1848 - Tilraun til speki

Þú getur ekki stjórnað því sem gerist, en þú getur stjórnað því hvernig þú bregst við því. Þetta er hægt að segja á margan hátt. Það er hægt að taka allt frá manni, en það hvernig því er tekið og hvernig við því er brugðist er ekki hægt að taka frá neinum, sem ekki vill láta það af hendi. Er þetta þá ekki grundvöllur lífsins? Freud minnir mig að hafi sagt að sóknin eftir ánægju væri grundvöllur mannlegrar tilveru. Er það þá rangt?

Eiginlega erum við ekki nægilega þakkát forsjóninni fyrir hvað hún fer vel með okkur. Erum að reyna að búa okkur til áhyggjur yfir því hvað langt er í vorið. Það er bara ekkert lengra en venjulega. Náttúran bregst aldrei í sínum reglubundnu hreyfingum þó við finnum þær ekki nærri alltaf.

Nú er umfjöllunin um barnaníðinginn orðið svo mikil að það liggur við að maður sé farinn að vorkenna karlvesalingnum. Auðvitað er það pólitísk ranghugsun að láta sér detta slíkt í hug, en ég er bara svona gerður. Kannski finnst honum bara fremd í því að vera svona umtalaður. Verð að viðurkenna að ég hélt að ástæðan fyrir niðurstöðu skýrslunnar og því að karlinn var látinn alveg í friði væri sú að hann væri þroskaheftur. Svo virðist þó ekki hafa verið og er skömm þeirra sem áttu að sjá til þess að málið héldi áfram enn meiri fyrir vikið. Einhverjir hljóta að hætta og rýma til fyrir yngra fólki sem er ekki eins brennimerkt aðgerðarleysinu og hvítþvottinum.

Alltaf reyni ég með öðru að skrifa einsog ég held að lesendur mínir vilji. Best af öllu er samt þegar ég get talið sjálfum mér trú um að það sem mér þykir skemmtilegast að skrifa um sé akkúrat það sem lesendur mínir vilja helst lesa. Hræðilega hlýtur að vera leiðinlegt að þurfa alltaf að skrifa næstum því það sama daginn út og daginn inn. Þannig held ég t.d. að fréttir fari fljótlega að virka á þá sem eru sískrifandi í blöðin um þær. Fá samt aldrei að fara úr húsi. Eru bara látnir þýða einhverjar hundleiðinlegar fréttir og svo er þeim kannski bara hent. Nei, þá er nú betra að geta  bloggað viðstöðulaust um það sem manni dettur í hug.

Sumir eru svo uppteknir af Hruninu að þeir geta bara ekki bloggað um neitt annað. Skelfing held ég að þeim líði illa. Ætli draumar þeirra séu ekki líka um Hrun í öllum mögulegum útgáfum. Sennilega eru þeir oft og mörgum sinnum búnir að upplifa angistina sem fylgdi byrjun hrunsins. Útlendingum sem hér voru um það leyti var vorkunn því þeir skildu alls ekki hvað um var að vera. Man vel eftir að einn sem var að vinna hjá Mjólkursamsölunni (ég var þar næturvörður) spurði mig hvað í ósköpunum væri eiginlega að gerast.

Er ég alltaf að skrifa það sama aftur og aftur með örlitlum orðalagsbreytingum? Ég er orðinn svolítið hræddur um það. Hvernig er öðruvísi hægt að skrifa (blogga) á næstum hverjum degi án þess að segja nokkuð sérstakt? Ekki veit ég það. Samt blogga ég.

IMG 2380Himnastiginn hallærislegi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband