2068 - Sveitarstjórnarkosningar

Hvort er það tæknin sem er að breyta fjölmiðlun dagsins í dag eða fjölmiðlunin að breyta tækninni og beygja hana undir sig? Mér finnst þetta vera sama spurningin og sú með eggið og hænuna. Hvort kom eiginlega á undan? Er bloggið t.d. afurð tækninnar sem þarf til þess að gera það almennt? Ég held ekki. Ég held einmitt að bloggið eða viljinn til þess að blogga hafi alltaf verið fyrir hendi. Það vill bara svo til að tæknin sem mjög margir hafa yfir að ráða í dag gerir þetta mögulegt. Er ekki miðlun hugmynda (og frétta) að fara að miklu leyti frá stóru fjölmiðlunum og yfir í samfélagsmiðlana svokölluðu? Stóru, prentuðu fjölmiðlarnir hafa einokað þennan markað að undanföru. Ekki hefur það alltaf verið þannig. Á öllum tímum hafa verið margir sem vilja láta ljós sitt skína. Eru ekki samfélagsmiðlarnir einkum fyrir þá?

Eftirfarandi skrifaði ég og birti á blogginu mínu þann nítjánda október árið 2007. Já, það kemur sér stundum vel að kunna að leita í sínu eigin bloggi að hinu og þessu. Ekki veit ég hversvegna ég er að endurtaka þetta, en athyglisvert er það. Sennilega set ég þetta bara til að spara mér skrif. Svo er víst í tísku núna að rifja upp gömul bloggskrif. Aðallega samt hrunskrif og kannski er þetta það einmitt.

Mig minnir að það hafi verið Gíslína í Dal sem sagði frá því á blogginu sínu að hún hefði keypt eða fengið bókina um Thorsarana nýlega og það minnir mig á dálítið úr þeirri bók sem ég las einmitt fyrir þónokkrum mánuðum. Þar segir frá því þegar Thor Jensen lét byggja fyrir sig Fríkirkjuveg 11. Þetta var eitt af fyrstu húsunum í Reykjavík þar sem rafmagnsljós voru í hverju horni. Húsið var byggt fyrir um það bil hundrað árum. Sumir hneyksluðust á því að rafmagnsljós væri meira að segja á klósettunum.

Ég kom á skrifstofur Straums-Burðaráss í Borgartúninu um líkt leyti og ég las bókina um Thorsarana og þar kvikna ljós allsstaðar af sjálfu sér þegar komið er inn í herbergin. Það eru semsagt einhverjir skynjarar sem kveikja ljósið fyrir mann. Svona er þetta meira að segja á klósettunum. Eru þetta í hnotskurn þær framfarir sem orðið hafa á hundrað árum? Ég bara spyr. Kannski eru þessi skynjaraljós fyrir löngu orðin algeng og bara ég sem fylgist svona illa með.

Minn aðalspádómur fyrir bæjar- , sveitar- og borgarstjórnarkosninarnar næsta vor er sá að Sjálfstæðisflokkurinn ríði ekki eins feitum hesti frá þeim kosningum og flestir halda. Þeir sem þann flokk kjósa munu margir kenna framsóknarflokknum (sem þurrkast væntanlega næstum út) um þann ósigur. Víst er að margir verða á þeim tímapunkti orðnir ansi þreyttir að bíða eftir að loforð framsóknarmanna verði að veruleika. Ekki er samt víst að hægt verði að kenna framsóknarflokknum um allt sem miður fer í þeim kosningum. Þó er það svo að vinstri sveiflan í íslenskum stjórnmálum verður greinilegri á eftir en áður. Bakslagið sem varð í þingkosningunum síðstu mun þurrkast út og vel það. Ríkisstjórninni verður líklega hægt að kenna um það.

Annars eru svona spádómar lítils virði. Kosningabaráttan er öll eftir. Mesta athygli um þessar mundir vekur baráttan um sæti á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar. Einnig eru margir hissa á Jóni Gnarr og að fylgi Besta Flokksins skuli að mestu færast yfir á Bjarta Framtíð. Hvernig fylgið skiptist á milli BF flokkanna verður líklega mesta spurningin. Þ.e.a.s ef þeir bjóða báðir fram. Kosningarnar næsta vor geta semsagt orðið ansi spennandi.

IMG 4354Gulur, rauður, grænn og...


mbl.is Ríkisstjórnin aldrei óvinsælli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fjölmiðlar hafa í dag sagt frá listaverkafundi þar sem komu í ljós fjöldi listaverka, sem nazistar höfðu "gert upptæk" vegna þess að þeir töldu verkin sýna og sanna úrkynjun þeirra listamanna, sem þau höfðu skapað. Fróðlegt er að rifja upp að þegar skapari framsóknarflokksins, Hriflu-Jónas, var ráðherra, notaði hann m.a. vald sitt til að reyna að klekkja á íslenskum listamönnum, sem aðhylltust sömu eða svipaðar listastefnur. Um þetta má lesa ef menn nenna að leita á Netinu. Jónas er einhver mesti óhappamaður íslenskra stjórnmála og enn í dag eru menn að súpa seyðið af öfgaruglinu í þessum snarbilaða manni. Eitt með öðru er það tjón, sem hann vann á menntun ungmenna með því að semja og skipa fyrir um notkun á Íslandssögu sinni, sem alltof margir trúa enn í dag. Væri hægt að hafa mörg orð um þetta en læt þetta nægja.

Ellismellur 4.11.2013 kl. 21:39

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Hriflu-Jónas hafði ekki tök á að gera verk upptæk held ég. Stríðið hefur hugsanlega hjálpað nasistum til þess.

Þó Hriflu-Jónas hafi verið gallaður á ýmsa lund var honum ekki alls varnað. Íslenska flokkakerfið (þó gallað væri) dugði til að gera hann óskaðlegan nokkuð snemma.

Sæmundur Bjarnason, 5.11.2013 kl. 11:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband