1966 - Enski boltinn

Hluti af mínu síðasta bloggi var rauður. Ekki veit ég af hverju það stafar. Það var þó skásti liturinn fyrir utan þann svarta.

Skelfing þurfa aðdáendur enska fótboltans að gráta mikið núna. Ekki er nóg með að traktorinn sé hættur að þjálfa, heldur er sjálfur Beckham (með stórum stöfum væntanlega) líka hættur að leika knattspyrnu. Er ekki bara best að leggja England niður?

Neikvæðar athugasemdir eru ekki vitund verri en jákvæðar. Mikilvægt er þó að skilja þær. Fékk tvær heldur neikvæðar athugasemdir við mitt síðasta blogg, en skildi þær ekki alveg nógu vel. Mér er alveg sama hvort bloggin mín eru lesin með neikvæðu eða jákvæðu hugarfari, bara ef þau eru lesin. Mjög hressandi að fá gagnrýni.

Það er alltaf hægt að velja sér atriði til að vera á móti og týna sér í smáa letrinu.

Einn af þeim kostum sem bloggið hefur (og fésbókin reyndar líka) er að maður getur þóst misskilja hlutina eða ekki sjá þá. Svo getur maður líka verið upptekinn við annað. Það ræður því enginn annar en þú hvað þér finnst merkilegast.

Kosningar eru alltaf á vitlausum tíma. Best væri að hafa þær aldrei. Fólk vill trúa því að hlutunum megi bjarga. En á margan hátt erum við að fara vitlaust að. Við erum happdrættisþjóðfélag. Viljum trúa Sigmundi Davíð. Hann hafði rétt fyrir sér um daginn og hlýtur að kaupa réttan  miða núna.

Undarlegt þetta líf. Er það eitthvað annað en sameigileg ákvörðun einhverra tiltekinna frumuhópa um að starfa saman að einhverju markmiði. Hvaða markmiði? Og hver kom þessu öllu af stað? Ekki frumurnar. Kannski það sem stjórnar frumunum. Genin eða hvað? Löngun þeirra til að lifa áfram og stjórna einhverjum frumumassa. Þessi gen eða hvað það er sem stjórnar frumunum hefur komist uppá lag með að skipta sér. Frumunum líka, en það er nú minna mál. Hvernig í ósköpunum datt þeim í hug að skipta sér? Vera ekki lengur háð þessu forgengilega drasli sem fruman er gerð úr. En er ekki nýja fruman gerð úr samskonar drasli? Nei, þetta er alltof flókið til að leysa í einni stuttri málsgrein. Best að hugsa um eitthvað annað. Eða hugsa bara allsekki neitt.

Ekki fékk ég neitt formlegt uppsagnarbréf þegar ég hætti að fá verkefni við þýðingar á Stöð 2. Að þessu kemur alltaf. Óöryggi fylgir verktakavinnunni. Þannig er það bara. Þessvegna er hún svona vinsæl hjá þeim sem vinnuna búa til. Eru það kannski hjól atvinnulífsins sem gera það? Annars eru fjölmiðlar síst merkilegri fyrirtæki en önnur. Samt er alltaf verið að kenna þeim um allt mögulegt. Hildur Kolbeins segir að þeir séu ekkert fjórða vald. Sennilega eru þeir alveg valdalausir. Lúta engum lögmálum nema þeim sem þeir setja sér sjálfir.

IMG 3157Háskólinn í Reykjavík.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband