2033 - Anna ber af öllum

Anna ber af öllum

og ætti að búa í höllum.
hjá henni vil ég vera
og vefja hana örmum bera
væta hana tittlingstári
tvöhundruð sinnum á ári.

Sennilega hef ég birt þessa vísu áður. Jú það er alveg rétt í nóvember árið 2008 hef ég verið með vísnablogg og ef einhver hefur áhuga er hægt að nálgast það hér. http://saemi7.blog.is/blog/saemi7/entry/706770/ Man að þegar ég heyrði þessa vísu fyrst fór ég undireins að reikna vikumeðaltalið (sem er í kringum 4) svo ég ályktaði að vísuhöfundur áliti það hæfilegan samfarafjölda. Annars er þetta ágæt vísa. Ég er dálítið slæmur með það að finnast allar vísur vera klámvísur ef mögulegt er að skilja þær þannig. Eitt sinn var birt í Velvakanda Morgunblaðsins eftirfarandi vísa og sá sem var Velvakandi í það skiptið var ekki betur vakandi en svo að hann áleit þetta vera skákvísu.

Sátu tvö að tafli þar
tafls óvön í sóknum.
Aftur á bak og áfram var
einum leikið hróknum.

Einhversstaðar las ég að langflestar vel gerðar íslenskar vísur væru annaðhvort klámvísur eða hestavísur. Þetta kann vel að vera rétt og minnir mig á vísuna alkunnu sem er svona:

Það er sem ég þrái mest
og þyrfti að fá mér bráðum.
Góða konu og góðan hest
og geta riðið báðum.

Annars eru flestar vísur sem ortar eru núorðið andskotans bull. Þessvegna er ég að mestu leyti búinn að missa áhugann á þeim. Sjálfur er ég ekki barnanna bestur að þessu leyti. Set stundum saman vísur sem eru svosem engar vísur bara rím, stuðlar, höfuðstafir, kveður, hrynjandi og vísuorð sem raðað er saman eftir vissum reglum. Verst er að sumir yrkja eingöngu þannig. Ef hrynjandin, sem er mikilvægust, er í lagi og ekkert annað, er vel hægt að kalla þetta að stafla og getur verið alveg bráðfyndið.

Þetta blogg er með öllu pólitíkurlaust og ekki vitund verra fyrir það.

Búið er víst að reka Óskar Helga Helgason af Moggablogginu. Ég veit afar lítið um þetta mál en skilst að DV hafi einnhvað skrifað um það. Hann á að hafa skorað á fólk að berja alþingismenn og ég er ekkert hræddur um sjálfan mig. Minnist þess ekki að hafa skorað á lesendur að berja einn eða neinn. Auðvitað er ég samt oft gagnrýninn, en held að ég passi mig sæmilega. Annars er ég ekkert á móti því að Morgunblaðsmenn setji einhverjar reglur um hvað segja megi á þeirra svæði á netinu. Óskar hefur viðurkennt að hafa skorað á fólk að berja alþingismenn og þessvegna sýnist mér hann réttrækur héðan. Allt þarf að hafa einhver takmörk og vel er hægt að skiptast á skoðunum án þess að hóta barsmíðum.

Vonandi heldur hann þó enn réttinum til þess að koma með athugasemdir hér. Þær eru oft hressilegar mjög.

Ein mesta breytingin sem verður þegar maður hættir með öllu að vinna og gerist gamall er hvað maður er fáum mikilvægur. Fram að þeim tíma er maður sífellt að reyna að sannfæra sjálfan sig og aðra um mikilvægi sitt. Í gegnum starf sitt reyna margir að telja sér trú um að þeir séu óviðkomandi fólki ákaflega mikilvægir og tekst það oft. Eftir að hætt er að vinna er það ekki hægt og þessvegna gerast menn oft hundgamlir á stuttum tíma. Afkomendurnir hafa sitt eigið líf til að lifa. Þó þeir gömlu séu hættir allri vinnu og flækist aðallega fyrir geta þeir þó haldið áfram að vera þeim mikilvægir.

Hægt er að halda áfram á þessari braut endalaust en ég nenni því ekki. Þetta blogg er orðið nógu langt svo ég er að hugsa um að henda því upp. Best  að gá að mynd sem gæti fylgt því.

IMG 3629

Kaffitími.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband