1825 - Óhefðbundnar lækningar o.fl.

Ég geri ráð fyrir að margir hugsi sem svo í næstu kosningum að tími sé kominn til að refsa þeim sem stjórnað hafa landinu undanfarna áratugi. Vandinn er bara sá að leiðbeiningar um hvernig á að fara að því vantar alveg. Þar koma stjórnmálaflokkarnir gömlu sterkir inn. Þykjast allir vera mun betri en hinir vitleysingarnir. Þeir eru bara ekki trúverðugir. Nýju flokkarnir koma til með að sópa til sín fylgi. Eða hvað? Getur verið að fólk verði yfirleitt hrætt um að atkvæði sín falli dauð til jarðar? Flokkurinn þeirra fái svo fá atkvæði að þau nýtist ekki? Kjósi fjórflokkinn mest af gömlum vana. Það getur varla verið. Áhættan er svo lítil. Hafa ekki atkvæðin farið til ónýtis að undanförnu? Er fjórflokkurinn gamli eitthvað betur að þeim kominn en aðrir?

Skoðanakannanir eru einskonar kosning. Fáir plata í þeim. Og þó þeir geri það skiptir það varla máli, því reiknað er með slíku. Ef þeim sem könnuninni stýra er treyst má gera ráð fyrir að könnunin sé nokkuð góð. Auðvitað er hún samt ekki endanleg og þjóðaratkvæðagreiðslur miklu betri. Of mikið má samt af öllu gera og vel er hægt að gera sér í hugarlund að of auðvelt verði að krefjast slíkra atkvæðagreiðslna. Gallinn er bara sá að ef þröskuldurinn er of lágur má frekar búast við leiðréttingu, en ef hann er of hár. Það hefur hann samt verið undanfarna áratugi.

Um daginn kom í ljós að orðið „roskinn“ er ekki skilið sama skilningi af öllum. Einhverjir virðast skilja það þannig að það sé um líkamsvöxt fólks og þýði nánast það sama og feitur. Þessi skilningur kom mér á óvart og ég veit ekki af hverju hann getur stafað né hvort hann sé hugsanlega útbreiddur. Hinsvegar hef ég bloggað um það fyrr, að mig minnir, að orðið „íturvaxinn“ kunni að hafa fegið aukamerkinguna feitur og ef svo er þá veit ég nokkuð nákvæðmlega hvernig sú breyting hefur komið til. Íturvaxinn þýðir nefnilega alls ekki feitur. Ég þykist líka vita hvernig stendur á breytingunni úr „komuð“ í „komuðuð“ (kannski skylt þarna og þarnana) sem birtist í frægum og umtöluðum pistli eftir Cassöndru Björk á Facebook.

Las grein Hörpu Hreinsdóttur um þingsályktunartillögu Ólínu Þorvarðardóttur o.fl. Sú grein er fremur löng en gerir lítið finnst mér fyrir þá sem ekki eru sannfærðir fyrir, á annan hvorn veginn. Sjálfur hef ég orðið fyrir örlitlum vonbrigðum með Ólínu vegna tillögunnar en viðurkenni að fleiri hópar koma til greina varðandi niðurgreiðslur og eftirgjöf virðisaukaskatts en gera það nú. Harpa viðurkennir sjálf að aðrir hópar en græðararnir ættu að koma framar í röðina. Atvinnumál af þessu tagi eru ávallt vandmeðfarin. Harpa nefnir nöfn ótæpilega og ég verð að viðurkenna að umræða sem einkennist af trúaráhuga, Bjarna Randveri, Vantrú o.s.frv. freistar mín ekki.

IMG 1000Mynd tekin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Ég held að Ólínu og hinum kvinnunum stæði nær að leggja til að ríkið sinni með mannsæmandi hætti þeim heilbrigðisþáttum sem eru þegar á þess könnu, áður en það svið verður víkkað út.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 10.12.2012 kl. 10:38

2 identicon

Mig langar að benda þér á orðið "staðanar" sem er fast í mállýsku á norðausturhorninu, í orðasambandinu "annars staðanar". Af því þú minnist á þarnana, sem ég held að sé mállýskubundið orð. Er "komuðuð" ekki bara upphafleg samsetning úr "komuð þið", sem verður í framburði "komuðið" (sem gæti sveigst í "komuðuð" ... ég hef reyndar aldrei heyrt þetta sagt en efast ekki um að það sé til).

Hvað varðar bloggfærsluna mína þá nefni ég nákvæmlega tvö nöfn í henni, nafn Ólínu Þorvarðardóttur og nafn Svans Sigurbjörnssonar. Það er ekkert skrítið því bloggfærslan fjallar um viðbrögð við þingsályktunartillögu sem hann hefur beitt sér mjög gegn og hún mjög varið. Hvernig þú færð út að færslan fjalli um Bjarna Randver, Vantrú eða trúaráhuga er ofar mínum skilningi. Vantrú er nefnd í færslunni því einn aðalvettvangur Svans Sigurbjörnssonar þegar hann tjáir skoðanir sínar á kukli er vefur Vantrúar (en ég tel líka upp hina helstu netmiðlana sem hann tjáir sig á.)

Harpa Hreinsdóttir 10.12.2012 kl. 12:05

3 identicon

* "í orðasambandinu "allstaðanar"" átti þetta að vera, annarsstaðanar er líka til en ég hugsa að allstaðanar sé algengara. Orðasambandið er borið fram eins og um eitt orð sé að ræða, þ.e.a.s. með sterkri áherslu á fyrsta atkvæði.

Harpa Hreinsdóttir 10.12.2012 kl. 12:51

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Harpa, fyrirgefðu. Ég sé núna að ég hef ruglað saman grein þinni og athugasemdum við hana. Auðvitað er það ekki sanngjarnt, en það er eina afsökunin sem ég finn.

Athugasemdir þínar um málfarið eru mjög góðar. Ég talaði bara um þetta útfrá minni reynslu. Man að mamma sagði alltaf kvittering í staðinn fyrir kvittun. Man ekki eftir "þarnana" úr daglegu tali. Sennilega hef ég bara lesið um þetta.

Sæmundur Bjarnason, 10.12.2012 kl. 13:19

5 identicon

Ekki málið ... ég skil vel að athugasemdaslóðinn gefur tilefni til þessarar túlkunar :) Ég takmarka yfirleitt ekki frelsi fólks til að skrifa komment á bloggið mitt og stundum kviknar þras milli einstaklinga sem ekki tengist efni færslunnar beint.

Mig minnir líka að ég hafi lesið um þarnana og hérnana, líklega í sambandi við mállýskur en nú man ég hvorki haus eða sporð á þessu. Kvittering er góð og gegn dönskusletta :) Því miður fer þeim mjög fækkandi.

Harpa Hreinsdóttir 10.12.2012 kl. 21:42

6 identicon

Óhefðbundin stafsetning og ritregla/málfræði eru hættuminni og líka skemmtilegri en óhefðbundnar lækningar/kukl
;)

DoctorE 11.12.2012 kl. 12:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband