2069 - Gísli Marteinn

Skattholufyrirtæki er nýyrði sem ég sá nýlega notað á fésbókinni. Auðvitað er það svo að fyrirtæki eru misjafnlega kræf í því að koma sér hjá því að borga skatta. Minnir að rætt hafi verið um Apple fyrirtækið í þessu sambandi. Á sínum tíma, þegar trúarbragðastríðið mikla milli makka og pésa geisaði, var það óneitanlega svo að ég hafði hvað mest á móti makkatölvugreyunum, að þau skyldu vera uppá náð og miskunn eins fyrirtækis komin en pésarnir voru þó framleiddir af ýmsum og þar af leiðandi yfirleitt ódýrari. Skattholustarfsemi hafði engin áhrif þar á. Seinna meir sá ég að mismunurinn gat hæglega stafað að miklu leyti af slíku.

Rafpóstur er hræðilega illa þróaður. Í stórum dráttum er hann eins uppbyggður nú einsog löngu fyrir síðustu aldamót. Það sem ég vildi gjarnan sjá í mínum e-mail er m.a. þetta:  Póstforritið sjálft á að búa til lista yfir þann póst sem kemur frá aðilum sem áður hefur verið svarað. Sá póstur á ævinlega að vera efstur. Auðvitað á móttakandi að geta bætt póstföngum á þann lista. Um helgar á aðeins að sýna þann póst sem er frá þeim aðilum sem eru á þessum lista. Vefpóst á að vera hægt að nota þannig að hægt sé að dánlóda aðeins þeim bréfum sem þannig eru merkt. Líka þarf að vera hægt að dánlóda þeim hverju fyrir sig.

Hægt á að vera að merkja afsendingar-adressu sem spam og þá hendir póstforritið öllum bréfum sem frá því póstfangi koma. Þannig væri hægt að halda áfram lengi dags, en í stuttu máli sagt þá á póstforritið að hugsa. Það er engin goðgá að ætlast til þess af forritum núorðið. Þau hugsa mörg. Óþarfi er að hafa notkun á póstforritum ókeypis. Með því að taka smágjald af öllum rafpóstsendingum mætti koma í veg fyrir spam-póst sem er langt kominn með að eyðileggja rafpóstinn sem virðingarverða notkun á Internetinu.

Einn áberandi galli er á núverandi forsetateymi alþingis. Þeir hafa ekki hugmynd um hvað stundvísi er. Það vissi Ragnheiður Ásta þó nokkurnvegin. Auðvitað skiptir það ekki miklu máli en er þó lýsandi fyrir margt annað hjá núverandi ríkisstjórn. Meðan henni tekst ekki einu sinni að koma sér vel við klukkuna er lítil von til þess með aðra, enda hrynur af henni fylgið samkvæmt skoðanakönnunum.

Já, ég sé að síðasta blogg mitt hefur farið á netið þann fimmta. Kannski ég fari bara að ljúka þessu og setja það upp. Horfði ekki á Gísla Martein í sjónvarpinu um helgina og einhvern vegin finnst mér lítil ástæða til þess. Hef ekki enn orðið svo frægur að horfa á þáttinn hans. Ráðning hans hefur hugsanlega verið pólitísk mistök hjá Páli. Veit ekki hversu vinsæll hann verður en það fer ekki hver sem er í fötin hans Egils. Hann var samt orðinn ansi þreyttur og ágæt hugmynd að skipta honum út, en ég er ekki sannfærður um að Gísli Marteinn sé rétti maðurinn.

IMG 4358Sá blái.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þáttur GMB er allt öðruvísi en Silfrið og ekki hægt að bera þá saman. Þetta er meira svona magasín þáttur um daglegt líf. Silfrið var meira pólitík.

Sunnud.morgunn með GMB er því NÝR  þáttur og það vantar enn þátt með svipuðu sniði og hjá Agli.

Gunnar Th. Gunnarsson, 6.11.2013 kl. 14:18

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já,það getur vel verið. Mér fannst samt endilega að þessi þáttur væri í stað Silfursins. Varla er til of mikils mælst að hafa einn þátt í viku um stjórnmál. Hann þarf ekki endilega að vera eins langur og Silfrið. Mér fannst hann eins og hálfgerð ruslakista stundum.

Sæmundur Bjarnason, 7.11.2013 kl. 00:05

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Já, hann var kynntur sem arftaki Silfursins

Gunnar Th. Gunnarsson, 7.11.2013 kl. 00:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband