ríkjahópa og verða þverrandi olíulindir einn helsti ásteitingarsteinninn. Rúmlega þrjúhundruð þúsund manna þjóð á sér enga von án þess að ganga einhverri fylkingunni á hönd að meira eða minna leyti. Landamæri hafa lítil áhrif nútildags.

Ómar Ragnarsson hefur oft gert fötluðu stæðin, sem mér finnst reyndar allof mikið af, að umtalsefni. Sjónarmið mín er afar lík hans. Eflaust leggur hann aldrei í fatlað stæði. Það geri ég ekki heldur. Frekar mundi ég ganga svona einn kílómeter en leggja í fatlað stæði. En er það nóg? Er það ekki bölvuð sjálfselska að hugsa bara um sig? Ég hugsa að ég mundi aldrei fara að jagast í öðrum útaf misnotkun á slíkum stæðum. Þó veit ég það ekki. Kannski mundi ég bara leggja sjálfur í svona stæði ef ég gæti réttlætt það fyrir sjálfum mér.

IMG 4873Á Markúsartorgi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Bernsku sinnar haga hann
hylja kann
Engu frá að segja fann
fyrr en brann

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 3.12.2013 kl. 03:38

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Um óskastundir höfðu menn miklar sögur og söknuðu fræði að vita hvonar hún var á tímanum þó þeir fullyrtu að ein þeirra væri í hvörjum sólarhring.

En til vissu um tilveru hennar var fært að Sæmundur fróði hafi boðið þernum sínum að óska hvors þær vildu; hafi þá ein óskað sér að eiga sjö sonu við honum:

"Með þessari bæn óska ég mér alls góða að eiga sjö syni með Sæmundi fróða;" og átti þessi bæn að fullkomnast og þeir að verða prestar sem hefðu allir í einu brunnið inni í kirkju Skálholts og kirkjan líka.

En þá átti sú er ekki hreppti óskina að segja:

"Mörgum þókti málug ég,"

mælti kerling skrýtileg;

"þagað gat ég þó með sann

þegar Skálholtskirkja brann

- og sjö prestar inni þar."

Sæmundur Bjarnason, 3.12.2013 kl. 06:54

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk, Jóhannes.


Ofanritað er úr þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar. Ég er samt alls ekki að meina að þú hafi það þaðan. Gat bara ekki ort neitt í fljótum hasti, en mundi eftir vísunni um Skáholtskirkju og Gúgli var ekki lengi að finna hana. Fyrra bréfið skrifaði ég í Chrome en þetta í Explorer.

Sæmundur Bjarnason, 3.12.2013 kl. 07:00

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Get ekki hætt að hugsa um þetta. Man eftir vísu sem var svona:


Eina vildi ég eiga mér
óskins svo góða.
Að ég ætti synina sjö
með Sæmundi hinum fróða.

Sæmundur Bjarnason, 3.12.2013 kl. 07:03

5 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Ef engan fyndi stoppi stað
í stæði fatlað legði
Og kæmist eflaust upp með það
ef enginn frá því segði

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 3.12.2013 kl. 13:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband