1888 - Ármann (ekki á alþingi)

Þetta er víst blogg númer 1888 og það er ágætistala. Nenni samt ekki að gúgla hvað hafi gerst á því ári. Einu sinni fór ég með syni mínum og reyndi að telja útgefanda trú um að sniðugt væri að gefa út bók með merkisatburðum hvers dags á árinu, en slíku hafði ég lengi safnað. Þetta var löngu áður en gúglíð varð eins vinsælt og það er núna. (Ætli vinsælasti leitarvefurinn þá hafi ekki verið AltaVista.) Svo er víst orðið hræódýrt núna að gefa út bækur. Hugmyndin var svo notuð nokkru seinna enda hafði ég engan einkarétt á henni.

Það er ekki létt verk að skrifa langt mál um ekki neitt. Þessu leikur Ármann Jakobsson sér samt að (Hann er bróðir Kötu Gluggaskrauts – já, ég er allur í ættfræðinni enda kominn á þann aldur) Ármann tvíburi (mei pakk, ég er hættur) leikur sér semsagt að þessu. Ég var að enda við að lesa langa (frekar allavega) grein um mislynda strætisvagnabílstjóra eftir hann. Honum tókst meira að segja að lauma þeirri hugmynd að lesandanum að hann hefði ekki verið lengur að þessu en sem nam einni stuttri strætóferð.

Þetta gæti ég ekki. Hefði kannski getað lengt málsgreinina pínulítið með að segja að greinin væri á Smugunni og jafnvel linkað í hana en þá er líka upptalið. Mér finnst yfirleitt ekki taka því að skrifa nema eina eða tvær málsgreinar um sama efnið.

Hef ég bara svona lítið að segja? Já, sennilega er það málið. Ég er samt búinn að venja mig á að vera sískrifandi. Aðallega á morgnana. Kannski væri réttast að bregða sér í  einsog eina hringferð með strætó. Veðrið er samt ekki sérlega hagstætt fyrir slíkt útstáelsi. Fer sennilega bara frekar í bað. Það er oft inspírerandi.

Sammála Jónasi Kristjánssyni um að óheppilegt sé að menn eins og Jón Ásgeir Jóhannesson eigi öflugar fjölmiðlakeðjur. Er samt ekki hræddari við það en margt annað. Slíkar keðjur hafa engin sérstök áhrif á mig. DV-keðjan ekki heldur, hvað þá Mogga-keðjan. Svo held ég og vona að sé um sem flesta aðra. En Jónas trúir því að fólk sé fífl og að öflugar fjömiðlakeðjur hafi áhrif lagt ofaní kjörkassana. Þar er ég ekki sammála honum og heldur ekki um gullfiskaminnið ef svo vill til að fólk sé ósammála honum.

Já, og meðal annarra orða, ég held að Pistorius sé sekur og reyndar hélt ég allan tímann sem beinar útsendingar tíðkuðust frá þeim réttarhöldum að O.J. Simpson væri sekur líka. Svona læt ég fjölmiðlana plata mig.

Samkvæmt nýjustu rannsóknum hefur komið í ljós að gullfiskar hafa afburða gott minni og fá aldrei Alzheimer. Svo rammt kveður að þessu að búast má við að einhverjir verði í framtíðinni að endurskoða uppáhalds-replikkurnar sínar. (hér vantar link)

IMG 2604Horft á hafið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband