1841 - Margrét Tryggvadóttir

Afstaðan til ESB-aðildar er dæmigert spursmál, sem ekki er hægt að komist hjá að taka afstöðu til með já-i eða nei-i. Auðvitað er hægt að bíða með það og ég held að það sé sú afstaða sem flestir hafa. Ég skammast mín ekkert fyrir að vera fremur hlynntur aðild þó andstaðan við hana sé greinilega meirihlutaafstaða nú um stundir. Miðað við þá afstöðu er ekkert skrýtið þó fylgjendur hennar vilji fá atkvæðagreiðslu um málið sem fyrst. Þeir sem fylgjandi eru aðild vilja auðvitað halda viðræðunum áfram og vona eflaust að afstaða almennings breytist með tímanum og þegar öll rök eru fram komin. Umræðan er í hálfgerðu skötulíki núna þegar óvissan er sem mest. Sennilega kærir ESB sig ekkert um okkur.

Áreiðanlega munu flestir (eða allir) flokkar reyna að sveipa mál þetta allt eins mikilli dulúð og hægt er þegar dregur að næstu þingkosningum. Ekki er þó hægt að komast hjá því að velta afdrifum þessa máls fyrir sér í aldraganda þeirra kosninga. Auðvitað hefur stjórnarskrármálið og hvernig alþingi gengur frá því, einnig heilmikil áhrif.

Eflaust á ýmislegt eftir að gerast á alþingi eftir að það kemur saman í janúar. Þetta þing getur orðið fyrir margra hluta sakir mjög merkilegt. Stórtíðindi gætu gerst þar. Þó á ég ekki von á að þingmenn fari að slást.

Í nútímarafmagnsleysi horfir fólk á sjónvarp og fær til þess lánað rafurmagn frá næsta húsi. Þetta var víst á Vestfjörðum og ljósavél sem rafmagnaði sjónvarpið. Mér finnst reyndar Internetleysi vera einskonar nútímarafmagnsleysi. A.m.k. hér í Kópavoginum. Og svo fer klukkan á bakarofninum alltaf í fýlu ef rafmagnið fer.

Sé að ég hef ekki minnst á áramótaskaupið ennþá, en það er víst skylda. Mér fannst það fremur ófyndið, en hló þó að handabandinu milli Jóhönnu og Ólafs. Meira er eiginlega ekki um skaupið að segja, finnst mér.

Sprengináttúra fólks um áramót er undarlegur siður. Eitthvað hefur kvisast út um þennan sérkennilega sið og túrhestar koma hingað til lands til að fylgjast með þessari venju mörlandans. Og svo er nýr siður í þann veginn að skapast þar sem seljandinn verður að skuldbinda sig til að sækja kaupandann uppá eitthvað fjall á vissum tíma ef keyptur er heill Ólafur Liljurós, sem sagður er Grímsson og kann ég ekki meira frá þessu að segja.

Var að lesa grein eftir Margréti Tryggvadóttur þingmann http://blog.pressan.is/margrett/2013/01/02/ad-vera-a-thingi/ og hún var ágæt. Man vel hvað henni hætti til að spenna greipar og vera eins og hún væri að biðjast fyrir þegar hún var að taka til máls á alþingi. Þetta hefur rjátlast af henni og hún er að mínu mati ágætur þingmaður. Veit ekki hvar hún ætlar að halda sig í næstu kosningum, en vafalaust get ég ekki kosið hana frekar en áður. Sagan hennar um Árna Johnsen er lýsandi. Svona starfa alltof margir þingmenn. Árni er einn af fjölmörgum sem þyrfti endilega að hreinsast af þingi. Ekki aðallega vegna þess að hann var á Kvíbryggju á sínum tíma, heldur vegna þess að svona karakterar eiga ekkert erindi á alþingi.

IMG 2270Tréhús. (Í tvennum skilningi.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband