2035 - JBH

Það hefur verið kvartað við mig um það að erfitt sé að finna Moggabloggið á mbl.is. Satt er það að meira var það áberandi áður fyrr. Kannski maður ætti bara að temja sér að linka í vinsæla frétt í hvert sinn sem maður setur upp blogg. Ég bara nenni því ekki. Læt duga að auglýsa það á fésbókinni. Einu sinni reyndi ég það og skrifaði gjarnan einhverja klásúlu um frétt sem ég fann á mbl.is áður en ég sendi bloggið frá mér en svo hætti ég því. Mér finnst að ég eigi einn að ráða því hvað ég skrifa um á blogginu mínu.

Finnst að ekki þurfi að refsa JBH enn og aftur fyrir eitthvað sem hann setti á blað fyrir löngu síðan. Sjálfsagt var það óviðeigandi en hver hefur svosem tandurhreinar hugsanir? Ef hann hefði hinsvegar gert eitthvað meira en setja hugsanir sínar á blað þá hefði það verið annað mál. Já, en hann gerði einmitt meira. Hann sendi þessi skrif sín saklausu barni. Eru þessi saklausu börn ekki sífellt að stelast til að skoða það á netinu sem þau ættu ekki að skoða? Heilagleiki Háskólans er ekki slíkur að hann eigi að hafa lögregluvald og Hildur Lilliendal ekki heldur. JBH er mjög breiskur maður og viðurkennir það sjálfur. Getum við ekki látið þar við sitja? Mér finnst líka óþarfi að starta hundeltingu núna á öllum lifandi fangavörðum við útrýmingarbúðir nasista í stríðinu. Nær hefði verið að gera það fyrr.

Finnst ekki sniðugt að þurfa að horfa á Braga Kristjónsson í hverri viku hreinsa horinn vandlega úr nefinu á sér og stinga honum svo í vasann eftir að hafa vafið klút utan um hann. Annars er hann margfróður og hefur gaman af að stríða Agli, sem á það alveg skilið. Hinsvegar er bókin sem Hrafn frændi hans tók saman um hann nýlega alveg hundleiðinleg. Gafst upp á henni um daginn og nennti ómögulega að lesa hana alla.

Kjarninn bregst ekki. Fjölbreyttur og vel skrifaður. Þetta er eitthvað fyrir mig. Maður á víst von á einhverju svona á hverjum fimmtudegi í vetur. Ég hlakka til. Ég hljóp nú bara yfir efnið í nýjasta eintakinu svona í fyrstu atrennu. Á eftir að lesa þetta næstum allt miklu betur. Myndirnar og skýringarmyndirnar bæta heilmiklu við og auglýsingarnar er fljótlegt að leiða hjá sér. Sé framá að næstu fimmtudagar fara einkum í það að lesa Kjarnann og svo að ná í ávexti og þessháttar hjá Sullenberger. Það er ágæt hugmynd hjá honum að hafa afslátt á vissum vörum á vissum dögum. Satt að segja fer ég flesta fimmtudaga í Kost.

Hvernig er það annars, eru engar undirskriftasafnanir í gangi núna? Mér finnst svo gaman að skrifa undir og svo langt síðan að ég gerði það síðast að mér finnst vanta eitthvað þannig. Minnir að ég hafi síðast skrifað undir áskorun um að hætta að hygla LÍÚ sérstaklega. Það er svo spennandi að fylgjast með því hvernig gengur og svo eru túlkanir manna eftirá oft bráðskemmtilegar. Eiginlega ættu undirskriftasafnanir alltaf að vera í gangi. Ef þær væru nógu margar ættu allir að geta fundið undirskriftasöfnun við sitt hæfi.

 

IMG 3816Blóm.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Safnana ei sakna kann
þó að Sæma græti
Ég þjáist ekki eins og hann
af undirskriftablæti

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 29.8.2013 kl. 21:09

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Fín vísa. Þó hefði ég raðað orðunum öðruvísi í annarri ljóðlínu.

Sæmundur Bjarnason, 29.8.2013 kl. 21:26

3 identicon

Safnana ei sakna kann

Sæma þó að græti,

þjáist ekki eins og hann

af undirskriftablæti.

Haukur Kristinsson 30.8.2013 kl. 14:07

4 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Góður pistill Sæmundur, bara fjári góður!

Axel Jóhann Hallgrímsson, 30.8.2013 kl. 20:56

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Axel.

Sæmundur Bjarnason, 31.8.2013 kl. 22:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband