1805 - Lettneski baróninn í Álfafelli

Þann 1. September 1958 vann ég í Álfafelli hjá Gunnari Björnssyni og hef verið 15 ára gamall þá. Ástæðan fyrir því að ég man þetta svona vel er að þennan dag var íslenska fiskveiðilögsagan færð út í 12 mílur, ef ég man rétt. Þann dag var starf mitt m.a. að þvo skyggingu af rúðunum í blokkinni sem var áföst vinnuskúrnum. Í Álfafelli vann konan hans Eyjólfs hennar Svanborgar. Hún var þýsk og oftast kölluð Eyfa mín. Af öðrum sem unnu hjá Gunnari um þetta leyti man ég best eftir Hansi Gústafssyni og Lettneska baróninum. Hann var nú víst bara af barónsættum og talaði svolitla íslensku. Einhverntíma var ég að tala um barónstitilinn við hann og hann gerði heldur lítið úr honum og sagði að íslendingar væru allir af barónsættum. Þetta datt mér í hug þegar ég las um ættrakningu „the King of SÍS“.

Lettneski baróninn í Álfafelli var annars merkilegur karakter. Hann sá um öll vandsömustu verkin ásamt Gunnari og hafði lítið fyrir því. Til dæmis við að grafa laukana. Þeir urðu að vera mátulega djúpt grafnir og var það hann sem sá um það og að setja þá í mátulegan hita og mátulega birtu innivið þegar sá tími var kominn. Þegar þetta var voru útlendingar afar fáir á Íslandi. Helst voru það þýsku konurnar sem komu hingað í stríðslok. Mamma hans Jónasar Ingimundarsonar var ein þeirra og hún átti heim í Hveragerði um tíma. Kannski var það á þessum tíma.

Fyrsti bíllinn sem ég eignaðist var keyptur af Gunnari í Álfafelli. Grár Wolkswagen með teinabremsum og heilum glugga að aftan. Við Vignir bróðir áttum þann bíl saman fyrst í stað.

Í dag settum við (aðallega ég auðvitað) plaströr við rennuna sem tekur við öllu vatninu af þakinu og veittum því (vatninu) vestur fyrir húsgafl. Það gekk bara nokkuð vel og vonandi kemur það að einhverju gagni þangað til það bilar.

Allt er enn hálfvitlaust útaf Eir. Ég er alveg sammála því að í alltof mörgum tilfellum hafi tækifærið sem skapaðist við einkarekstur heilbrigðisþjónustunnar verið notað til að moka peningum eftirlitslaust í mafíuátt. Svo er smámsaman að komast upp um þetta um þessar mundir. Öll kurl komast þó aldrei til grafar.

Flest bendir til að eftir dauðann líði manni hvorki vel né illa, heldur verði maður smámsaman að engu, eða afar litlu. Sú er hringrás lífsins. Kynslóðirnar koma og fara. Kenna hver annarri um allt sem miður fer, hvort sem það er verðtrygging eða eitthvað annað. Samt kemur þeim í rauninni ágætlega saman. Þetta er bara einskonar æfing. Rétt til að halda sér í formi. Ádeilan er einkum á það sem í tísku er að vera á móti hverju sinni. Íslendingar eru hvorki sjálfhverfari en aðrir né heimskari. Hérlendir fjömiðlar eru aftur móti afar snoknir fyrir öllu sem kallað er rannsóknir eða skoðanakannanir. Einkum ef það rímar við fordóma fréttamannanna.

IMG 1804Ber.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Lettneski baróninn hefur ekki sagt þér hvað hann sýslaði við áður en hann kom til Íslands og stakk niður laukum?

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 14.11.2012 kl. 18:08

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Nei, og ég held að ég hafi ekki einu sinni spurt hann að því. Veit ekki einu sinni hvað hann hét. (Eða heitir)

Sæmundur Bjarnason, 14.11.2012 kl. 23:22

3 identicon

Konan hans Eyfa hét Irmgard og þau bjuggu lengi í húsinu við Sólvang þar sem Bergljót Eiríksdóttir(giftist seinna Eiði)var með vefstofu.Þetta var mikil gæðakona,ég fór stundum í búðirnar fyrir hana og var þá alltaf boðin inn.Það var lagt á borð fyrir mann og eitthvert góðgæti fram borið.Svo hófst samtal sem var stundum dálítið skondið því hvorug skildi hina vel.Góð og falleg minning.

Þuríður Runólfsdóttir 15.11.2012 kl. 00:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband