2081 - Halastjarna á leiðinni

Horfi yfirleitt afar lítið á þætti í sjónvarpinu. Horfði þó á seinni hluta endursýningarinnar á þætti Gísla Marteins Baldurssonar þar sem hann ræddi við Jón Gnarr og það sem á eftir því viðtali fór. Verð að viðurkenna að mér fannst Gísli komast betur frá þessu en ég hafði búist við. Trúlegt er bara að ég reyni að horfa á þáttinn hans um næstu helgi. Laugarvatns-táknrænan sem bent var á í lok þáttarins er athyglisverð. Efast ekki um að SDG hefur hugleitt hver örlög Hriflu-Jónasar urðu og hvernig sagan dæmir hann.

Líka hef ég lesið svo jákvæða dóma á fésbókinni og jafnvel blogginu um nýjan þátt um íslenskt mál í Sjónvarpinu að ég neyðist sennilega til að horfa á hann. Að mestu leyti er ég hættur að horfa á Kiljuna hans Egils Helgasonar. Er þó ekkert hræddur um að ég hafi misst af neinu.

Man vel eftir Hale-Bopp halastjörnunni sem sást vel með berum augum og var hátt á lofti á kvöldin í talsverðan tíma, þegar við bjuggum á Vífilsgötunni. Ætli það hafi ekki verið svona rétt fyrir síðustu aldamót (vel mætti auðvitað Gúgla það). Nú um næstu mánaðamót er von á annarri halastjörnu en hætt er við að hún verði sjáanleg í miklu skemmri tíma og auk þess lægra á lofti. Aðdáendur loftsjóna ættu samt ekki að láta þetta tækifæri framhjá sér fara.

Man ekki alveg hvar það var en einhversstaðar sá ég um daginn umfjöllun (með myndum) um Fordlandiu. Þorpið sem Henry Ford stofnsetti í Suður-Ameríku. Hvernig sem á því stendur finnst mér minna til um svona sögulegar upprifjanir ef ég hef sjálfur einhverntíma skrifað um þær á blogginu mínu. Man vel eftir að hafa skrifað um Fordlandiu og vitanlega er óttaleg vitleysa að láta svona. Hvað mætti t.d. Illugi Jökulsson segja um Lemúrinn sinn. Ekki vantar að fjölmargt athyglisvert hefur hann fjallað um þar. Margt festist manni betur í minni ef maður skrifar sjálfur um það. Og engin leið er að neita því að fésbókin bendir manni á margt afar athyglisvert þó margt sé skelfilega lítils virði sem þar er að finna. Svo má ekki gleyma Gúgla gamla.

Frá fornu fari hef ég haft talsverðan áhuga á Science Fiction bókum eða vísindaskáldsögum eins og réttast er að kalla þær á íslensku. Núorðið má helst ekki hafa áhuga á neinu nema kvikmyndum og eitthvað hefur verið framleitt af SF kvikmyndum, en ég hef ekki séð margar þeirra. Post Apocalyptic bækur eða það sem kalla mætti „eftir lok siðmenningar“ bækur eru í rauninni sérgrein innan SF bókanna og að mörgu leyti hef ég mestan áhuga fyrir þeim. „Dystopia“ sem er eiginlega andstaða við „utopia“ sem flestir kannast við er líka orð sem mikið er notað til að lýsa SF bókum. Geimferðabækur er svo enn ein greinin og þar er nýkomin út bók sem vekur talsverða athygli. Hún er kölluð „The Pluto Enigma“ og er eftir Nick Oddo. Sú bók er talsvert frábrugðin venjulegum SF bókum (raunverulegri er sagt) og þó ég hafi bara lesið kynningu á henni sýnist mér hún vera nokkuð góð.

IMG 4755Hótellíf.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband