1874 - Milton Friedman

Almennt virðist fólk vera mun meira á móti stjórnvöldum nú en oftast áður. Orð þeirra eru alls ekki alltaf tekin trúanleg. Í því máli sem hæst ber núna, en það má segja að sé heimsókn FBI-mannanna sumarið 2011, virðist mér augljóst að verið sé að reyna að hylja einhverja slóð, sem almenningur má helst ekki sjá. DV reynir að upplýsa málið, en glímir við neikvætt álit á blaðinu. Margir hafa horn í síðu þess þrátt fyrir að reynt hafi verið að réttlæta forsíðufréttina um barnaníðinginn á Vestfjörðum.

Sjaldan hef ég orðið eins hissa á fréttum í landsfjölmiðlum eins og þegar sagt var frá því að Davíð Oddsson hefði tilkynnt að íslendingum stæði til boða  margra milljarða evra lán frá rússum!! Þetta reyndist svo vera tómur misskilningur. Veit ekkert hvar sá misskilningur lá. Enda skiptir það litlu máli. Enginn vafi er á því að við íslendingar höfum farið mjög illa útúr kreppunni og eigum jafnvel eftir að fara enn verr útúr henni, þrátt fyrir sigurinn í Icesave.

Satt að segja á ég von á því að íslendingar fari að eyða og spenna strax og kosningunum lýkur í vor. Yfirgnæfandi líkur eru nefnilega á því að Sjálfstæðisflokkurinn verði forystuflokkurinn í næstu ríkisstjórn. Við skulum bara vona að hann verði gjörbreyttur. Bjarni Benediktsson gæti breytt honum þrátt fyrir alla sína galla og tengsl við Hrunið. Hann gerir það þó ekki ef hann heldur áfram að taka við skipunum utan úr bæ, eins og maður hefur óneitnalega á tilfinningunni að hann geri.

Það er oft æði tilviljanakennt hvað maður klikkar á í fésbókinni. Reyni oftast að losna sem fyrst við rauðu tölurnar efst til vinstri, en gleymi mér oft við það, sem þar er vísað á. Svo hverfa þær. Sennilega nota ég fésbókina öðruvísi en aðrir. Allt í lagi með það. Bara ef fólk gleymir ekki að kíkja á bloggið mitt. Það er nefnilega nokkuð vel skrifað þó ég segi sjálfur frá. Ég les það nefnilega yfir. Það gera ekki allir. Þegar ég er búinn að því er tungutakið nákvæmlega eins og ég vil hafa það. Það er ekki nóg að lesa einu sinni yfir. Ef einhverju er breytt er nauðsynlegt að lesa allt yfir aftur. Stundum er erfitt að hætta.

Nú er Steven King bókin „Under the dome“ orðin verulega spennandi. Minnir mig um margt á „Sámsbæ – Payton Place“ eftir Grace Metalious (nú kom gúgli sér vel eða réttara sagt Wikipedia, því ég mundi ekki hvernig átti að skrifa ættarnafn höfundarins) Sú bók var gríðarlega vinsæl í eina tíð. Hef ekki lesið margar bækur eftir Steven King en þessi er góð. Segi ekki meir um kúluna sem hvolfdist yfir Chester Mill, en smábæjarlífinu er afar vel lýst af King. (Held ég).

Já, ég er óttalega seinlesinn. Minnir að ég hafi minnst á þessa bók áður í blogginu mínu. Hef aldrei skilið þá sem geta lesið margar bækur á dag. (Eins og t.d. gagnrýnendur fjölmiðlanna virðast/virtust leika sér að fyrir jólin) Mér finnst að ég þurfi að gera svo margt annað líka.

Ríkur sækir ríkan heim. Þetta er þekkt spakmæli, eða reyndar útúrsnúningur á því, sem mér datt í hug þegar ég las blogg-grein Ingimars Karls Helgasonar, um að Milton Friedman, sá frægi frjálshyggjupostuli, væri fluttur til Svíþjóðar. http://blogg.smugan.is/ingimarkarl/2013/02/05/milton-friedman-flytur-til-svithjodar/  Þar grasserar reyndar magnaður sósíalismi og varla getur verið að Milton sé á gamals aldri að sækja í hann. Ingimar Karl er reyndar ekki alveg ópólitískur og segir m.a. í þessu bloggi sínu:

En nú eru frjálshyggjumennirnir að bóna brjóstmyndina af Milton Friedman, og hyggjast bera úr Valhöll og niður á Austurvöll.

Ég hef bara ekki séð þetta enda er það ekkert að marka, því ég fylgist svo illa með.

Viðhengi ekki til staðar
Þetta viðhengi gæti hafa verið fjarlægt, eða notandinn sem deildi því hefur ekki leyfi til að deila því með þér.

Stundum fæ ég svona meldingar frá fésbókinni og skil þær bara alls ekki.

IMG 2468Gæsir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Það er nú ekki hlaupið að því að fara með hann Milton til Svíþjóðar. Á því Herrans ári 2006 flutti hann alfarið til þess velferðarpláss sem heitir Himnaríki, í Sjöunda Himinn, 5. hæð með með svalir til suðurs. Þar er öllu jafnan talið vera betra að vera en í Svíþjóð, nema af Svíum sjálfum og einstaka Íslendingi í dúndrandi afneitun. Þótt Friedman sér í neðra, eins og sumir þráhyggjumenn á Íslandi telja, þá getur það vart verið verra en á Samfylkingar-Íslandi.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 6.2.2013 kl. 12:23

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Villi minn.

Af hverju ertu alltaf að stelast til að lesa bloggið mitt þó þú viljir alls að ég sé bloggvinur þinn eða Fornólfs?

Ég hef spurt þig að þessu áður, en þú svarar bara þeim spurningum sem þér sýnist. Það geri ég líka. Fátt er jafn pirrandi og ísköld þögn.

Sæmundur Bjarnason, 6.2.2013 kl. 17:21

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Fyrirgefðu. Það átti að standa þarna "alls ekki". Sé núna að ekkið hefur týnst eða gleymst.

Sæmundur Bjarnason, 6.2.2013 kl. 17:24

4 identicon

Fyrst smáatriði: Heitir þessi rithöfundur ekki Stephen? Er ekki viss!

Hárrétt hjá þér að við erum ekki, alls ekki, búin að bíta úr nálinni með hrunið og kreppuna sem af því leiddi. Verstur fjárinn er að mér sýnist að vegna þess að flestir íslendingar kunna ekki eða geta ekki hugsað rökrétt, komi þeir til með að kjósa íhaldsframsóknarmafíuna til valda í vor. Skrítinn hugsunarháttur hjá fólki að vilja refsa hreingerningarliðinu fyrir góða tilburði við að þrífa til eftir hyskið. 

Ellismellur 6.2.2013 kl. 18:41

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Ellismellur.

Jú, auðvitað er þetta rétt hjá þér með King. Annars minnir þetta mig á Stephen G. Stephensen sem mig minnir (nenni ekki að gúgla) að hafi samið kvæðið um Jón Hrak og þar standi einmitt:

falin er í illspá hverri

ósk um hrakför sýnu verri.

Það er áreiðanlega mikið til í þessu, en samt held ég að það sé ekki venjuleg illspá að gera ráð fyrir þeirri niðurstöðu úr kosningunum í vor sem þú nefnir.

Sæmundur Bjarnason, 7.2.2013 kl. 01:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband