1867 - Virðing alþingis

Í gær var sérstök umræða á alþingi í tilefni af úrskurði EFTA-dómstólsins. Sú umræða fór nokkuð skipulega og virðulega fram. Það sem á eftir kom var ekki nærri eins virðulegt. Sá það reyndar ekki allt en nógu mikið til að leggja það við það sem ég hef áður orðið var við í útsendingum frá alþingi og fullyrði að engin furða er þó virðing þessarar öldnu stofnunar hafi farið mjög dvínandi undanfarið.

Aldrei gæti ég orðið pólitíkus. A.m.k. ekki á borð við Sigmund Davíð. Mér heyrðist hann hafa ótal tölur á hraðbergi í umræðunum á alþingi í gær. Mér hættir meira að segja til að rugla saman milljónum og milljörðum sem er ógott núna á síðustu og verstu tímum.

Menn fara í ræðustól alþingis með mismunandi hugarfari. Þingmenn gera sér án efa grein fyrir þessu sjálfir. Stundum er farið í ræðustólinn til að segja eitthvað sem hugsanlega skiptir máli. Oft er þó farið í þennan sama stól til þess eins að koma í veg fyrir að aðrir fari þangað og til að eyða þar sem allra stærstum hluta þess tíma sem hægt er. Þetta er ekki aðeins greinilegt í venjulegu málþófi (sem ætti þó alls ekki að vera neitt venjulegt) heldur einnig í svokölluðum „hálftíma hálfvitanna“ og reyndar oftar, en einkum í andsvörum og gagnandsvörum.

Mér virðist sem margir þeirra sem láta í ljós álit sitt á úrskurði EFTA-dómstólsins geri lítinn sem engan greinarmun á honum og Evrópudómstólnum og jafnvel Mannréttindadómstóli Evrópu. Um þetta mætti skrifa langt mál, en sennilega er ég ekki rétti maðurinn til þess.

Margt er það sem fellur í skuggann vegna lykta Icesave-málsins. Eflaust verða nógu margir sem skrifa um það mál. Svo mér ætti svosem að vera óhætt að skrifa um eitthvað annað.

Hef fylgst með bloggi Vilborgar Davíðsdóttur á blogspot.com frá því nokkru fyrir jól. Er sammála flestu sem hún segir um mann sinn og baráttu hans. Þekkti Björgvin þó ekki neitt og hef ekki viljað taka þátt í því vefmiðlastandi sem nú stendur yfir. Óska fjölskyldunni allri samt auðvitað alls hins besta í framtíðinni. Hugsa samt hvað mest um dótturina ungu.

Er allt í einu orðinn spenntur fyrir Steven King sögunni sem ég er að lesa þessa dagana. Hún heitir „Under the dome“. Nú er ég búinn með u.þ.b. fjórðung af henni segir kyndillinn og fram að þessu hefur mér þótt hún heldur sundurlaus og ómarkviss. En höfundurinn er snillingur og hann heldur svo sannarlega öllum þráðum í hendi sér. Hef hingað til alltaf verið svolítið ósáttur við hvað King leggur mikla áherslu á hið yfirnáttúrulega. Hef langmest álit á The Stand og Bachman-bókunum hans en vel getur verið að ég taki hann í sátt ef þessi bók endar ekki í algjörri vitleysu. Hann er stundum langt leiddur af Biblíusýki, en það stafar einkum af því fyrir hverja hann skrifar.

IMG 2450Bolti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband