1994 - Pólitík, farsímar o.fl.

Mér finnst Villi í Köben vera eins og Jónas Kristjánsson fyrrum ritstjóri að því leyti að honum hættir til að taka alltof mikið uppí sig. Að vísu eru þeir á sitt hvorum kantinum í pólitík en nauðalíkir samt að þessu leyti. Báðum hættir til að fullyrða ýmislegt sem áreiðanlegt er að þeir gætu aldrei staðið við. Kannski er ég svona líka. Eins og þeir er ég slæmur með að nefna nöfn. Geri alltof mikið af því. Helst á maður að vera svo loðinn og óskýr að engin leið sé að hanka mann á neinu. Sumir eru þannig. Verst að það er bara svo fjandi leiðinlegt að blogga þannig.

Svo ég haldi mig við pólitíkina þá er það mikil ofætlun að halda að núverandi ríkisstjórn geti gert allt per samstundis sem fyrrverandi stjórn gat ekki á fjórum árum. Auðvitað lugu þeir til að komast að kjötkötlunum, en var bara ekki nauðsynlegt að yfirbjóða aumingjana sem ekkert gátu?

Það er of seint að iðrast eftir dauðann. Ekki er líklegt að núverandi stjórnarandstöðu takist að hrekja núverandi stjórn frá völdum nærri strax. Allt bendir þó til að það sé fremur keppikeflið en fara allt í einu að hugsa um þjóðarhag. Ekki gerir Simmi það. Úðar bara í sig góðum mat og fitnar í sífellu. Pönnsurnar eru víst búnar.

Eygló Harðardóttur finnst áreiðanlega leiðinlegt að geta ekki að fullu staðið við kosningaloforðin, en veruleikinn er bara svona. Henni er kannski ekkert vandara um en öðrum með að svíkja kosningaloforð. Átti það ekki að vera fyrsta verk þessarar ríkisstjórnar að afnema allar skerðingar hjá eldri borgurum og örykjum? Nú er það ekki hægt en samt er mikilvægt að sýna lit. Hún vill vel. Ég er sannfærður um það.

Síminn er greinilega mikilvægasta tæki unglinganna í dag. Mega ekki vera að því að tala við nokkurn mann, heldur hamast á farsímunum lon og don. Man ennþá hvað ég varð hissa við mín fyrstu kynni af handfrjálsum búnaði. Maður einn stóð við vörurekka í verslun og talaði hástöfum. Enginn var hjá honum og þegar ég nálgaðist hann var ég í vafa um hvort ég ætti að svara honum eða bara vorkenna honum geðveikina. Það var svo ekki fyrr en ég var kominn framhjá honum að það rann upp fyrir mér ljós. Gott ef ég sá ekki einhvern óskapnað í eyranu á honum og þráð þaðan. 

Nú hefur virkjanaæði gripið ráðamenn. Menn eins og Ómar Ragnarsson reyna þó að malda í móinn. Sumir virðast bara hafa áhuga á að nota þetta æði í pólitískum tilgangi. Það er slæmt því andstaða sem ekki er sprottin af neinu öðru en hatri á stjórnvöldum er lítils virði þegar til lengdar lætur og kastanna kemur. Nú er ég farinn að tala (eða skrifa) svo hátíðlega að til vandræða horfir. Allir þykjast vera náttúruvinir ef þeir eru spurðir. Ég er svona líka og það á ekkert frekar við um okkur Íslendinga en aðra. Samt er það svo að fyrr eða síðar munum við drukkna í eigin skít. (Þetta var nú ekki hátíðlegt hjá mér).

Rigningin æðir um allt og hlífir engu. Hvernig fara veðurfræðingar að því að þekkja úrkomuský frá öðrum meinlausari? Nei, mig langar annars ekkert að vita það. Það er ágætt að vita sem fæst en þykjast samt hafa vit á öllu. Er það ekki þannig sem besservisserar starfa? Ég er óstöðvandi í blogginu. Er samt að hugsa um að taka mér rigningarfrí núna og reyna að gera eitthvað að gagni.

IMG 3361Trjágrein.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Hver er þessi andskotans Villi í Köben, sem þú ert alltaf að auglýsa fyrir og hvað hefur hann nú sagt til að æsa þig svona mikið ?

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 26.6.2013 kl. 13:38

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Þú kannast við kauða, heyri ég. Ef þú kallar þetta mikinn æsing þá ættir þú að sjá mig í ham. (Nei, eg er ekki að meina hugræna athyglismeðferð.)

Sæmundur Bjarnason, 26.6.2013 kl. 14:16

3 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Ég hHef enga hugmynd. Sjálfur býr þessi Villi í Albertslund og hef gert á hartnær 14 ár. Hafði heldur ekki búist við því að mér yrði líkt við Jónas með allt á hornum sér. Taktu það svo rólega, ég vill ekki að þú farir að bíta frá þér.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 26.6.2013 kl. 14:23

4 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 26.6.2013 kl. 14:24

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Villi.

Mig minnir endilega að ég hafi einhverntíma sóst eftir bloggvináttu við Fornleif, en ekki verið ansað. Kannski getur þú lagt inn gott orð fyrir mig.

Sæmundur Bjarnason, 26.6.2013 kl. 14:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband