1863 - Ögmundur og klámið

„Það þarf að bæta grunnþjónustuna á Vestfjörðum og víðar þar sem þess er þörf“.  Erum við að borga þingmönnum laun fyrir að fara í ræðustól alþingis og láta sér þvílík málblóm um munn fara? Ég ætlaði að hlusta á sjónvarp frá alþingi en hætti við það þegar ég heyrði þetta. Ef menn skilja ekki hvað ég er að fara má segja að það sé argasta tautológía að segja að það þurfi að gera eitthvað af því að þess sé þörf.  Auðvitað er skiljanlegt að þingmönnum vefjist stundum tunga um höfuð þegar þeir þurfa að segja eitthvað gjörsamlega óundirbúnir. Þeir hafa þó alltaf þann möguleika að þegja bara. Margir gera það líka. Sumir þurfa þó sífellt að láta ljós sitt skína, jafnvel þó týran sé fremur dauf.

Ætli það hafi ekki verið sumarið 2011 (frekar en 2010) sem ég lenti í hópi þýðenda hjá Bandalagi Íslenskra skáta. Þar var Magnea J. Matthíasdóttir einnig til að byrja með. Það var svo núna nýlega sem ég komst að því á fésbókinni að hún hefði samið bókina Hægara pælt en kýlt. Þó skömm sé frá að segja las ég aldrei þá bók, en nafnið er eftirminnilegt og af einhverjum ástæðum hefur það tekið sér bólfestu í minninu hjá mér. Vissi samt ekki að sú bók væri eftir Magneu. Svo komst ég að því í ofanálag að það er ritgerð um þýðingar og ýmislegt annað eftir hana á Skemmunni en hún á víst að vera læst þangað til árið 2014 svo ég get ekki lesið hana.

Ég er svolítið óhress með að geta ekki lesið allt sem ég vildi gjarnan lesa. Eina ráðið er að fækka áhugamálunum. Mér gengur samt illa við það. Get t.d. ómögulega hætt að dánlóda ókeypis bókum sem mig langar að lesa. Veit samt að ég kem aldrei til með að hafa tíma til að lesa þær. (Hvort stýrir dánlóda annars þolfalli eða þágufalli?) Kyndillinn minn er orðinn næstum það eina sem ég les. Svo fer ég náttúrulega á borðtölvuskrímslið hér til að skrifa og flakka um netið. Bækur les ég ekki orðið nema á kyndlinum. Flakka stundum líka svolítið um netið þar. (Það er svo gott að liggja uppí rúmi við það) en finnst það samt ekki eins þægilegt og að vera hér.

Alveg er ég hissa á Ögmundi á hafa dottið þetta í hug með klámið. Það er líka svo ótrúlegt að nokkur hafi spýtt þessu í hann að hann hefur áreiðanlega fundið upp á því sjálfur. Mikilmennskubrjálæðið er næstum aðdáunarvert. Eftir að Bandaríkjamenn fundu uppá þessu með „community standards“ hefur þetta mál ekki verið neitt átakanlega mikið að trufla bandaríska dómstóla. Ögmundur virðist samt halda í einlægni að allur heimurinn muni sitja og standa eins og honum sýnist. Furðuleg heimska. Sennilega er hann nú samt bara að yggla sig framan í hugsanlega barnaperra og heldur að þeir séu hræddir við hann.

IMG 2425Bónus.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Lög og reglur eru fyrst og fremst ætlað þeim sem eru löghlýðnir til að byrja með. Síðan fer kerfið smám saman frammúr sjálfu sér og setur reglur sem eru almennt hunsaðar. Sem aftur skapar gríðarlega atvinnu fyrir vandamálafræðinga kerfisins á öllum sviðum. Hvenær hrynur þessi vitleysa? Aðeins tíminn getur leitt það í ljós.

Baldur Fjölnisson, 25.1.2013 kl. 21:25

2 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Ögmundur er búinn að missa af mannréttindalestinni. Nú sér hann ekki aðra "lýðræðis"-möguleika fyrir sína kjósendur, en að teika áfram ESB-lest þingflokks-forystu VG.

Þetta er sorgleg staðreynd um mann sem ekki vill fórna neinu fyrir sínar hugsjónir, og lendir þar með í slagtogi með gömlu spillingunni.

Hver er sinnar gæfusmiður í að fylgja hugsjónum sínum og hjarta.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 25.1.2013 kl. 21:40

3 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Sæmundur. Ég fór að skoða Bónus-myndina betur hjá þér. Eru þetta kirkjutröppurnar á Akureyrar-kirkjunni, að himnaríki falskristni-einokunar-kaupmennskunnar?

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 25.1.2013 kl. 21:46

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Nei, þetta eru bara tröppurnar niður í undirgöngin undir Nýbýlaveginn. Það er líka hægt að fara annars staðar upp og það er líka hægt að hjóla alla leið. Vel gert alltsaman en ég man að þeir voru dálítið lengi að þessi. Kannski tóku þeir bara of mikið í einu. Tröppurnar eiga ekkert skylt við Bónus. Áður voru Toyota og Arctic Trucks þarna og þá komu þessar tröppur. Kannski er þetta stæling á Akureyrartröppunum.

Svo er himnastiginn hallærilegi, sem ég birti mynd af um daginn líka utan á (fyrrverandi) Toyota-húsi. Liggur upp á Dalbrekkuna. (ekki Dalveginn).

Sæmundur Bjarnason, 26.1.2013 kl. 00:19

5 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Sæmundur. Líklega eru "eigendur" Toyota-glæpafyrirtækisins þá bæði hægri og vinstri hönd fals-kristni, með óteljandi og illfærum tröppum upp til þeirra "himnaríkis", fyrir fótalúna þræla, og flest alla aðra en þyrlueigendur á framfærslu LÍÚ-mafíunnar.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 26.1.2013 kl. 01:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband