15.8.2013 | 08:39
2028 - Já, það er þetta með hann Jónas
Með sífelldum hrakspám um menn og málefni getur Jónas Kristjánsson með sanni sagt þegar réttur tími er kominn: I told you so!! En sífelldir heimsendaspádómar verða leiðgjarnir til lengdar. Ég ber samt virðingu fyrir þekkingu Jónasar á innviðum íslenskt stjórnmálalífs, en finnst hann yfirleitt of neikvæður. Kannski er ég það líka. Veit það auðvitað ekki nema einhver verði til þess að benda mér á það. Nú hefur mér loksins tekist að fækka bloggfærslum mínum verulega og er það gott. Úr ótæmandi þekkingarbrunni get ég því miður ekki ausið og satt að segja finnst mér ég yfirleitt vita fremur lítið. Á margan hátt er þar af sem áður var þegar mér fannst ég vita allt. Veit ekki hvernig á þessu stendur.
Mér finnst fullmikið í lagt að krefjast afsagnar Vigdísar Hauksdóttur vegna viðtala í fjölmiðlum. Undirskriftasöfnun á netinu er komin útí hálfgerðar öfgar. Á ekki von á að ég skrifi undir áskorunina á Vigdísi. Ekki er ég þó stuðningsmaður hennar. Nam samt á Bifröst eins og hún og kaus meira að segja Framsóknarflokkinn einu sinni. Ekki oftar þó og finnst það alveg nóg. Hins vegar hlýtur Sjálfstæðisflokkurinn að bera talsverða ábyrgð á verkum hennar ekki síður en Framsóknarflokkurinn. Það er hugsanlegt að hún eigi í einhverjum vandræðum með að gera sína stefnu í ýmsum málum að stefnu ríkisstjórnarinnar. Völd til að koma sínum stefnumálum áfram hefur hún samt tvímælalaust og vissulega er það aðallega Framsóknarflokknum að kenna. Hvort stefnumál hennar eru lík stefnumálum Sigumundar Davíðs er auðvitað ekki mitt að dæma um.
Í einu eru stjórnmálamenn ótvíræðir sérfræðingar. Það er í að koma afleiðingum gerða sinna á aðra. Einnig eru þeir góðir í því að finna hugsanlegar skýringar á öllu því sem miður fer og halda sig yfirleitt við þá skýringuna sem sýnir þá í sem bestu ljósi. Síðan þarf yfirleitt sérfræðinga (stjórnmálamennina sjálfa) til að fara fara yfir málin og tekur það gjarnan mörg ár og gleymist jafnvel alveg. Almenningur er orðinn vanur þessu og gerir afar litlar kröfur til þeirra nema þá helst að þeir hafi sæmilegan talanda og séu fljótir að snúa útúr því sem þeir eru spurðir um. Svona er þetta, hefur alltaf verið og verður áfram meðan almenningur sættir sig við þetta ömurlega ástand. Því skyldum við ekki eiga kröfu á að fá sæmilega heiðarlega og sannorða stjórnmálamenn? Sjálf erum við ekkert verri en aðrir.
Já, það eru þrír símar hér á heimilinu. Og veitir ekki af. Þó erum við bara tvö. Í gamla daga vorum við sex eða átta í heimili (með pabba og mömmu) og samt var ekki álitin ástæða til að hafa síma á heimilinu m.a. vegna þess að við bjuggum ekki langt frá símstöðinni. Svona eru nú tímarnir breyttir. Enginn bíll var á heimilinu heldur, en á útvarpið var talsvert hlustað og svo dagblöð og bækur lesin upp til agna. Tímarit var vissast að fela vandlega svo þau kláruðust ekki áður en maður hafði tíma til að lesa þau.
Höfundarréttarmál eru komin í dálitla sjálfheldu einu sinni enn. Að vinsæll rithöfundur komist upp með að kalla heilan stjórnmálaflokk bófaflokk og væntanlega þá alla sem kusu hann ótínda bófa og þjófa er gráthlægilegt og sýnir vel í hvers kyns ógöngum mál þetta allt saman er. Held að Guðmundur Andri hafi reynt að draga úr ummælum sínum en það er ekki aðalatriðið. Mér finnst það blasta við að taka þurfi öll þessi mál til endurskoðunar og ástæðulaust sé með öllu að láta útgáfufyrirtæki og flokksgæðinga sem stjórna þeim ráða öllu í þessu sambandi. Að höfundarréttur sé virkur í 70 ár eftir lát höfundar er beinlínis fáránlegt. Sá eini aðili sem mér finnst tala af sæmilegri skynsemi um þessi mál er Salvör Kristjana systir Hannesar Hólmsteins og mér kemur ekkert við þó hún hafi hingað til stutt Framsóknarflokkinn.
Athugasemdir
Hvorki finnst mér þú né Jónas of neikvæðir, fjarri því og oftar en ekki er ég sammála báðum. Hinsvegar er ég eindregið á því að þingfólk eins og Vigdís, eigi ekki og megi ekki komast upp með hótanir, eins og hún ótvírætt hefur komið fram með, t.d. í frægu viðtali á Bylgjunni í gærmorgun sem ég hlustaði á. Þegar fólk er í þessari aðstöðu og bendir á það sjálft eins og hún gerði í nefndu viðtali, þá verður að skoða orð og afstöðu í því ljósi. Í orðum hennar var ódulbúin hótun, það gat ekki misskilist. Sem formaður fjárlaganefndar og meðlimur í hagræðingarnefnd ríkisstjórnarinnar getur hún ekki og má ekki leyfa sér svona lagað.
Ellismellur 15.8.2013 kl. 08:51
Því meira sem maður veit, því betur veit maður hve lítið maður veit :)
Brjánn Guðjónsson, 15.8.2013 kl. 08:53
Ég er sammála þér Ellismellur með að hótum var það. Yfir það verður ekkert breitt með málalengingum. Samt finnst mér það of langt gengið og undirskriftasafnanir misnotaðar með því að efna strax til slíks. Undirskriftasöfnunin varðandi LÍÚ varð bara til að ljá ÓRG vopn í baráttunni við almenningsálitið.
Sæmundur Bjarnason, 15.8.2013 kl. 12:19
Já, Brjánn. Þetta eru svosem bæði gömul sannindi og ný.
Sæmundur Bjarnason, 15.8.2013 kl. 12:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.