24.7.2013 | 00:52
2014 - Kampavínsklúbbar og fish spa
Nú eru númeringarnar hjá mér komnar inn í framtíðina ef litið er á þær sem ártöl. Eins gott. Mitt helsta vandamál er nefnilega að ég á oft í vandræðum með að hemja bloggsýkina í mér. Venjulega er ég ekki fyrr búinn að setja eitthvað upp á bloggið mitt en ég byrja á því næsta. Svona er þetta bara og ekkert við því að gera. Nenni yfirleitt ekki einu sinni núorðið að þurrka út eða breyta röð á þessum hugleiðingum mínum, en það gerði ég oft áður fyrr.
Pólitískt séð er ég sennilega hægrisinnaðri en ég var oftast þegar ríkisstjórn Jóhönnu var við völd. Mér finnst ég þó vera mjög gagnrýninn á núverandi ríkisstjórn en auðvitað veit ég minnst um það sjálfur. Þeir sem þessar hugleiðingar mínar lesa vita það miklu betur. Stundum þegar ég er að skrifa (sem mér þykir best að gera á morgnana) lít ég lauslega á fréttirnar á mbl.is eða annarsstaðar og skoða það nýjasta á fésbókinni. Finnst þó sjaldan að það sem þar stendur sé nógu merkilegt til að skrifa um. Sennilega er ég bara svona skrýtinn.
Kampavínsklúbbar eru mjög í tísku um þessar mundir. Aldrei hef ég komið á þvílíkan stað. Man að þegar ég sá nafnið fyrst grunaði mig strax hvað byggi undir. Mér finnst liggja beint við að þegar borga þarf tugi eða hundruð þúsunda fyrir það eitt að fá að vera einn með kvenmanni í smástund séu allar líkur á að um misnotkun og vændi sé að ræða. Sé ætlunin að uppræta vændið (sem kannski er ekki hægt) finnst mér liggja beint við að rannsaka málið frekar. Málshöfðunarhótanir eru bara tilraunir til þöggunar.
Það er mildilegt að álíta baráttu gegn moskum vera á misskilningi byggða. Sú er samt oftast raunin. Það er líka misskilningur að hættulegt sé að fá innflytjendur til landsins. Það er auðvelt að segja að þeir megi ekki verða of margir. Líklega er það samt rétt, en hver á að ákveða það? Og hvað er of mikið? Á sínum tíma fannst okkur sárt að missa marga Íslendinga vestur um haf. Þó nú sé miklu auðveldara að komast á milli landa er í flestum tilfellum hægt að gera ráð fyrir að flutningshvatirnar séu líkar.
Vandræðin með suma úrvalsbloggara (ég nefni bara Jens Guð og Vilhjálm Örn) er að það er oft erfitt að sjá hvort þeim er alvara eða ekki með því sem þeir skrifa. Aftur á móti eru sumir (t.d. Egill Helga og Ómar Ragnarsson) alltaf alvarlegir. Aðrir (t.d Jónas) eru yfirleitt svo stórorðir að maður má vara sig á þeim. Já, það er vandlifað í bloggheimum. Þar kann ég samt betur við mig en víðast annarsstaðar. Eitt eiga þessir bloggarar allir sameiginlegt og það er að álíta poppsöguna merkilegri en aðrar sögur. Ég er aftur á móti alveg úti að aka í slíkum málum og reyndar í tónlistarmálum öllum. Fyrir mér er músík bara hávaði og í mesta lagi taktur.
Þegar ég var á Kanaríeyjum fyrir nokkrum árum var allt fullt af sjoppum þar sem fólk gat sest niður og látið litla fiska kroppa í tærnar á sér. Sagt er að þetta sé meinhollt þó fremur ógeðslegt sé og nú er þessi siður víst kominn hingað til lands. Sumum finnst áreiðanlega gaman að prófa þetta og auðvitað er ekkert við því að segja. Túrhestunum á Tenerife fannst greinilega bráðsniðugt að eyða peningunum í þetta. Veit þó ekki hvað þetta kostaði þar eða hvað það kostar hér. En myndrænt er það. Minnir að ég hafi einhverjar myndir tekið af þessu, en er ekki alveg viss.
Fjölmiðlamál eru komin í umræðuna aftur. RUV er eins og vant er á milli tannanna á fólki. Einkum eru það auglýsingarnar þar, sem fólk rekur hornin í. Samkeppnin við langvinsælasta fjölmiðilinn er einkaaðilum eflaust erfið. Alls ekki er sama hvernig RUV hagar sér þar, en ástæðulaust virðist mér að vantreysta Páli Magnússyni til að stýra stofnuninni í gegnum þann ólgusjó sem hún þarf eflaust að sigla næstu misserin. Einkaaðilunum (Jóni Ásgeiri og Co.) sem stýra 365 (Stöð 2, Fréttablaðinu og Bylgjunni og kannski fleirum) er trúlega mun hættara. Ekki er víst að Dabbi geti kastað út bjarghring núna.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.