1816 - Rafbækur og pólitík

Margir þeirra sem tjá sig um pólitísk málefni á bloggi og í fjölmiðlum eru leiðinlega gáfaðir. Besservisserar par exellence. Einna verstir eru þeir jafnan sem í prófkjörsbaráttu eru og skiptir þá litlu hvort þeir eru í flokkum til hægri eða vinstri. Það er samt oft átakanlegt að fylgjast með vanþekkingu þeirra á alþjóðamálum. Jafnvel mjög flokkslega sinnað fólk sem skrifar í erlend blöð um slík mál er miklu betur að sér og kann betur að leyna eigin skoðunum. Ekki er ég betur að mér en aðrir Íslendingar um þessi mál, en reyni þó að þegja.

Ég skil Jónas Kristjánsson þannig að hann telji líklegt að þriðjungur atkvæða muni falla á smáflokka af ýmsu tagi í kosningunum næsta vor. Þarna er ég honum alveg sammála. Ekki mun ég kjósa neinn af flokkunum fjórum og reikna ekki með að aðrir geri það. Varla þarf að rökstyðja slíka ákvörðun. Nóg er að líta á afreksverkin. Þó vissulega geti vont versnað er útilokað að svo fari endalaust. Áhættan samfara því að gefa fjórflokknum frí er nákvæmlega engin.

Þó stjórnmálin séu leiðinleg er engin leið að láta eins og þau séu ekki til. Fá mál eru þannig vaxin að ekki sé hægt að semja um þau.

Vel getur verið að íslenskar rafbækur sem seljast núna fyrir jólin í íslenskum bókabúðum (og stórmörkuðum) verði aðeins fáein prósent. Einhver nefndi tvö prósent, annar eitt. Það er samt ekki í mjög fjarlægri framtíð að meira en 90 prósent bóka verða aðeins gefnar út sem rafbækur. Sú er framtíðin og íslenskan hefur alla burði til spjara sig sæmilega þar. Bókahillur leggjast þó ekki af, en munu í fyrstunni verða aðhlátursefni og síðar meir verðmætar mjög.

Borðtölvur og stórar fartölvur leggjast hinsvegar fljótlega af. Snertiskjáir eru framtíðin og spjaldtölvurnar og internetið munu leggja heiminn undir sig og gera þjóðríkin hlægileg og óþörf. Harðstjórar munu ekki eiga sjö dagana sæla.

Dagurinn er skammur um þessar mundir og engin skömm að hafa bloggið í styttra lagi. Í pólitíkinni anda menn þungt og búa sig undir grimmileg átök. Þar vil ég helst ekki flækjast fyrir. Þegar mest gengur á þar þykir mér þægilegast að skrifa um einnhvað allt annað.

IMG 2035Hestur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband