1786 - 50 þúsund kall, nei takk

Samkvæmt fréttum er ekki mikil breyting fyrirsjáanleg hjá fjórflokknum í framboðsmálum svona yfirleitt. Það er mikil áhætta samfara því. Litlu flokkarnir gætu grætt verulega á þessu. Stóru flokkarnir telja sig eiga svo og svo mörg atkvæði hér og þar en ekki er víst að þau skili sér í hús allsstaðar. Spakmælið segir að það sé of seint að iðrast eftir dauðann og þeir fjórflokksmenn gætu vaknað upp við vondan draum eftir að prófkjörum lýkur. Fésbókin gæti fengið fimmtíu og eitt þingsæti.

Það var fyrir fisk að þessi garður var ull. Þetta er gáta og ráðingin er sú að í staðinn fyrir fisk kemur langa og fyrir ullina lagður.

Þráinn Bertelsson gefur bókum svona 5 síðna séns og kvikmyndum sennilega 5 mínútur. Ég gef aftur á móti kvikmyndum engan séns eða a.m.k. langt innan við eina mínútu. Með bækur er þessu öðruvísi farið. Íslenskar bækur fá 10 blaðsíðna séns eða jafnvel meira. Bækur á ensku fá aftur á móti í mesta lagi formálaséns. Enginn hörgull er á bókum samt, en lestrartími fer minnkandi og leshraðinn eykst ekkert. Mest gaman þykir mér að glugga í bækur hér og hvar. Bækur henta að sjálfsögðu misvel fyrir slíkt. Skáldsögur illa. Asnalegastur er samt einn vani sem hefur ágerst hjá mér að undanförnu, en það er að lesa u.þ.b. helming af bók og hætta svo.

Rakst á eftirfarandi einhversstaðar á netinu. Líklega á Mbl.is.

„Flokksvalið sem verður rafrænt fer fram 16. – 17. nóvember nk. og rennur framboðsfrestur út laugardaginn 27. október nk. kl. 19.00. Þátttökugjald í flokksvalinu er 50.000 kr., en fyrir námsmenn 20.000 kr. eins og kveðið er á um í skuldbindandi reglum um aðferðir við val á framboðslista,“ segir í fréttatilkynningu frá Samfylkingunni.“

Verð nú að segja eins og er að ekki er furða þó mannvalið sé lítið á alþingi ef greiða þarf fyrir það eitt að fá að koma til greina í prófkjöri. Andskotinn hafi það.

Er það kannski svo að eftir að ég er dauður verði bloggskrifin hjá mér það helsta og auðfundnasta sem ég hef skilið eftir mig.

Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama.
En orðstír
deyr aldregi
hveim er sér góðan getur.

Segir í hávamálum. Sennilega er það alveg rétt. Eftir dauðann heldur maður sennilega helst áfram sem einhverskonar minning. Fyrst hjá „frændum“ en svo hjá öðrum, en er nokkuð unnið við það? Væri ekki alveg eins gott að vera bara í himnaríki og hundleiðast þar. Annars geta draumar verið bráðskemmtilegir og kannski er dauðinn það líka. Enginn nennir a.m.k. að koma aftur.

IMG 1729Fuglahús.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekki veit ég hvernig 4flokkur fær einhver atkvæði yfirhöfðu. Maður hefði talið að það væri bara þröngur hópur ruglukolla sem kýs þennan fáránleika og spillingarbæli heimskunnar sem 4flokkur er

DoctorE 15.10.2012 kl. 11:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband