1995 - Bannað að pissa á Jónas

Ekkifrétt dagsins er greinilega sú að starfsfólk Húsdýragarðsins éti skjólstæðinga sína. Dýrin fá víst ekkert tækifæri til að hefna sín. Annars er ég alltaf að fá minna og minna álit á DV. Ætli það sé Sigmundi Davíð að kenna?

Jónas Kristjánsson er líka að lækka svolítið í áliti hjá mér. Hann segir að það sé bannað að pissa á Vegamótum á Snæfellsnesi. Einu sinni var ég útibússtjóri þar. Kaupfélag Borgfirðinga átti staðinn þá. Úlfar Jacobsen var að myndast við að hefja einhverjar vikulegar ævintýraferðir með túrhesta um þetta leyti og lét stoppa rétt við Vegamót og gefið var á garðann þar. (Allt hefur sennilega verið innifalið) Túrhestarnir komu síðan trítlandi á klósettið til að skola diskana og þessháttar en keyptu ekki neitt. Ég var ekki hrifinn af þessu og ræddi við fararstjórann og mig minnir að hætt hafi verið að stoppa við Vegamót.

Einhverntíma á Vegamótaárum mínum hækkaði líka verð á sykri uppúr öllu valdi. Varð hann um sinn hlutfallslega miklum mun dýrari en nú er. Þá tókum við á Vegamótum eftir því að stundum eftir komu túrhesta voru öll sykurkör tóm. Eftir nokkrar rannsóknir þóttumst við finna út að það væri einkum eftir heimsóknir þýskra hópa sem slíkt skeði. Þetta er ekki sagt Þjóðverjum til hnjóðs, heldur sýnir þetta sparsemi þeirra betur en margt annað.

Villi í Köben þykist núna eiga heima í Albertslund. Samkvæmt mínum bókum er Albertslund í Kaupmannahöfn. Sjálfsagt er samt hægt að deila um það. 15 kílómetrar eða svo munu vera þangað frá Lækjartorgi þeirra í Kaupmannahöfn og eflaust er það sjálfstætt bæjarfélag.

Þetta verður stutt blogg, en kannski ekkert ómerkilegra fyrir það. Ég er alltaf að reyna að komast í bloggfrí, en á erfitt með að hemja mig.

IMG 3362Eggjaskurn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kannast við sögur af ferðalöngum, sér í lagi Húnum, sem hafa viðlíka sjálfsbjargarviðleitni í frammi. Man eftir því að mér var sagt af starfsfólki í gamla Staðarskála, að þeir hefðu ekki bara tæmt sykurkörin, heldur tekið teskeiðarnar og oft á tíðum bollana líka með sér. Það hefði verið (og er sjálfsagt enn) algengt vegna þeirrar venju hér að menn kaupa bara einn bolla og fá svo fría áfyllingu, að einn úr hópnum keypti sér kaffibolla og síðan væri sótt ábót og ábót og ábót........! Nú er víðast kominn upp sá siður að maður fær bara einn bolla í "sjoppum" og hann er afgreiddur í pappamáli, svipað og á Starbucks. En mig undrar ekki þótt "sjoppu" eigendur séu þreyttir á því þegar heilu rútufarmarnir koma inn bara til að nota wc og þvo sér og fara svo án þess að kaupa nokkurn skapaðan hlut. Mig undrar það líka, að ekki sé búið að setja þær reglur hér að ferðahópar séu skyldaðir til að hafa innlendan leiðsögumann. Sú regla er í gildi víða erlendis svo engum ferðalang ætti að koma það á óvart.

Ellismellur 27.6.2013 kl. 08:53

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, Ellismellur, svona er þetta. Hef oft heyrt um handklæðasafnara sem vilja helst engin handklæði nema þau séu merki einhverjum hótelum. Mér finnst eðlilegt að berjast á móti þessu.

Fólk á almennt ekki að leggjast í ferðalög nema hafa sæmilega efni á því. Sumum finnst samt svo gaman á ferðalögum að allt annað fer út um gluggann.

Sæmundur Bjarnason, 27.6.2013 kl. 10:03

3 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Snæfellsnesið er alræmt fyrir skort á salernisaðstöðu fyrir ferðamenn. Vegamót er eini staðurinn á stóru svæði þar sem hægt er að komast á klósett og staðarhaldarar þar hafa undantekningarlaust ekki amast við fólki sem staldrar þar við þótt ekki sé til annars en að pissa.- Mín reynsla er sú að oftar enn ekki notar hluti þeirra tækifærið og verslar eitthvað á staðnum.

Ferðamenn eru ekki upp til hópa þjófóttir eins og Ellismellur vill vera láta. Þetta eru gamlar ýkjusögur sem enginn fótur er fyrir. - Handklæaðaþjófnaðurinn af hótelum sem Sæmi talar um, er alþjóðlegt "vandamál" sem mörg hotel hafa brugðist við með að merkja ekki handklæðin sín. -

Langflestir hópar em ferðast um Ísland hafa íslenska leiðsögumenn.. Einhver hluti þeirra kann að vera af erlendu bergi brotinn en flestir hafa haft leiðsögn um Ísland að starfi í mörg ár, tala ágæta islensku og eru starfi sínu vel vaxnir.

Svanur Gísli Þorkelsson, 27.6.2013 kl. 11:06

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Svanur, að Snæfellsnesið sé alræmt fyrir skort á salernisaðstöðu kann að vera vegna þess að það er alls ekki við hringveginn. Starfsfólk í ferðaþjónustu kannast vel við að fólk er ákaflega misjafnt og gjarnan mjög leiðitamt. Oft þarf ekki nema einn gikk í hverja veiðistöð.

Sæmundur Bjarnason, 27.6.2013 kl. 12:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband