1959 - Að máta menn

Já, þetta er blogg númer 1959. Þá um haustið fór ég víst í Samvinnuskólann. Man að inntökuprófið var haldið í Menntaskólanum við Lækjagötu og það er sennilega í eina skiptið sem ég hef komið í þann ágæta skóla. Ekki man ég hvaða einkunn ég fékk á inntökuprófinu en minnir að það hafi verið minna en helmingur sem komst inn.

Nú hamast menn við að mynda ríkisstjórn og kannski er búið að því. Á samt von á því að eitthvað þurfi að reikna. Dettur alltaf í hug Sölvi Helgason þegar rætt er um flókna útreikninga. Hann reiknaði nefnilega barn úr svertingjakonu suður í Afríku eftir að einhver annar reiknimeistari hafði reiknað barnið í hana.

Það er greinilegt að Sigmundur er með eitthvert kverkatak á Bjarna Benediktssyni. Sennilega missir hann starfið (sem formaður flokksins) ef honum tekst ekki að komast i ríkisstjórn með sæmilegum hætti. Annars er ekki vert að trufla þessar viðræður, þær leiða næstum örugglega til stjórnarmyndunar. Mesta yndi manna núna er áreiðalega að máta menn í ráðherrastóla.

Melahverfi og Grundarhverfi eru þeir tveir staðir á Suð-Vesturlandinu þar sem þéttbýli er að myndast. Aðrir þéttbýlisstaðir á svæðinu eru flestir eða allir gamalgrónir. Kannski verða þessir staðir orðnir hluti af einhverju stærra eftir nokkra áratugi. Man vel eftir þorpinu Silfurtúni sem var rétt við vegamótin uppað Vífilsstöðum. Nú er þetta víst hluti af Garðabæ. Í eina tíð var líka ekki malbikaðar götur að finna utan kvosarinnar (og auðvitað Laugaveginn) nema gríðarlega ósléttan vegarspotta, sem sagt er að hafi verið gerður í tilraunaskyni á stríðsárunum og er nokkurnvegin þar sem Bæjarhálsinn í Árbænum er núna. Höfðabakkabrúin var líka einu sinni brú yfir Elliðaárnar.

Skammt fyrir ofan Lögberg (hjá Lækjabotnum en ekki á Þingvöllum) var einu sinni að finna steypt mannvirki eitt allmikið sem sagt var að hefði verið byggt á stríðsárunum sem varðturn. Margir muna eflaust eftir þessu því ekki eru mjög mörg ár síðan það var brotið niður. Hefur sennilega verið orðið hættulegt. Sagt var ennfremur að hershöfðingi einn sem nýkominn var frá Indlandi hefði látið byggja turn þennan til að verja varðmenn fyrir árásum tígrisdýra. „Já, það þýðir ekkert að þræta um þetta við mig, ég þekki landslagið,“ á hann að hafa sagt.

Randaflugutíminn er hafinn. Hélt að hann byrjaði ekki fyrr en seinna. Færi eftir hlýindum. Finnst hafa verið kalt undanfarið. Ekki í dag þó. Já, ein af þessu stóru feitu randaflugum sem eiga ekki að geta flogið en gera það samt, var eitthvað að flækjast hérna inni áðan en hún endaði líf sitt í klósettinu.

IMG 3115Svefnherbergisgluggi.


mbl.is Ráðuneytaskipting ekki verið rædd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband