1942 - Vals tómatsósa

Jæja, þá er komið að fæðingarárinu mínu. Svona er ég nú búinn að skrifa mörg blogg um dagana (cirka). Kannski eru þau alltof mörg. Ætti ég kannski að spara mig svolítið? Það er eiginlega orðinn siður hjá mér að blogga á hverjum degi. Þeir sem þetta lesa geta bara sjálfum sér um kennt. Ég er samt hættur að líta á það sem einhverja kvöð að blogga alla daga og alltaf á sama tíma. Einu sinni gerði ég það nefnilega. 

Ég deili ekki þeim áhyggjum með mörgum öðrum að við höfum alið þá kynslóð sem nú er að taka við upp í of mikilli heimtufrekju. Hinsvegar er það hugsanlegt að yngsta kynslóðin (sú þriðja – eða næsta) sé of frek. Með öðrum orðum, ég held að Hrunið (með stórum staf) sé alls ekki það versta sem fyrir gat komið. Held að við getum átt eftir að lenda í enn verri hremmingum. Sú ógn gæti tengst veðurfari. Hugsanlega verður hún að því leyti lík Hruninu mikla að um heimskreppu verði að ræða en verst verði hún á norðurslóðum.

Frá þessu svartagallsrausi yfir í ánægjulegri hluti. Ef svo fer sem horfir er ekkert sérstakt sem mælir á móti því að sumarið í sumar verði mjög hlýtt og gott. Ég er allavega farinn að láta mig dreyma um vorið og sumarið. Það er að vísu satt að auðveldara er að klæða af sér kulda en hita, en mikið skelfing eru myrkrið og kuldinn leiðinleg fyrirbrigði. Einkum ef þau fara saman. Réttast væri að banna með öllu ísingu og snjókomu. Hringsnúninginn um sólina getum við víst ekki haft áhrif á.

Sá áðan út um gluggann flutningabíl sem aulýsti mest seldu tómatsósu í heimi. Ef ég hefði verið spurður að þessu einhverntíma fyrir þónokkru síðan hefði ég sagt að það væri áreiðanlega „Vals tómatsósa“. Þekkti ekki aðra á þeim tíma, en góð var hún.

Eitt sinn lagði ég það í vana minn að athugasemdast með vísum (ferskeytlum). Þær draga jafnan dám af tilefninu, sem ekki er jafnauðvelt að sveigja til og í bloggi. Þessvegna blogga ég.

Hugmyndin var að minnast ekki á kosningar í þessu bloggi og þarmeð gera það einstakt (a.m.k. meðal þeirra sem ég les) en nú er það víst ekki hægt lengur. Skefjalaus kosningaáróður er nú rekinn um allar þorpagrundir. Ég reyni að taka sem minnst mark á honum en það gengur illa.

Af einhverjum ástæðum hef ég ekki mikla trú á skoðanakönnunum sem Stöð 2 og Fréttablaðið framkvæma. Mesta trú hef ég á skoðanakönnunum frá Capacent Gallup og MMR virðist líka vera ágætt fyrirtæki. Mín tilfinning er að breytingar séu ekki miklar frá síðustu könnunum. Veit að ríkisstjórnarflokkarnir eru að tapa og Framsókn og litlu flokkarnir (a.m.k. sumir hverjir) að bæta við sig. Held ekki að Sjálfstæðisflokkurinn sé að rétta úr kútnum þó mörgum hafi líkað vel frammistaða Bjarna Benediktssonar um daginn. Held að von sé á Gallup-könnun á morgun eða a.m.k. fyrir helgi.

Dettur í hug  varðandi myndirnar sem ég birti með hverju bloggi (af vananum einum saman) hvort hægt er að sjá útúr þeim einhvern ákveðinn stíl sem þessvegna gæti harmónerað við bloggin mín. Stundum eru þær í góðu samræmi við það sem ég skrifa, en stundum allsekki finnst mér. Þegar ég fer út að labba leyfi ég myndavélinni stundum að koma með. Tek svo kannski 20 myndir eða svo og vel þær skástu úr til birtingar hér. Oftast eru þær semsagt nokkuð nýlegar og þar að auki úr nágrenninu, nema þegar ég fer eitthvað. En nú er ég farinn að skrifa um einskisverða hluti finnst áreiðanlega mörgum, svo ég er hættur því.

Anna í Holti var einhverntíma að blogga um hve vandræðalegt það gæti verið að vita ekki hvort sá sem maður væri að tala við hefði lesið bloggið manns. Þá var hún nýkomin úr einhverri flúðasiglingu minnir mig og búin að blogga um það. Ég er búinn að finna ráð við þessu. Maður á aldrei að muna neitt eftir því sem maður hefur bloggað. Best er að láta eins og þetta gerist allt ósjálfrátt. Með auknu bloggi finnst mér ég líka hafa minna að segja í mannfagnaði allskonar. 

IMG 2993Fuglahræða?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Haltu þessu bara áfram, þú ferð fram úr dauðdægri þínu bráðlega, og vel það. En geymdu þetta. Einhvern tíma vilja menn ólmir fá blogg á skjalasöfnin, því það er ekki alltaf ónýtt það sem hér er sagt.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 18.4.2013 kl. 11:48

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Það er nú ekki alveg komið að því. Sá alltaf eftir því að hafa ekki byrjað á einum aftur þegar ég var kominn uppí 999. Nú þarf ég sennilega að halda áfram upp í 9999 áður en ég get byrjað á einum aftur og það er svo ansi langt þangað.

Sæmundur Bjarnason, 18.4.2013 kl. 12:13

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Hugmynd gæti verið að lauma inn ævisögu þinni með ártalanúmerunum.

Emil Hannes Valgeirsson, 18.4.2013 kl. 21:56

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, Emil Hannes. það gæti alveg verið hugmynd. Tveir gallar eru samt á því. Annars vegar man ég fremur fáa hluti eftir ártölum (Ævisaga mín í stuttu máli er líka hér á blogginu - undir höfundur minnir mig) Hitt er að ýmislegt hef ég skrifað um ævi mína í öllum þessum bloggum. Sumt mætti þó alveg endurtaka og ég hef einmitt velt því mikið fyrir mér. Líklega eru þeir ekki margir sem hafa lesið öll bloggin mín.

Sæmundur Bjarnason, 19.4.2013 kl. 02:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband