1898 - Árni Páll

Fyrir allmörgum áratugum síðan heyrði ég fyrst af merkilegri tillögu varðandi alþingiskosningar. Hún var sú að kjósendur fengju það kostaboð að geta (í stað fjórflokksins) fengið að kjósa auða stóla á alþingi. Sjálfkrafa væru þeir að móti öllu. Ekki man ég útfærsluna nákvæmlega, en hugmynd er þetta.

Einhvernveginn þarf að losna undan ofurvaldi þeirra afla sem ráða í flokkunum. Búið er að ganga þannig frá málum að smáflokkar eiga svotil enga möguleika til neins. Þeir sem óánægðir eru með fjórflokkinn sameinast aldrei. Þessvegna var óhætt að stöðva og eyðileggja kvótafrumvarpið (með aðstoð Steingríms) og nú er Árni Páll notaður til að eyðileggja tilraunina með nýja stjórnarskrá. Að mörgu leyti er þetta leiftur liðinna tíma. Er Árni Páll ekki bara að máta sig við Davíð og Halldór?

Ef annað bregst er alltaf hægt að etja saman landsbyggð og höfuðborgarsvæði. Það læknar víst flest mein og aldrei verður fullkominn jöfnuður þar frekar en annarsstaðar.

Vel er hugsanlegt að næstu dagar verði spennandi fyrir þá sem stjórnmálaáhuga hafa. Ríkisstjórnin gæti fallið og allt mögulegt gerst. Árni Páll er greinilega að taka mikla áhættu með leifturárás sinni á hina flokkana. Hugsanlega telur hann sig hafa engu að tapa og kannski er það rétt hjá honum.

Jónas segist miða við 140 slög. Ég geri þó heldur betur. Málsgreinarnar eru fleiri og stundum dálítill fita á þeim. Þeim mun styttri sem þær eru því betra.

RUV virðist hafa ákveðið að taka orðaleppinn „fasbók“ uppá sína arma. Sennilega er þetta of seint hjá þeim. Í munni unga fólksins heitir fyrirbrigði þetta „facebook“ (borið fram feisbúkk). Þeir sem endilega vilja þýða nafnið kalla það flestir „fésbók“. Sennilega fer líkt fyrir þessu orði og „alnetinu“ alræmda. Kannski er þýðingarsóttin þýðingarlaus.

Það er dýrt að draga andann og eftir nýjustu fréttum að dæma er líka dýrt að hætta því. Sagt er að það kosti margar milljónir að drepast. Vitanlega á ég við útfararkostnað o.þ.h. Verður maður ekki að hugsa um það líka? Og svo eru læknarnir svotil ekkert farnir að græða á mér ennþá.

Að hlusta á þriggja ára afastelpuna mína söngla fyrir munni sér illskiljanlegan texta sem hún býr til jafnóðum og er auðvitað tómt bull, færir mér heim sanninn um að íslenskan er ekki það viðkvæma og brothætta blóm sem margir vilja meina. Hún þolir alveg að henni sé misþyrmt og farið með hana eins og hverja aðra útlensku. Réttritun er bara handverk. Ef fólk talar skiljanlega íslensku eru því allir vegir færir.

IMG 2704Að senda steypu upp í loftið – 2.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband