9.9.2013 | 21:18
2041 - Halldór Baldursson og Gunnar Karlsson
Halldór Baldursson og Gunnar Karlsson eru bestu skopteiknarar landsins um þessar mundir. Satt að segja man ég ekki eftir öðrum sem gutlar eitthvað á. Halldór Pétursson var mjög góður teiknari á sínum tíma og Sigmund úr Vestmanneyjum einnig. Þetta er list sem ég held að byggist á mikilli æfingu.
Fyrirsögn sá ég nýlega í blaði þar sem stóð: Litblindir vinna oftar í Lottó, eða eitthvað þessháttar. Greinina sjálfa las ég ekki og ekki man ég hvar ég sá þetta. Mér finnst það undirstrika það sem ég hef oft sagt: Skoðanakannanir og allskonar athuganir sem íslensku blöðin velta sér uppúr eru oft tóm vitleysa. Það hlýtur að vera öllum ljóst að ekkert mark er takandi á þeirri fullyrðingu sem fram kemur í þessari fyrirsögn. Þannig er það reyndar oftast nær með kannanir sem sagt er frá í fjölmiðlum hér, þó ekki sé það alltaf jafn augljóst og í þessu tilfelli.
Með gagnrýnum huga hef ég verið að líta á þetta blogg. Með því að skrifa um svona sundurleit málefni og eins oft og ég geri er vel hægt að segja að þetta sé bara safn af athugasemdum. Hugmyndirnar að því sem ég skrifa hér eru oft fengnar af lestri greina á netinu. Með yfirlestri tekst mér að komast hjá áberandi villum. Ég er kominn á þann aldur að ég finn greinilega að mér fer aftur. Spurningin er bara hvort það sé óeðlilega hratt eða ekki. Margir sem vilja láta ljós sitt skína (eins og ég) reyna að einbeita sér að einhverju ákveðnu sviði og þykjast gjarnan vera betri en aðrir á því sviði og finnst það sjálfum. Ég hef hinsvegar alla tíð á haft áhuga á mjög mörgu (of mörgu?) og þess sér stað í þessu bloggi.
Eva Hauksdóttir skrifar um hvort afnema skuli skólaskyldi. Hún virðist samt gera ráð fyrir að fræðsluskylda verði áfram við lýði. Öruggt er að sú almenna menntun og jöfnuður sem hér ríkir hefði ekki komist á nema samfélagið í heild hefði tekið að sér að sjá um rekstur skóla. Þær tilraunir sem gerðar hafa verið með einkaskóla án afnáms skólaskyldu samkvæmt lögum hafa tekist misjafnlega. Einföld lagasetning er ekki alltaf besta lausnin á samfélagsvandamálum. Skólaskylda er ekki það vandamál hér sem brýnast er að leysa. Ekki er hægt að sjá að almenningur hefði orðið nokkru bættari þó flestir eða allir skólar landsins hefðu farið á hausinn í Hruninu.
Oft hef ég skrifað hér um pólitísk málefni. Sumir einbeita sér að þeim og fréttatengdum málum en tekst það mjög misjafnlega. Alltaf virðast þó vera til einhverjir jábræður við allar pólitískar skoðanir. Neikvæðni í garð þeirra sem gefa kost á sér til pólitískra starfa er mjög áberandi. Í rauninni eru það aðeins hinar breiðu pólitísku línur sem skipta máli. Ágreiningur er oft um einstök mál en það er aðeins með sameiningu og samstöðu sem árangur næst. Áhugaleysi um samfélagsleg mál er minni hér en víða annars staðar. Helsta vandamál okkar Íslendinga er hve fáir og smáir við erum. Þó viljum við gjarnan vera þjóð meðal þjóða en oft erum við bara hlægilegir.
Þegar ég fer í rúllustiga minnist ég þess næstum alltaf að í London eru rúllustigar algengir. T.d. þegar farið er í neðanjarðarlestirnar. Áberandi skilti eru alltaf við stigana og þar stendur Keep Left. Þetta skil ég ágætlega og held mig yfirleitt vinstra megin. Á Íslandi eru engin svona skilti og ég fer yfirleitt að velta því fyrir mér hvort heldur sé ætlast til að maður haldi sig hægra eða vinstra megin. (Hægri umferð, sko) Ekki þýðir að fara eftir því sem aðrir gera. Flestir halda sig á miðjunni eða við hliðina á förunautnum og koma þannig í veg fyrir að komast megi framhjá. Sumir eru að flýta sér svo mikið að þeir hlaupa upp eða niður stigana. Ekki ég samt. Alveg má þrátt fyrir það taka tillit til þeirra.
Athugasemdir
Svo segja þeir exskjúsmí í tíma og ótíma þessir Bretar. Man eftir konu í löngum rúllustiga sem exskjúsmíaðist fram hjá mörgu fólki sem var ekki með vinstri regluna á hreinu - að mér meðtöldum.
Emil Hannes Valgeirsson, 9.9.2013 kl. 21:42
Já, kannski þeir séu almennt lengri og mjórri rúllustigarnir í Bretlandi. Man að ég var einhverntíma alveg hissa á lengdinni niður á brautarstöðina. Fyrsti rúllustiginn sem ég man eftir var í Kjörgarði á Laugaveginum. Einu sinni fannst manni Kjörgarður stór.
Sæmundur Bjarnason, 9.9.2013 kl. 22:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.