30.7.2013 | 22:29
2020 - Lanað og larpað
Það ber ekki á öðru. Strax er fólk byrjað að lesa. Best að ég byrji líka strax á að skrifa. Verst ef mér dettur ekkert í hug til að skrifa um. Var að enda við að skoða myndir hjá Atla úr Grikklandsferðinni. Hann hefur vandað sig talsvert við þetta og það er allt annað að skoða þetta en sumar myndaseríur þar sem öllu er hent á fésbókina, ónýtu sem nýtu. Hefði sjálfur getað sett þónokkuð margar myndir frá Kanaríeyjum á sínum tíma en þær eru orðnar fullgamlar núna. Sá líka í gærkvöldi nokkrar myndir af Tinnu og Dre hjá Guðrúnu Völu. Fésbókin er að verða myndasýningarstaður nr. 1 og mér líst vel á það.
Ég er eiginlega alveg búinn að taka sagnirnar að lana og larpa í sátt. Ætla samt að gera skilning á þeim að umtalsefni hér því ef ég misskil þær eitthvað er hugsanlegt að fleiri geri það. Báðar eru þær dregnar af amerískri skammstöfun. Lana er dregið af Local Area Nework. Og larpa af Live action role playing. Þannig skil ég málið a.m.k.
Að lana er þá að fást við eða starfa á litlu tölvuneti, sem takmarkað er við eitthvert ákveðið svæði. Að larpa er öllu flóknara. Live action role playing má segja að sé hlutverkaleikur af hvaða tagi sem er. Live Action skil ég einfaldlega þannig að ekki sé um sýndarveruleika að ræða. Kann ekki að skýra það betur.
Rætt var um þetta á Orðhenglinum um daginn og þá sló ég um mig með því að kasta því fram að laser væri amerísk skammstöfun. Ekki er víst að allir þekki þá styttingu en mér skildist einhverntíma að það stæði fyrir: Light Amplification by Simulated Emission of Radiation.
Pólitíkin er öll í deyfð og doða þessa dagana. Eflaust rætist úr þessu þegar þingið kemur saman en eitthvað var því frestað ef ég man rétt. Varla nokkur maður nennir að æsa sig útaf stjórnmálaástandinu. Þó væri margt hægt að segja um það. Þegi samt sem fastast eins og hinir. Það er öruggast. Næsta vor verða bæjastjórnarkosningar og þá skal ég aldeilis kjósa.
Limrur eru móðins núna. Menn rífast ofan í rassgat yfir þeim. Best að passa sig. Ég er líka mest í ferskeytlunum. Fyrirsögn í einhverju blaði var á þessa leið: Hagyrðingar í hár saman. Hárlausir voru þeir semsagt ekki, en hárlitlir.
Af hagyrðingum hárið fauk,
hentu sumir gaman.
Einhver Sif þá limru lauk
sem lamdi skáldum saman.
Þetta er endurbætt vísa sem ég setti einhversstaðar í athugasemd og varð þannig virkur í því sem ég kæri mig ekkert um. Bloggari get ég svosem verið en ekki meira.
Helvítis hettumávurinn, sagði lóðrétta svínið við mömmu sína sem lá í hlandforinni. Nú hefur hann skitið aftur í klósettið, bölvaður ræfillinn.
Næstum allir sem fylgdust á sínum tíma með Viet-Nam stríðinu vita að Bandaríkin biðu þar auðmýkjandi ósigur. Í framtíðinni munu Bandaríkjaforsetar samt halda því fram að þar hafi unnist mikilvægur sigur. Obama núverandi forseti var um daginn að æfa sig aðeins þegar hann hélt því fram að Bandaríkjamenn hefðu sigrað í Kóreustríðinu. Í raun er því stríði alls ekki lokið og það er ekki Bandaríkjamönnum að þakka að Suður-Kórea hefur plumað sig mun betur en Norður-Kórea síðan bardögum þar var hætt.
Bandaríkjastjórn hefur að undanförnu sagt mannréttindum og upplýsingaskyldu um allan heim stríð á hendur. Stóra-Bróður þjóðfélagið þar er að verða eins einangrað og Sovétsjórnin var fyrir hálfri öld eða svo. Merkilegt er þó hve Bandaríkjamenn sjálfir eru trúaðir á þessa vonlausu ríkisstjórn sína. Bandaríkin eru eins og allir vita voldugasta herveldi heimsins nú um stundir og bandaríska hernum eru flestir vegir færir og nær allar ríkisstjórnir heimsins eru logandi hræddar við bandarísku ríkisstjórnina.
Ótrúlega er frekja þeirra KSÍ-manna. Ef reglur segja að knattspyrnumenn geti valið um hvaða landsliði þeir leika með ef þeir hafa margfaldan ríkisborgararétt ber einfaldlega að fara eftir því. Veit ekki til þess að neinar undantekningar séu frá þeirri reglu.
Já, við hentum batteríum í gamla daga. Höfðum ekki úr að velja þessum nýtísku endurhlaðanlegu, en við settum mjólkina í mjólkurbrúsa. Vorum ekki algerlega kolefnisjöfnuð, en notuðum taubleyjur. Það voru ekki rúllustigar í hverri stórverslun þá og við höfðum ekki tíma til þess að verða feit. Bifreiðar voru líka fremur sjaldgæfar þá. Heimshlýnunin var óþekkt, en þegar okkur var kalt fórum við í aukaúlpur og settum á okkur belgvettlinga með aukaþumli. O.s.frv. o.s.frv.
Athugasemdir
LARP er útgáfa af hlutverkaleikjum sem voru spilaðir við borð með teninga, blöð og blýanta. Það mætti segja "leikinn hlutverkaleikur" eða eitthvað álíka ef menn vilja þýða hugtakið en það mun varla ná útbreiðslu meðal þeirra sem stunda þetta. Það að tala um að larpa er held ég allavega yfir tuttugu ára gamalt.
Óli Gneisti 30.7.2013 kl. 22:57
Að "lana" er að spila tölvuleiki saman á sama staðarneti, oft í sama eða nærliggjandi rýmum. Í gamla daga mættum við vinnufélagarnir í fundarherbergin með tölvurnar að kvöldi til og lönuðum þar í nokkra tíma um helgar.
Krakkarnir mæta heim til hvers annars eða á skipulagða viðburði með tölvurnar sínar og lana þar.
Risastór lan-mót eru svo haldin þar sem keppt er í ýmsum, eitt það allra stærsta er svo DreamHack http://en.wikipedia.org/wiki/DreamHack
Jóhannes Birgir Jensson, 31.7.2013 kl. 04:04
Það versta við bæði lanið og larpið er að ekki eru allir sammála um hvað það þýðir. Jafnvel eru til fleiri skilningsútgáfur en þetta.
Sæmundur Bjarnason, 31.7.2013 kl. 07:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.