1939 - Heimur

Allir sem eitthvað skrifa um pólitísk málefni (ég ekki endanskilinn) verða að sæta því á öfgatímm eins og nú eru (aðdragandi mikilvægra kosninga) að vera álitinn pólitíkus í dulargerfi. Tala nú ekki um ef menn eru á framboðslista. Þegar flokkarnir eru eins margir og þeir eru núna er ekkert merkilegt þó menn sem ættu ekki að vera á framboðslistum, slæðist þangað. Veit ekki hvernig valið er á þá. Hlýtur að vera misjafnt. Sjálfur er ég víst á einhverjum félagalista í Framsóknarfélagi Kópavogs (ekki framboðslista samt) eftir að ég studdi systurson minn í prófkjörsbaráttu þar um árið. Tölum ekki meira um það.

Sé á myndum að hirslur eins og apótekaraskápurinn hér á heimilinu eru afar vinsæl húsgögn. Það er engin furða því skúffurnar í honum er ótrúlega margar og hentugar.

Fólki í IKEA er sífellt að fjölga sýnist mér. Maturinn þar er líka alveg sæmilegur og þjónustan í lagi enda er þetta líklega einhver vinsælasti og mest sótti matsölustaður borgarinnar og ódýr eftir því.

Ef maður skrifar eitthvað á fésbókina hverfur það strax nema kannski hjá þeim fáu sem vilja fá tilkynningar um allt sem maður skrifar. Bloggið tryggir meiri athygli t.d. með því að linka í fréttir og greinar. Annars eru frétta- og greinatilvísanirnar eitt það besta við fésbókina. Lækingar-sóttin og auglýsingarnar þar virðast vera að minnka. Þó veit ég ekkert um það. Kannski er hún að versna.

Af hverju ákveða frumur að vinna saman í líkömum manna og dýra og sérhæfa sig svo mikið sem raun ber vitni? Með tímanum gengur svo þetta frumusamfélag úr sér og áframhaldandi líf genanna er aðeins tryggt með kynfrumunum. Varðandi verkaskiptinguna er ekki að sjá að frumurnar eigi neitt val, en einhverntíma hefur það kannski verið fyrir hendi.

Við mennirnir höfum einhverja stjórn á dauðum hlutum en næstum enga á lifandi frumum eða því sem stjórnar þeim. Við vitum ekki hvað það er sem gerist þegar efnisleg atóm verða að lifandi frumu. Jú frumurnar skipta sér, en vandamálin þar eru samt mörg og margvísleg.

Stuttar málsgreinar um margvíslegustu efni virðast eiga vel við mig, Sumar fullyrðingarnar þar eru eflaust dálítið vafasamar, en þeim er samt furðu lítið mótmælt þó ótrúlega víðlesar séu. Langt er samt frá að þarmeð telji ég þær eitthvað sennilegri. Sannleikurinn býr nefnilega í lesandanum. Hann getur ákveðið með sjálfum sér hvað er sannleikur og framhjá hverju má óhikað ganga. Það er óneitanlega svo komið í nútímasamfélagi að nauðsynlegt er að velja úr því stöðuga áreiti sem fréttir, andfréttir og hverskyns upplýsingar og skoðanir, sem dynja sífellt á okkur úr öllum áttum, valda.

Hef ekkert legið á því að það er Jónas Kristjánsson sem að mörgu leyti er minn mentor í þessu. Hann er samt (að því er mér finnst) meira en ég bundinn við fréttir (einkum pólitískar). Að öðru leyti er ég alls ekki að líkja okkur saman. En þetta með að hafa það sem skrifað er stutt og hnitmiðað hef ég reynt að tileinka mér.

Já, ég las grein Benedikts Jóhannessonar á Heimi.is http://www.heimur.is/heimur/pistlar/details1_pistlarsida//Enginn_venjulegur_ma%C3%B0ur_(BJ)_0_399374.news.aspx(þó löng væri) því sjálfur Hallgrímur Helgason benti á hana á fésbókinni. Mér þótti hún vel skrifuð og bera vott um mikil og grimmileg átök innan Sjálfstæðisflokksins. Kannski fylkingarnar séu þrjár en ekki bara tvær eins og ég hélt.

IMG 2989Kilroy (græni herinn) was here.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband