11.9.2013 | 00:03
2042 - Eygló Harðardóttir
Í kosningabaráttunni s.l. vor sagði Eygló Harðardóttir að vandalaust væri að taka aftur skerðingar þær sem gerðar voru á greiðslum til aldraðra og öryrkja á síðasta kjörtímabili og það yrði svo sannarlega eitt af allra fyrstu verkum nýrrar ríkisstjórnar ef Framsóknarflokkurinn kæmist til valda. Auðvitað réði hún því ekki og það var ekki gert nema að litlu leyti. Hún sagði þá að það mundi samt áreiðanlega ekki dragast lengur en í mesta lagi fram í nóvember næstkomandi að það yrði gert. Svo verður þó að líkindum ekki. Önnur verkefni verða álitin brýnni. Samt eru þetta svik við allmarga. Fleiri býst ég við að muni álíta sig svikna. Kannski hefðu aðrir svikið líka og ég vil að óreyndu ekki búast við öllu illu af þessari ríkisstjórn.
Mér finnst þetta mál samt skipta verulegu máli. Kannski er það vegna þess að ég er farinn að eldast sjálfur og er háður þessum peningum. Margt þarf að gera og fé vantar allsstaðar. Að svíkja það sem lofað er eftir að hafa komist til valda (með röngu a.m.k. að sumra áliti) og orðið ráðherra, er þó fyrirlitlegra en flest annað.
Held að lesendum mínum sé að fækka aftur. Eiginlega er ekki hægt annað en að kenna Morgunblaðinu um það. Eða jafnvel Sigmundi Davíð. Þetta pólitísk spinn sem sumir þurfa endilega að setja á alla hluti er talsvert leiðigjarnt. Spillingin og einkavinavæðingin er mikil hérna í fámenninu, en hvað með það? Svona hefur þetta alltaf verið. Það verður ekki ráðin bót á öllu per samstundis.
En kannski hefur Hrunið opnað augu einhverra. Hugsanlega margra. Sumir, t.d. Egill Helgason virðist kenna bönkunum um allt sem aflaga fer. Sagan um manninn í Svíþjóð sem brýtur ávallt rúðu í banka í hvert skipti sem hann losnar úr fangelsi höfðar alltaf meira og meira til mín. Kannski er það bara þjóðsaga. Hef sagt hana áður. A.m.k. tvisvar, held ég. Stjórna bankarnir stjórnvöldum? A.m.k. hefur fátt batnað við það að þeim var trúað til að búa til peninga í stað úthlutunarnefndanna. Svo voru þeir einkavæddir. Ekki bætti það úr skák. Fjárhagsráð var á sínum tíma kallað Fjáransráð. Ekki var það að ófyrirsynju og eru margar sögur til af því. Ætli væri þó ekki bara betra að hafa Fjárhagsráð núna en útrásarvíkingana. Varla mundi það stela eins miklu. Þegar það var við lýði var heldur ekki búið að finna uppá því að senda illa fengna fjármuni til Tortóla.
Er viðunandi að hafa svona marga starfandi í Seðlabankanum og svo er enginn þar með nægilegt vit til að kæra fyrir sérstökun saksóknara á réttan hátt? Svo hlæja dómararnir bara að honum. Ætli bankarnir stjórni dómurunum líka? Er Seðlabankinn stikkfrí? Nei, ég held að það sé meira vit að hugsa um eitthvað annað en pólitík.
Las nýlega í Kyndlinum mínum kynningu á bók um maura. Las lítið meira en formálann enda var það sem á eftir kom fræðilegt í meira lagi og ég skildi það afar illa. Þetta eru merkileg kvikindi og mjög lítið rannsökuð. Þeir eru líklega um þrír fjórðu hlutar alls lifandi efnis (biomass) á jörðinni. Á margan hátt má líta á einstök dýr í einu maurabúi sem frumur og þessvegna eru þeir afar vel fallnir til allskyns rannsókna því sérhæfingin er mikil hjá þeim. Harðgerðari dýr eru vandfundin. Alltaf tekst þeim á endanum að ráða framúr öllum erfiðleikum. Þola t.d. geislun betur en nokkur önnur dýr. Næstum allsstaðar (nema á Íslandi) lifa þeir góðu lífi og tegundirnar eru fjölmargar.
Þegar fésbókin segir mér að gera eitthvað (eða stingur uppá því) geri ég það bara einstöku sinnum. Mér finnst ég vera frjálsari þannig og að ég þurfi ekki að óttast eins mikið að mínum persónuleika verði stolið, eins og maður hefur heyrt svo margar hryllingssögur af. Mér finnst fésbókin farin að verða hræðilega vinsæl. Fólk situr yfir þessu lon og don. Sérstaklega þeir sem þurfa ekki að mæta til vinnu. Eiginlega hef ég aldrei orðið fyrir neinu á netinu eða tölvutengdu. Varla að ég hafi tapað gögnum og engum finnst taka því að reyna að brjótast inn í heimabankann minn. Annars er það heimsstyrjöldin síðari sem ég er upptekinn af núna. Varð það með því að lesa upphafið á bók Magnúsar Þórs Hafsteinssonar um Dauðann í Dumbshafi.
Athugasemdir
Maurar þrír fjórðu alls lifandis efnis á jörðinni !! Oj barasta :)
Anna Einarsdóttir, 11.9.2013 kl. 08:15
Já Anna, svona er þetta. Er ekki viss um að þessi tala sé alveg rétt hjá mér, en há var hún. Furðu há. Er búinn að fjarlægja sýnishornið af bókinni en gæti auðvitað nálgast það aftur.
Sæmundur Bjarnason, 11.9.2013 kl. 09:37
Maurar eru þó nokkuð rannsakaðir. Meðal annars gerði David Attenborough stórmerkilegan heimildamyndaflokk um maura og önnur skordýr. Life in the undergrowth held ég að þættirnir heiti. Er það ekki eina rétta leiðin til að fræðast? þ.e. að skoða hvernig þessi kvikindi haga lífsbaráttunni?
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 11.9.2013 kl. 14:40
Það væri samt hægt að rannsaka þá meira og er í rauninni afar auðvelt því þar má líta á heilu samfélögin sem einn líkama og því er hægt að gera allt öðruvísi athuganir á þeim en flestum öðrum dýrum.
Sæmundur Bjarnason, 11.9.2013 kl. 23:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.