2066 - Skák

Skrifaði pínulítið um daginn um Magnus Carlsen og einvígið sem hann er að fara að tefla við Anand um heimsmeistaratitilinn í skák. Las viðtal við Magnús nýlega og þótti eftirfarandi eitt það merkilegasta sem þar var að finna. Læt það bara vera á enskunni eins og það var því flestir sem lesa þetta blogg skilja hana áreiðanlega.

On "the crazy" and Fischer

"It was probably only the chess keeping him sane. He would have gone insane much quicker without it. His story is very different to mine. He had a difficult upbringing. Difficult relationship to his family. I have lived a much more sheltered, normal life. As normal as it could be, considering how much I travelled."

 

Annars er það ágæt æfing (fyrir mig a.m.k.) að nota það tækifæri sem býðst nú þegar Hjörvar Steinn Grétarsson er orðinn 13. stórmeistarinn okkar í skák að rifja upp hverjir hinir tólf eru. Fyrst er þá frægastan að telja Friðrik Ólafsson, síðan Guðmund Sigurjónsson og þar á eftir fjórmenningaklíkuna alræmdu. Það eru semsé Jón L. Árnason, Jóhann Hjartarson, Helgi Ólafsson og Margeir Pétursson. Næst má sennilega telja Helga Áss Grétarsson, Þröst Þórhallsson  og Hannes Hlífar Stefánsson. Þá eru það þremenningarnir sem nýjastir eru í þessum flokki. Henning Danielssen, Héðinn Steingrímsson og Stefán Kristjánsson. Þá held ég að upptalið sé. Sko, þetta gat ég.

Því fer víðsfjarri að ég skilji allt sem rætt er um þegar aðild að Evrópusambandinu ber á góma. Fínni blæbrigði samninganna eru mér að miklu leyti hulin. Ég veit samt ósköp vel að bæði stuðningsmenn og andstæðingar ýkja stórlega sinn málstað. Eina ráðið er að reyna að gera sér í hugarlund hvernig aðildin komi til með að reynast. Ekki er við neitt annað að styðjast en sjálfan sig og horfa á þjóðirnar sem eru í sambandinu og hvernig þeim hefur reitt af að undanförnu.

Við þá iðju hef ég allsekki fundið neina hættulega ókosti á sambandsaðild. Auðvitað er því ekki að leyna að smæð okkar getur valdið verulegum vandræðum. Hún er á sama tíma okkar helsti styrkur. Þar veldur hver á heldur. Ef ekki er hægt að neyða núverandi ríkisstjórn til að halda áfram viðræðum er langlíklegasta skýringin á hegðun hennar sú að hún vilji ekki verða til þess að gera neitt óafturkallanlegt í samskiptum okkar við Evrópusambandið. Líklega gerir hún ekki ráð fyrir að sitja nema í hæsta lagi út kjörtímabilið og að sú ríkisstjórn sem þá tekur við eigi skilið að ákveða hvað gert verði í samningsmálunum. Þjóðin getur líka verið búin að segja sitt álit á þeim tímapunkti.

Mikið djöfull sem dagarnir eru fljótir að líða. Það er bara fimmtudagur á morgun og mér finnst vikan vera rétt að byrja. Þó Gnarrinn segi núna að hann ætli ekki að bjóða sig fram í vor finnst mér alveg að vænta megi tíðinda frá besta flokkum. Hann er ekki bestur og stærstur fyrir ekki neitt. Annars kaus ég hann ekki því ég bý víst í Kópavoginum, sem aldrei skyldi verið hafa. Það er nefnilega ekkert gott að búa í Kópavoginum. Hvað sem hver segir. Gatnakerfið er t.d. svo skrýtið að þó ég sé búinn að búa hér í bráðum 10 ár er ég ekki byrjaður að skilja það.

Kannski ég fari bráðum upp í Stangarhyl að tefla. Hugsanlega kemst ég hjá því að verða neðstur þar. Var að skoða myndir þaðan. Sennilega hefur Einar bróðir Braga tekið þær. Nafni minn Kjartansson sést ekki á þeim. Við eina myndina voru nokkur vísuorð skrifuð. Ég prjónaði aðeins við þau eins og ég geri svo oft.

Á ofsóknunum loks er lát
lúinn kóngur verður mát.
Og þá verður konan kát
en kallinn grípur mikið fát.

Þetta er fremur léleg vísa. T.d. má alveg halda því fram að um ofstuðlun sé að ræða í fyrstu ljóðlínunni. Þá segi ég bara að hún sé hvort sem er stolin og ég beri enga ábyrgð á henni.

Það er víst að verða kominn bloggtími, svo mér er ekki til zetunnar boðið, enda er hún ólögleg orðin. Svo er að koma nóvember. Þar á eftir desember og þá fer sólin að hækka aftur á lofti. Löturhægt að vísu í byrjun en herðir sig svo þegar á líður. Fullsnemmt er samt að fara strax að hlakka til vorsins. Strax getur samt þýtt ýmislegt, skilst mér.

IMG 4305Hér má semsagt ríða að vild.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband