1847 - Nú er manni sagt að dag sé farið að lengja

Með því að skrá þig á fésbókina og ég tala nú ekki um ef þú samþykkir flest sem þar er stungið uppá og lækar og sérar dálítið mikið ertu búinn að gera sjálfan þig að ómerkilegri verslunarvöru. Allar upplýsingar sem fást á fésbókinni eru seldar hæstbóðanda. Ekki þarf samt að gera ráð fyrir að einhverjir misyndismenn komist yfir þessar upplýsingar fljótlega, til þess eru þær alltof almenns eðlis, en vegna þess hve þær eru margar geta þær í framtíðinni orðið nokkurs virði. Enginn veit heldur hvernig hægt verður að nota (eða misnota) þessar upplýsingar seinna meir.

Þegar ég skrifa um pólitík á netið ímynda ég mér að ég sé nægilega grunnur og nægilega djúpur til að nálgast eitthvert meðaltal. Sennilega er þetta tóm ímyndun hjá mér og kannski skiptast lesendur mínir í tvo hópa. Í þeim fyrri eru væntanlega þeir sem vorkenna mér vitleysuna en í hinum þeir sem eru mér að mestu leyti sammála. Hvor hópurinn er svo stærri læt ég lesendur um að ímynda sér. Sjálfur ímynda ég mér áreiðanlega allskyns vitleysu í því efni og sú ímyndun er sífellt að breytast. Jæja, nú er ég hættur þessum speglasjónum.

Leit aðeins á skammstafanirnar sem ég setti á bloggið í gær og sé auðvitað strax að ég hef misritað a.m.k. eina. Það er skammstöfunin WYSIWIG. Hún á auðvitað að vera WYSIWYG, en á því er stór munur eins og allir sjá. Þessi skammstöfun minnir mig að þýði: What You See Is What You Get og er t.d. notuð talsvert í tölvumáli.

Fór áðan út að ganga. Rokið var talsvert og þegar rigningin bættist við sneri ég við. Eiginlega birtir ekkert þessa dagana. Það vantar alveg sólskin svo maður sannfærist um að daginn sé farið að lengja. Nú hefst semsagt biðin langa. Það er að segja biðin eftir vorinu, fuglunum, hitanum, góða veðrinu, sólskininu og græna litnum. Þingkosningarnar í vor eru algjörlega í öðru sæti.

Eiginlega er ég alveg uppiskroppa með myndir núna. Biðst afsökunar á því hvað myndirnar sem fylgja blogginu þessa dagana eru lélegar. Það er líka svo mikið myrkur að það er ekkert sniðugt að taka myndir. Vonandi rætist samt úr þessu fljótlega svo ég þurfi ekki að grípa til gamalla mynda. Það geri ég samt sennilega frekar en að hætta þeim sið að láta eina mynd fylgja hverju bloggi. Þó veit ég það ekki. Kannski hætti ég bara þessari vitleysu.

IMG 2377Dominos.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Gott að veðrið sé milt. Sólin skiptir litlu máli rétt í skammdeginu. Fylgir henni bara kuldi.  

Sigurður Þór Guðjónsson, 10.1.2013 kl. 01:08

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Ég spái því að biðin langa verði frekar stutt þetta árið.  Er líka farinn að bíða eins og þú.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 10.1.2013 kl. 03:06

3 Smámynd: Þorsteinn Jónas Skjóldal Haraldsson

Þú ert ekkert að fara að hætta þessari vitleysu.Jafnvel kjarkmenn eins og ég hafa átt það til að erfiða aðeins þessa sólarlausu mánuði eftir áramót HeHe.

Þorsteinn Jónas Skjóldal Haraldsson, 10.1.2013 kl. 04:27

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jú, birtulega séð skiptir sólin miklu máli. Hún er að vísu ekki lengi á lofti og þegar heiðskírt er verður oft kaldara. Vonandi snjóar ekki mikið núna á útmánuðum. Heitir það útmánuðir af því að þá er maður á leiðinni út úr vetrinum? Datt þetta svona í hug.

Sæmundur Bjarnason, 10.1.2013 kl. 10:30

5 Smámynd: Theódór Norðkvist

Er nokkur munur á Facebook og blog.is hvað varðar markaðsvæðingu samskiptavefja? Er kvótadrottningin í Eyjum sem dælir peningum í Morgunblaðið eitthvað ólíklegri til að selja þennan gagnagrunn sem þessi orð eru skrifuð í í til hæstbjóðanda, heldur en Mark Zuckerberg?

Theódór Norðkvist, 11.1.2013 kl. 04:52

6 Smámynd: Theódór Norðkvist

...heldur en Mark Zuckerberg er til að selja Facebook með öllum sínum upplýsingum.

Átti þetta að vera þarna síðast til að setja hlutina í skýrt samhengi.

Theódór Norðkvist, 11.1.2013 kl. 04:53

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Nei, Eyjadrottningin er ekkert betri, held ég. Zuckerberg er samt óseðjandi. Alltaf að biðja um (eða heimta) nýjar og nýjar upplýsingar og svo hleypir hann allskyns fólki (öppum) að manni. Hún er líka mun minni og ólíklegt að eftirspurnin sé lík.

Sæmundur Bjarnason, 11.1.2013 kl. 13:32

8 Smámynd: Theódór Norðkvist

Það er rétt að það er talsverður munur á útbreiðslusvæði þessara tveggja vefja, allur heimurinn á móti 300 þús. manna smáeyju norður í hafi.

Ég hef svo sem velt því fyrir mér hvað hægt sé að gera til að það sem ég skrifa á vefinn sé mitt eigið efni, ég geti ráðstafað því eins og ég vill og ég geti stjórnað hvar það birtist og hverjir geti afritað eitthvað beint þaðan og dreift því sem sínu eigin.

Ein hugsanleg leið væri að gera mína eigin síðu alveg frá grunni (krefst mikillar kunnáttu í vefforritun) og hafa hana á mínum eigin netþjóni (server.) Jafnvel það myndi ekki duga til því það eru til vefköngulær, fjölvar og allskyns skriftur til að ryksuga efni af vefnum.

Ég lærði t.d. eitt sinn um einn svona fjölva, sem hægt var að mata með vefslóð, hann réðist á vefslóðina, halaði henni niður, fann allar undirsíður (og undirsíður undir þeim o.s.frv.) og halaði þeim öllum niður líka. Ég komst aldrei upp á lagið með að nota hann, en þetta var samt hægt.

Theódór Norðkvist, 12.1.2013 kl. 03:33

9 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

En er það einhvers virði sem maður skrifar á netið? Er ekki bara betra að sem flestir afriti það og dreifi, ef þeim finnst taka því? Þannig hugsa ég oftast nær. Oft ratast kjöftugum satt á munn. Um að gera að skrifa sem allra mest. Tala nú ekki um ef einhver les það allt saman.

Sæmundur Bjarnason, 12.1.2013 kl. 11:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband