23.7.2013 | 06:28
2013 - Niðurskurður í stað happdrættisvinnings
Einhverjir flýta sér að lesa flest sem ég skrifa. Gott er það. Í morgun snemma (mánudagsmorgun) setti ég innlegg á bloggið mitt fyrir allar aldir (8) og ekki liðu nema nokkrar mínútur þar til gestum hafði fjölgað úr 3 í 15 þann daginn, eftir því sem talnaspekingstölva Moggabloggsins sagði mér. Auðvitað getur þetta svosem verið haugalygi, en ég trúi þessu eins og nýju neti. Kannski eru það lesendurnir sem valda því að ég er svona iðinn við kolann (þ.e.a.s. bloggið). Ekki veit ég það. Held bara áfram að ímynda mér að ég hafi eitthvað merkilegt að segja og skrifa sem allra mest.
Sjálfum finnst mér þessar hugleiðingar mínar heldur lítils virði. Þó ekki rétt á meðan ég skrifa þær. Þá finnst mér þær merkilegri en flest annað.
Ég hélt endilega að það væru fjórir í niðurskurðarnefndinni frægu og minnir að ég hafi talið þá þingmenn upp í einhverju bloggi nýlega. Nú sé ég að sennilega (kannski) er þetta vitleysa hjá mér. Fáir minnast á aðra en Guðlaug Þór, Ásmund Einar og Vigdísi Hauks. Mig minnir aftur á móti endilega að Unnur Brá væri í nefndinni líka. Flestir, eða a.m.k. þeir vinstrisinnar sem ég les einkum, keppast við að úthúða þessum nefndarmönnum sem mest. Kannski er það maklegt. Mér finnst samt vænlegra að setja traust mitt á að þessi nefnd skili einhverju raunhæfu, en að trúa á loforðin hans Sigmundar.
Hann ( Sigmundur eða ræðusmiðir hans ) kann þó að koma sæmilega fyrir sig orði. Vonandi að athafnir fylgi orðunum. Þannig var það ekki hjá Jóhönnu. Hún kunni ekki að koma fyrir sig orði og um athafnirnar má deila. Auðvitað var hún í erfiðu hlutverki og Steingrímur var sífellt að anda ofan í hálsmálið hjá henni. Samt er ég ekki viss um að sagan dæmi hana mildilega. Sigmundur á hins vegar alveg eftir að sanna sig.
Ég er víst bara bloggari. En er það nokkuð bara? Já, það er eiginlega búið að koma óorði á nafnið sjálft. Þó eru Moggabloggari og Virkuríathugasemdum líklega verri. (Stebbi Páls er t.d. alveg hættur að kalla sig bloggara. Nú er hann orðinn súpersagnfræðingur eða eitthvað þaðan af merkilegra.) Fyrir gráglettni örlaganna er ég víst það fyrra en reyni að gera sem minnst af hinu. Alvörurithöfundur er ég alls ekki og ekki hef ég komist svo langt að gefa út bók. Þó ætti það að vera fremur auðvelt núna á þessum síðustu (og verstu) tímum. Nenni bara ómögulega að ganga í gegnum allt það vesen sem mér finnst að bókaútgáfu hljóti að fylgja, ef eitthvert vit á að vera í henni, og Örlygur Sigurðsson lýsti svo fjálglega fyrir margt löngu. Flestir eru líklega búnir að gleyma honum en hann var bæði ritsnillingur og teiknari af guðs náð og Steingrímur (litli bróðir hans) reyndi allt hvað af tók að komast þangað með tærnar sem hann hafði haft hælana.
Að ýmsu leyti eru Bandaríkin að taka við af Sovétríkunum hvað fótumtroðslu mannréttinda og tjáningarfrelsis snertir. Tilraunir Bandaríkjastjórnar til að ná Snowden uppljóstrara væru hlægilegar ef þær væru ekki svona hættulegar. Þegar svo mikil völd hafa safnast á eina hendi eins og reyndin er í USA má búast við mannréttindabrotum eins og í Guantanamo og eltingaleikurinn við Snowden sýnir að tjáningarfrelsinu er líka hætt. Evrópusambandið er að mörgu leyti sá suðupottur sem sameinar sósíalismann úr austri og kapítalismann úr vestri.
Ef eitthvað er að marka hrakspár þær allar sem núverandi ríkisstjórn fær, þá er Ísland hvergi nærri búið að ná sér eftir kreppu þá sem Hrunið olli. Það er jú búið að fela skuldirnar að hluta og atvinnuleysi er ekki mikið en vandamálin sem snúa að afkomu almennings eru óleyst ennþá og margt bendir til að reyna eigi að leysa þau með því að stefna í eina kollsteypuna enn. Ekki dugir þó að láta hugfallast og með bjartsýni er hægt að komast langt. Álit mitt á forsætisráðherranum hefur aukist að undanförnu, þó ég geti ekki varist þeirri hugsun að hann sé með tóma hunda á hendinni.
Athugasemdir
Fyrir alla muni hættu ekki að blogga og haltu áfram þínu hlutverki sem sá sem skoðar og gagnrýnir utan frá.
Við erum áreiðanlega sammála um hina siðferðilegu hættu frá USA, sem mér sýnist að hafi fremur aukist en minnkað í tíð núverandi forseta. Hann er ekki síður leiksoppur þeirra sem raunverulega ráða í því volduga landi en forveri hans. Sömuleiðis erum við trúlega líka sammála um Evrópusambandið, sem þrátt fyrir allt er skipulagt og stjórnað samkvæmt sósíaldemokratískum gildum og hugsjónum, sem hafa hvað sem hver segir reynst hollastar fyrir lýðræðið og varnir almennings gegn ofstjórn og siðblindum ráðamönnum. Hinsvegar held ég við séum ekki sammála um Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég er eindregið þeirrar skoðunar, að hún sé einn merkast ef ekki allra merkasti stjórnmálaleiðtogi, sem þessi bófaflokkur, sem er að myndast við að kalla sig þjóð, hefur eignast.
Ellismellur 23.7.2013 kl. 07:23
Já, Ellismellur. Kannski erum við sammála um margt. E.t.v. þó ekki um Jóhönnu Sigurðardóttir. A.m.k. ekki núna. Hef tekið eftir því að skoðanir mínar að þessu leyti breytast. Hugsanlega eftir því sem maður les og veltir fyrir sér. Held að alls ekki sé nóg að vilja vel. Líka þarf að beita þeim aðferðum sem mestu skila. Flokkapólitíkin ruglar marga.
Sæmundur Bjarnason, 23.7.2013 kl. 10:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.