2072 - Íslensk erfðagreining

Nú eru menn hættir að rífast um Hrunið og farir að rífast aftur um Íslenska erfðagreiningu. Ég hef ekki fylgst mikið með því rifrildi en aðalþátttakendurnir virðast vera Kári Stefánsson og Helgi Seljan. Í mínum augum var Íslensk erfðagreining eitt svindilbrask frá upphafi til enda. Eiginlega hefðu menn átt að vera búnir að læra af því svindli að vara sig á bönkunum. Auðvitað gátu þeir það samt ekki því stjónvöld (ekki bara Kári og Davíð) sameinuðust um að taka þátt í þeim svikum. Það voru líka margir sem vissu og áttu að gera sér góða grein fyrir Hannesarsvindlinu, en hneykslast samt á því að hann skuli vera ákærður núna. Eiginkona Geirs Haarde var í stjórn Flugleiða þegar Hannesarmálið kom upp og átti að sjálfsögðu að kæra hann. Ég nenni þessari vitleysu ekki lengur. Þetta er svo rotið að það tekur engu tali.

Er Pétur Blöndal eini heiðarlegi alþingismaðurinn? Birgir Ármannsson segir oft sína meiningu líka, en talar bara svo óskaplega hægt að maður er yfirleitt búinn að gleyma upphafi setningarinar þegar hann lýkur henni. Held reyndar að Jóhanna hafi viljað vel og standa við sitt en bara ekki fengið það fyrir látunum í Steingrími. Hef ekki þá trú á framsóknarmönnum sem sumir virðast hafa eða höfðu. Sigmundur lofaði og lofaði en ég efast stórlega um að hann geti komið nokkru í verk. Aðrir framsóknarmenn eru lakari en hann og er þá mikið sagt.

Læt ég svo lokið mínum pólitísku hugrenningum á þessum vetrardegi. Auðvitað er svolítið kalt en það kemur ekki að sök, ef maður man bara eftir að klæða sig sæmilega. Það er reyndar fyrir löngu kominn vettlingatími hjá mér. Spurningin er bara varðandi húfuna.

Leikar standa nú jafnir í einvíginu Carlsen – Anand. Sumir segja að Anand geti verið alveg rólegur því hann hafi unnið heimsmeistaratitilinn svo oft, en Carlsen aldrei. Þetta álít ég ekki alveg rétt. Að mörgu leyti er þetta fyrsta alvörueinvígið síðan Kasparov hætti. Margt hefur breyst í skákinni síðan einvígi síðustu aldar var háð hér í Reykjavík. Tölvurnar eru orðnar miklu sterkari en maðurinn í þessu og ekkert skrýtið við það. Mótahald allt er að vísu orðið erfiðara því gæta þarf þess að ekki sé svindlað. Sá videómynd í gær þar sem bæði Anand og Carlsen voru látnir fara í gegnum vopnaleitarhlið. Sitt hvora hæðina hafa þeir á hótelinu fyrir sig og aðstoðarfólk sitt. Sitt hvora lyftuna einnig. Þrjú jafntefli og þrjár skákir af 12 búnar er að vísu svolítið svekkjandi fyrir áskorandann en ekkert alvarlega þó.

Er fésbókin sú félagslega stoð og þerapía sem margir halda. Mundu nokkrir reagera þó ég færi að skrifa einhverja bölvaða vitleysu sem benti beinlínis til þess að ég væri hættulega geðveikur. Eg efast um að nokkur mundi hafa aandsnærværelse nok til að gera nokkurn skapaðan hlut. En þá mundu þeir fara að hugsa, þó sú hugsun yrði kannski ekki mjög gáfuleg: Kannski Snowden og hans nótar og pótentátar gætu samið forrit eða app sem sýndi fram á hvert ég hef komið. Það er best að flýta sér í burtu. Ekki er hægt að sjá hve fljótur ég eru að lesa, eða er það? Já, en það er kannski hægt að mæla það og ekki dugir að fara niður á litlu-gulu-hænuna stigið því sennilega eru til nýrri og vandaðri upptökur af mér.

Fór að lesa blogg hjá Sveini Arnari Sæmundssyni áðan og ætlaði ekki að geta hætt. Það var gaman að lesa Glasgow sögurnar hans. Svo var pæling hann um dauðann virkilega áhugaverð. Einkennileg sú bannhelgi og þöggun sem ríkir á öllu varðandi hann. Hann er þó örugglega það eina sem á eftir að koma fyrir okkur öll. Jafn háa sem lága.

Þegar ég var í skóla fyrir óralöngu var eitt fyrsta prófið sem ég þreytti á þá leið að skrifa átti á blað ein 30 orð sem lesin voru upp. Ég hafði stóran staf í öllum orðunum en að öðru leyti voru þau rétt skrifuð. Fékk 30 villur (það átti ekki að vera stór stafur) og hef síðan haft fremur lítið álit á íslensku skólakerfi.

IMG 4408Njóli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

DeCode Kári rífur kjaft
hvorfið jarðarmenið
Ef'ann hefði bara haft
heiðarleikagenið

Komin er nú kuldatíð
krapaél og bloti
Upp að stytti eftir bíð
og að þessu sloti

Handprjónaða húfu loks
og hanska á sig setur
Leynda kima Kópavogs
kanna vill hann betur

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 13.11.2013 kl. 03:42

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk fyrir fínar vísur. Ég er ekki í stuði til að svara þeim í bundnu máli, svo ég svara þeim bara ekkert. Kannski seinna.

Sæmundur Bjarnason, 14.11.2013 kl. 09:09

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Fínar vísur fæ ég enn
frá honum Laxdals Jóa
Vetur flýr og vorið senn
vaknar með sinn spóa.

DeCode hef ég Drottinn minn
dýrmæt genin lánað.
Alsheimerinn ekkert finn
að samt hafi skánað.

Sæmundur Bjarnason, 14.11.2013 kl. 09:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband